25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

12. mál, skemmtanaskattur

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég gat ekki orðið samferða meðnm. mínum með því að skrifa undir nál. í þessu máli. Það er þó ekki svo að skilja, að ég vilji alveg ganga á móti málinu, ef sú leiðrétting kynni að fást á því, sem ég tel æskilega. Í n. virtist mér ekki blása byrlega fyrir því, að fleiri undanþágur yrðu gefnar heldur en þær, sem frá greinir frá. Og ef hv. þd. yfirleitt fellst á þá till., að undanskilja aðeins héraðsmót ungmennafélaga frá þessum skatti, þá tel ég, að svo mikið misrétti sé þegar orðið á milli ýmissa staða á landinu og ýmissa stétta, að ég geti ekki fylgt það. Ég hefi því borið hér fram brtt. á þskj. 291, sem fer fram á það, að skemmtanasamkomur verkalýðsfélaga, sem haldnar eru góðgerða- eða menningarskyni. megi einnig komast undir það að verða undanþegnar skemmtanaskatti. Ég skal á engan hátt draga úr því, að ungmennafélögin séu alls góðs makleg til þess, að felldur sé niður skemmtanaskattur af samkomum þeirra. Þau hafa margt gott gert með menningar- og góðgerðastarfsemi í landinu. Þarf ég því ekki að svara hv. frsm. í því efni.

Nú hefir það verið svo til skamms tíma, að skemmtanaskatturinn hefir aðallega lent á kaupstöðum landsins, og tekjur af honum því aðallega komið þaðan. Ég neita því ekki, að margar skemmtanir eru haldnar í kaupstöðum, sem rétt er að leggja skemmtanaskatt á. En það er til í kauptúnum og bæjum starfsemi, sem ég tel, að sé jafnrétthá til þess að vera undanþegin skemmtanaskatti eins og starfsemi ungmennafélaganna. Þó að ég hafi sérstaklega nefnt verklýðsfélögin, þá er mér fullljóst, að til er margvíslegur félagsskapur, bæði hér í Reykjavík og öðrum kaupstöðum, sem heldur skemmtanir til þess að vinna að einni og annari góðgerða- og menningarstarfsemi. Og það er í mjög mörgum tilfellum eina leiðin, sem félög og félagasambönd hafa til þess að afla sér fjár, að halda skemmtanir. Nú hefir Alþ. á seinni árum yfirleitt hert á þessari kvöð, sem hvílir á skemmtunum. Hér í Reykjavík er það orðið svo, og ég hygg, að sama megi segja viðvíkjandi öðrum stöðum á landinu, að þessi skattur er orðinn um 41% af tekjunum af þessum skemmtisamkomum. Það er því sýnt, að hér er búið að spenna bogann svo hátt viðvíkjandi þessum skatti, að ýms félagasambönd í bæjum verða sennilega að leggja niður allar slíkar skemmtisamkomur, vegna þess að allar tekjur af þeim fara í kostnað, en ekki verður um neinn beinan ágóða að ræða. Ég þekki til þess í verkalýðsfélögum, að haldnar eru skemmtanir til að aura saman til menningar- og góðgerðastarfsemi. Mín reynsla hér í Reykjavík er sú, að skemmtanir, sem sóttar eru í minna lagi, er útilokað, að geti verið haldnar með slíkum skatti áhvílandi, og þar með er þá útilokað, að hægt sé að afla tekna af þeim, vegna þess að hreinn ágóði verður enginn af þeim.

Það má vitanlega fara þá leið að hækka skemmtanaskatt yfirleitt. En ég hygg þó réttara að fara hina leiðina, að greina á millí þess, í hvaða augnamiði þessar skemmtanir eru haldnar, og fella niður skattinn af þeim með öllu í sumum tilfeilum, þ. e. þegar þær eru haldnar í menningar- eða góðgerðaskyni. Í það félagi, sem ég um 20 ára skeið hefi starfað í, hefir verið haldin jólaglaðningur fyrir börn félagsmanna árlega, þ. e. jólatrésskemmtanir. Þetta sama reyna mörg félög að gera fyrir börn meðlima sinna. En kostnaðurinn við þessar jólatrésskemmtanir er svo mikill, að félögin rísa ekki undir honum nema með því að aura saman til þess með skemmtunum á öðrum tímum ársins. Nú lítur út fyrir, vegna þessa háa skemmtanaskatts, að þessar jólatrésskemmtanir barnanna verði alveg að leggjast niður, vegna þess að engin von er til þess að ná tekjum til þeirra af almennum skemmtunum. Þótt ég nefni þessar skemmtanir sérstaklega, þá eru haldnar hér margar skemmtanir og beint í gróðaskyni fyrir góð málefni, sem margir vilja styðja, t. d. nú á sumardaginn fyrsta voru haldnar hér skemmtanir fyrir börn á barnadaginn, og ég veit ekki betur en að þær skemmtanir hafi allar verið skattlagðar hér í bæ. Mundi nú nokkur mæla á móti því, að þar sem verið er að vinna að velferðarmálum barna hér í bæ, ættu skemmtanir í slíku augnamiði að vera skattfrjálsar? Ég býst við, ef menn svara þessu hreinskilnislega, þá áliti þeir, að ekki eigi að skattleggja slíkar skemmtanir. Er hér nú nokkuð minni nauðsyn að hlynna að þessari starfsemi fyrir börn hér í bænum heldur en þeirri, sem ungmennafélögin, sem er mjög virðingarvert, hafa haldið uppi í sveitum landsins? Við þurfum sannarlega í bæjunum að gera eitt og annað til þess að skapa yngri kynslóðinni skilyrði, sem vega upp á móti því, sem gert er fyrir æskuna í sveitum landsins.

Ég gæti nefnt fleira. T. d. er mjög útbreiddur félagsskapur í landinu, sem konur hafa beitt sér sérstaklega fyrir, sem er slysavarnafélagsskapurinn. Konur hafa beitt sér fyrir að safna fé til þeirrar starfsemi með skemmtunum. Vill nokkur neita því, að slíkur félagsskapur eigi skilið að vera undanþeginn skatti? Þessi félagsskapur sér nú fram á, að óbreyttum ástæðum, að hann verður að leggja niður fjáraflanir með skemmtunum vegna þess háa skatts, sem búið er að leggja á allar skemmtanir.

Ég sé, að hv. þm. Vestm. hefir komið með brtt. við mína brtt., og bætir hann þar við félagsskap, sem hann nefnir líknarfélög. Ég er alveg sammála þeirri brtt. Ég get ekki séð, að hæstv. Alþ. geti með sanngirni mismunað svo stéttum á landinu, að velta einum félagsskap undanþágu þá, sem frv. fjallar um, en skilja eftir annarskonar félagsskap, sem ekki siður berst fyrir menningarmálum. Því að vitanlega gildir þessi undauþága frv-. ekki eingöngu um héraðsmót, haldin í Borgarfirði, heldur um öll héraðsmót víðsvegar um land.

Ég vænti, að hv. þdm. sýni góðan skilning á að undanþiggja einnig skemmtanaskatti skemmtanir í kaupstöðum, sem haldnar eru til menningar- og góðgerðastarfssemi, og um það er till. í minni brtt., og nokkru fyllra tekið í brtt. hv. þm. Vestm.