25.02.1938
Neðri deild: 8. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (703)

19. mál, bókhald

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Það verður ekki um það deilt, að það er nauðsynlegt fyrir öll atvinnufyrirtæki, sem hafa nokkurt verulegt fjármagn milli handa, að hafa sem gleggst reikningshald. Það er nauðsynlegt fyrir atvinnurekendur, til þess að þeir geti á hverjum tíma haft sem bezt yfirlit yfir reksturinn. Það er einnig nauðsynlegt fyrir þær lánsstofnanir, sem lána þessum fyrirtækjum fé. Og í þriðja lagi má benda á, að þar sem gjöld einstaklinga og stofnana miðast nú að verulegu leyti við eignir og tekjur þessara aðilja, þá er það nauðsynlegt, að reikningshald þeirra sé þannig, að sem gleggst yfirlit fáist um þetta þar. Lög þau, sem nú eru í gildi um verzlunarbækur, frá 1911, eru orðin að ýmsu leyti ófullnægjandi og úrelt. Það er því brýn þörf nýrra laga um þetta. Frv. um bókhald hefir tvisvar áður legið fyrir Alþ., og í seinna skiptið á síðasta þingi, en það náði ekki fram að ganga. Allshn. hafði málið þá til meðferðar, og sendi hún frv. til nokkurra stofnana hér í bænum og leitaði álits þeirra um það. Þær stofnanir, sem leitað var til og sendu álit sitt, voru: Samband ísl. samvinnufélaga, Verzlunarráð Íslands, Landssamband iðnaðarmanna og Félag löggiltra endurskoðenda. Ég hefi kynnt mér það, sem þessar stofnanir hafa við frv. að athuga. og hefi ég tekið nokkuð af þeim aths. til greina í þessu frv. mínu. T. d. er fresturinn til að fullgera reikningshald lengdur. Eina aths. frá Félagi löggiltra endurskoðenda og Verzlunarráðinu hefi ég þó ekki getað fallizt á. Þessi félög vilja afnema ákvæðin um það, að bókhald skuli vera tvöfalt. Félög þessi gera þó enga aths. við ákvæði frv. um yfirlitsreikninga um reksturinn, en með færslu þeirra yfirlita er bókhaldið raunverulega orðið tvöfalt. Kostir tvöfalda bókhaldsins fram yfir það einfalda eru þeir, að það er miklu meiri trygging fyrir því, að bækurnar séu rétt færðar. Ég get því ekki fallizt á að fella þetta ákvæði niður. Þeir, sem hafa gert aths. við þetta, virðast kviða því, að þetta muni auka ýmsum smærri fyrirtækjum kostnað við bókhald. En með tilliti til undanþágu fyrir smæstu fyrirtækin í 3. gr. og heimildir til undanþágu í 4. gr., get ég ekki fallizt á, að nokkru fyrirtæki sé íþyngt um of með þessu ákvæði. Flest stærstu fyrirtækin hafa nú þegar tvöfalt bókhald, og breytir þetta því engu hjá þeim, en mér er þó kunnugt um, að það eru til stór verzlunarfyrirtæki hér í bænum, sem aðeins hafa fylgt lagabókstafnum og hafa ekki nema einfalt bókhald.

Ég vil svo óska, að þessu frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til allshn. Og með tilliti til þeirrar athugunar, sem málið fékk í n. á síðasta þingi, vil ég mega vænta þess, að n. sjái sér fært að afgr. það hið allra fyrsta, svo að málið geti fengið fullnaðar afgreiðslu á þessu þingi.