07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (70)

1. mál, fjárlög 1939

*Árni Jónsson:

Ég ætla að leyfa mér að segja nokkur orð um þær brtt., sem ég flyt hér á þskj. 494 og 460; að tveimur er ég fyrri flm., en þriðju till. flyt ég ásamt tveim öðrum þm.

Það er þá fyrst brtt. á þskj. 494, sem er um á00 kr. ritlaun handa Guðfinnu Þorsteinsdóttur, er gefið hefir út kvæðabók undir nafninu „Erla“. Það er nú ákaflega mikið gefið út af kvæðabókum um þessar mundir, og ég býst við, að fleiri en ég verði oft fyrir vonbrigðum, þegar slíkar bækur koma fyrir sjónir manna, en svo var ekki með þessa bók, heldur þvert á móti. Ég — sem þekki ofurlítið til um hagi þessarar konu — varð satt að segja alveg undrandi yfir því, hvað bókin var góð, snjöll og skáldleg, hagmælskan mikil og hugmyndaflugið auðugt. — Þessi kona, sem hér á hlut að máli, er fátæk barnakona, gift einyrkja í Vopnafirði. Ég hygg, að hún sé 10 barna móðir, og þarf því ekki að lýsa því, hvílíkum önnum slík kona er hlaðin og áhyggjum hún á við að búa í lífsbaráttu sinni. Þess vegna mátti búast við því, að ekki væri um dýrgripi að ræða frá hendi slíkrar konu, sem frá almennu sjónarmiði vissulega hefir ekki mikil skilyrði til þess að skapa listaverk. Hún hefir í þessari bók sjálf lýst högum sínum ofurlítið. Það hefðu verið ákaflega góð meðmæli með þessari bók, ef maður vildi eyða tíma þingsins til þess að lesa upp nokkur kvæði úr henni, og ég skal ábyrgjast, að það hefðu verið beztu meðmælin, sem ég hefði getað borið fram með þessari till. En ég ætla nú samt ekki að eyða tíma þingsins í það, vegna þess að mér er kunnugt um, að þessi bók er í höndum margra hv. þm., og þeir geta því af eigin reynd kynnt sér hana. Ég ætla þó aðeins að lesa upp úr tveimur smákvæðum. Hið fyrra heitir „Höll og hreysi“:

Inni logar lampatýra í lágum ranni.

Lýsa striti' og örbirgð inni

illa vistleg húsakynni.

Baðstofan er átta álna, örmjó kytra.

Þar er miðstöð allra anna;

einnig býr þar tugur manna.

Út um gluggann oft ég stari annars hugar.

Hreysið lága hverfur sýnum.

Höll þar birtist sjónum mínum.

Hitt kvæðið, er ég vildi lesa upp fáein erindi úr, heitir „við hliðið“:

Nú leyst hafði dauðinn öll líkamans bönd,

og liðin var sálin til hæða,

en þrátt fyrir kviðann, sem þjakaði önd,

hún þráði við skiptin að græða.

Hún staðnæmdist utan við harðlokuð hlið

og hugsar með skelfingu' um Pétur,

sem stendur þar allsherjar-vigtina við

og vegur hvern syndara og metur.

Hún vissi ekki raunar hvað reikningnum leið,

sem ritaður geymdist á hæðum,

en hórsekra galopið helviti beið;

það heyrði' hún af mannanna ræðum.

Hún gekk þess ei dulin, að dæmd var hún hart

í dómstólum þeirra á jörðu.

Þótt brytu þeir sjálfir svo mikið og margt,

það mildaði ei dómana hörðu.

Hún drepur með varúð á himinsins hlið og hneigir sig djúpt fyrir Pétri

og reynir að hugga sig vonina við,

að verði hann mönnunum betri,

en postulinn kveðjunni tæplega tók,

er til hans hún augunum renndi;

hann fletti í sífellu blekugri bók

með bleikri og skininni hendi. —

Ég ætla nú ekki að lesa meira, þótt úr miklu sé að velja, því að í þessari bók mætti benda á mörg kvæði, sem standast samanburð við kvæði þeirra manna, er talin eru í þjóðskáldaröð. Hagmælskan í ferskeytlunum t. d. er svo mikil, að menn eins og Jón Bergmann og Örn Arnarson gætu verið fullsæmdir af. — Eg tel rétt að geta þess, að þótt þessi kona hafi lítið látið á sér bera, þá hefir hún þegar vakið á sér svo mikla athygli, að menningarsjóður hefir veitt henni 500 kr. styrk. Það er mjög þakkarvert, því að í því felst viðurkenning á því, að hér sé ekki um alvanalegt verk að ræða, heldur muni það skara nokkuð fram úr.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð öllu fleiri. En mér hefir verið bent á það, að ef til vill væri ekki heppilegt til að byrja með að fara fram á það, að þessi kona verði sett inn á 18. gr., eins og ég hefi gert að till. minni — og ég veit, að verður, þegar fram líða stundir —, heldur 15. gr., og mun ég bera fram skriflega brtt. um þetta. Geri ég mér þá fyllilega vonir um, að þessi lifla brtt. mín nái eindregnu samþykki hér á Alþ.

Þá á ég hér aðra brtt. á þskj. 460, Vl, sem er um 1200 kr. — og 1000 kr. til vara — handa Brynjólfi Þorlákssyni söngkennara. Hann er nú mörgum hv. þm. — sérstaklega þeim eldri — að góðu kunnur frá gamalli tíð, því að fyrir 20–30 árum var það einmitt sá maðurinn, sem hélt uppi sönglífi bæjarins. Hann var þá söngstjóri í einu vinsælasta söngfélagi bæjarins, „Kátir piltar“. Og þó að mönnum kunni nú að hafa farið fram að ýmsu leyti í söngteknikinni, ef svo mætti að orði komast, þá hygg ég, að vart hafi heyrzt hér öllu skemmtilegri og hressilegri söngur heldur en hjá þessu félagi, sem óhætt er að fullyrða um, að ekki hafi kafnað undir nafni sinn. Annars var Brynjólfur hér organisti við dómkirkjuna, kennari við barnaskólann, kvennaskólann og menntaskólann, og get ég borið um það af eigin reynd frá minni skólatíð þar, hvílíkan áhuga hann hafði á því að efla og þroska sönglist og sönglíf meðal skólapilta. — Það vill nú svo til, að hér á Alþ. eiga sæti 10–12 menn, sem notið hafa tilsagnar þessa söngkennara, og ég efast ekki um, að þeir muni allir vilja minnast sins góða og gamla söngkennara með þakklæti fyrir þá leiðbeiningu, sem hann hefir gefið þeim í þessari list. Eg hefði gaman af að telja þessa menn upp, og, vil ég fyrst nefna hæstv. forsrh., hv. þm. V.-Ísf., sem er einn af skólabræðrum mínum, hv. þm. Hafnf., hv. 9. landsk., hv. 2. þm. Rang., og ekki má gleyma hv. 3. þm Reykv. og formanni Sjálfstæðisfl., hv. þm. G.-K., eða borgarstjóranum í Reykjavík, sem er kunnur söngmaður; þá má og nefna hv. 6. landsk., og loks síðast, en ekki sízt landlækni, sem var einn af snjöllustu nemendunum. Ég efast ekki um, að allir þessir hv. þm. munu vera á einu máli um það, að Brynjólfur Þorláksson hafi verið hinn ágætasti kennari í sinni grein, og að þeir muni láta hann njóta þess, þegar hann á efri árum sínum sækir um ofurlítinn ellistyrk. — Ég efast ekki um. að ef svo hefði verið komið fyrir 25 árum, að áhugi manna á karlakórssöng hefði verið eins mikill og nú, þá hefði aldrei komið til þess, að hann hefði orðið að flýja land. Það fór svo, að hann fluttist vestur um haf árið 1914, og var í kringum 20 ár í þeirri útlegð. En því fór fjarri, að hann hvikaði frá stefnu og áhugamáli. Hann hefir unnið allra manna mest að því að efla sönglist meðal íslenzka þjóðarbrotsins vestan hafs, og ég hefi séð ummæli þarlendra manna um það, að hann hafi reynzt þar frá þjóðernislegu sjónarmiði einhver okkar bezta stoð. Þá vil ég geta þess, að með umsókn Brynjólfs liggja mjög lofsamleg ummæli og eindregnar áskoranir til Alþ., um að verða við þessari ósk hans, frá 20 söngkennurum og söngsfjórum.

Ég ætla svo ekki að hafa fleiri orð um þetta, en ég vona, að hv. þm. taki vel undir þessa málaleitun.

Að endingu er ég svo ásamt tveimur þm. Reykv. flm.till. á þskj. 460, IIl, um 5000 kr. handa Íþróttafélagi Reykjavíkur til kaupa á Kolviðarhóli. Ég geri ráð fyrir að aðalflm. till. skýrt nánar frá þessu máli. Ætla ég þess vegna ekki að tala meira um það. Ég geri mér vonir um, að þessar litlu brtt., sem ekki munar mikið um, þó að bætist á fjárl., nái fram að ganga.