25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (688)

12. mál, skemmtanaskattur

*Frsm. meiri hl. (Guðrún Lárusdóttir):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er komið frá hv. Nd. og er flutt eftir beiðni stjórnar Ungmennasam­bands Borgarfjarðar. Efni frv. er hér nokkuð kunnugt mál, þar sem það hefir legið fyrir þing­inu a. m. k. tvisvar sinnum áður, en hefir ekki náð afgreiðslu. En saga ungmennafélaganna yfir­leitt er í raun og veru þess virði að hún verði varðveitt í þingtíðindum þjóðarinnar, því að þar er um að ræða töluvert merkilegar tilraunir til menningarstarfsemi, og eftir þennan félagsskap liggur býsna mikið starf. — Sagan hefst í raun og veru á því, að ungir og áhugasamir menn leita út fyrir landsteinana, kynnast framförum annara þjóða og fyllast löngun til þess að flytja heim í land sitt þá menningu, sem þeir hafa kynnzt, og berjast fyrir ýmsum nýjungum, þegar heim kemur. Það var laust eftir aldamótin, að ungmennafélagsskapurinn hér á landi var stofnaður. Fyrir honum gengust menn, sem ég hirði ekki um að nafngreina, enda þótt maður þekki ýmsa þeirra persónulega. Það, sem þeir fyrst og fremst lögðu stund á, voru alls konar þjóðræknismál, svo sem fegrun móðurmálsins, endurvakning gömlu íslenzku glímunnar, ýmsar íþróttir, sund og skíðaíþrótt, og hitt og annað, sem þeir vildu vekja menn til að hefjast handa um. En auk þess hafði þessi félagsskapur eitt mikilsvarðandi siðgæðismál þjóðarinnar á dag­skrá sinni, sem sé bindindismálið. Og enda þótt eitthvað hafi máske breytzt með sumar fyrir­ætlanir þessa félagsskapar frá því í fyrstu, þá hygg ég, að talsvert af því, sem hann ætlaðist fyrir um, hafi komizt í framkvæmd, og ýmislegu hefir hann bætt við sig, svo sem sjá má af fskj. því, sem fylgir þessu frv., sem hér liggur fyrir til umr. Og vildi ég sanna mál mitt með því að lesa upp úr því fáeinar setningar, með leyfi hæstv. forseta. Þar segir m. a. svo: „Þegar héraðsskóli Borgfirðinga var byggður í Reykholti, færðist ungmennasambandið það þrekvirki í fang að taka að sér 20 þús. kr. greiðslu af áföllnum kostnaði“. Ennfremur segir, að meðal þeirra mála, sem nú séu á döfinni í Ungmennasambandi Borgarfjarðar, sé „bygging húsmæðraskóla fyrir héraðið og bygging borg­firzks æskulýðsheimilis. Mun hvorttveggja að líkindum eiga nokkuð langt í land, einkum vegna þess, hve fjármagn er lítið“. Þá segir ennfremur: „Auk þessa, sem að framan er skráð, hefir í Ung­mennasamband Borgarfjarðar frá fyrstu tíð haft fjölda mála til meðferðar, sem ýmist hafa miðað til aukinnar borgfirzkrar menningar eða alþjóð­legra heilla. Þarf ekki annað en minnast á fé það, er það veitti til viðgerðar á Snorralaug, og margt fleira“. — Hér er aðeins tekið fram þrennt af því, sem talað er um í fskj. En af miklu meiru er að taka, en þetta þrennt nægir til þess að sýna, að hér er félagsskapur, sem ætlast mikið fyrir. Þess vegna, segir í þessu sama fskj., ef þetta félag getur ekki eignazt það fjármagn, sem það þarf til þess að standa undir þeim kostnaði, sem af öllum þessum framkvæmdum leiðir, þá vitanlega kippir það úr framkvæmdum þess.

Ég get ekki stillt mig um að benda á enn eitt, sem þetta ungmennafélag og sjálfsagt fleiri ungmennafélög á landinu hafa til brunns að bera. Það er það, sem talað er um hér í fskj., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: .,Hinsvegar er það vitanlegt, að víða á landinu hafa ungmennafélögin verið ekki veigalítill þátt­ur til viðhalds sveitanna. Þeim er það m. a. að þakka, að æskan hefir ekki með öllu horfið úr sveitunum“.

Ef menn nú hugsuðu eins alvarlega um þetta og vert er, ef þessi félagsskapur hefir m. a. orðið til þess, að æskan hefir ekki horfið úr sveitum landsins eins og annars hefði orðið, þá á hann þakkir skilið fyrir það starf. Mér virðist, að þeir menn, sem vinna á móti straum unga fólksins úr sveitunum til kaupstaðanna, eigi skilið að fá viðurkenningu Alþ. á hvern þann hátt sem þeim kemur bezt. Ég skal nú ekki dæma um, hve mikil sannindi eru í þessum orð­um, sem ég tilfærði áðan úr fskj. frv. En ekki tel ég þó, að þetta hefði verið ritað og borið fram hér á Alþ., ef það hefði ekki við einhver rök að styðjast. Það er með þetta og fleira í huga, sem ég mæli með samþykkt þessa frv.

Helzta tekjuleiðin, sem þessi félög byggja starfsemi sína á, eru þessi árlegu héraðsmót. Ef lagðar eru miklar hömlur á þetta mót, svo sem með háum skemmtanaskatti, þá hljóta fram­kvæmdir þeirra að takmarkast mjög mikið við það. Það væri tjón, ekki fyrst og fremst fyrir þennan félagsskap, heldur fyrir sýslufélögin, sem eiga kost á hinum góðu starfskröftum þessara félaga.

Frv. þetta hefir verið hér á ferðinni áður. Í annað skipti, þegar það lá fyrir þessari hv. d., mun það hafa strandað á allmörgum brtt., sem bornar voru fram við það. Það má kannske segja um þetta, að sætt sé sameiginlegt skipbrot og að þessi félagsskapur eigi ekki meiri rétt á að fá undanþágu um skemmtanaskatt en hver annar félagsskapur, sem beitir sér fyrir góðu málefni. Ég ætla ekki að deila um það. En ég tel illa farið ef þessum æskulýðssamtökum er neitað um ívilnun þá, sem hér er farið fram á og þau þarfn­ast svo mjög að fá.

Ég held, að þeir hv. þdm., sem yfirleitt vilja viðurkenna gagnsemi þessa félagsskapar, ættu að greiða atkv. með því, að frv. þetta verði samþ. eins og það kemur fyrir óbreytt því að brtt. við það, ef samþ. væru, gætu orðið því að fjör­tjóni. Og það væri skaði, ef málið yrði að stranda á því. Mér fyndist það mjög viðeigandi sumar­kveðja frá hæstv. Alþ. til þessa félagsskapar að samþ. þetta frv. breytingalaust, og ég teldi það jafnvel góðs vita fyrir Alþ. Því að „ef æskan vill rétta þér örvandi hönd, þá ertu á framtíðar­vegi“, segir skáldið. Ef Alþ. hefir opin augu fyrir starfsemi þessa félagsskapar, sem vill starfa til gagns fyrir land og þjóð, þá ber því að samþ. þessa ívilnun, sem þennan félagsskap munar nokkru að fá.