25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

12. mál, skemmtanaskattur

*Frsm. meiri hl. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég vil ekki mæla bót hinum háa skemmtanaskatti, en hér er um að ræða ívilnun fyrir ungmenna­félagasambönd, sem er tæplega hægt að neita þeim um. Hv. 3. landsk. sagði allt rétt um erfiðleikana á að halda félagsskemmtanir vegna skattsins. En vill þá ekki hv. 3. landsk. bera fram nýtt frv. um breyt. á skemmtanaskatti? Ég mundi greiða atkv. með slíku frv.

Hv. þm. sagði raunalegar sögur af því, hvað erfitt væri fyrir fátæk félög að berjast fyrir menningarmálum. En ég á bágt með að trúa því, að jólatrésskemmtanir verkalýðsfélaga séu skattlagðar. Ég veit, að félag, sem ég stend nærri, fær ávallt undanþágu frá skatti, þegar það leitar til yfirvaldanna. Enda gengur það nokkuð langt, að skattleggja skemmtanir, sem aðeins eru haldnar innanfélags.

Það er ekki til neins að lengja umr. Atkvgr. mun sýna, hvað menn vilja í þessu efni. En þó að brtt. verði felldar, er það ekki vottur þess, að þdm. meti ekki að fullu starf þeirra félaga, sem nefnd hafa verið.