07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

1. mál, fjárlög 1939

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég á hér tvær brtt. við fjárl. Önnur er á þskj. 425, XXVII, um það að veita Ásgeiri Þ. Ólafssyni dýralækni utanfararstyrk til þess að kynna sér loðdýrasjúkdóma og meðferð á þeim. Þessi brtt. lá fyrir síðasta Alþ., og var þá flutt samkv. beiðni Búnaðarsambands Borgarfjarðar, og var lögð fyrir hv. fjvn. með eindregnum meðmælum frá landbn. Ástæðan til þess, að óskað hefir verið eftir því, að Ásgeir Þ. Ólafsson færi utan til þess að kynna sér meðferð á loðdýrasjúkdómum og lækning á þeim, er sú, að eitt af þeim ráðum, sem upp hafa verið tekin til þess að reyna að byggja upp aftur atvinnurekstur manna, sem á fjárpestarsvæðunum búa, sem a. n. l. hefir hrunið vegna veikinnar og afleiðinga hennar, er það, að menn hafa farið meir og meir að stunda loðdýrarækt. Og þá er öllum hv. þm. ljóst, hversu mikil nauðsyn er á því fyrir íbúa þessara svæða, að maður með sérþekkingu á loðdýrasjúkdómum og meðferð þeirra geti veitt þessum mönnum aðstoð sína. Þetta verður sérstaklega aðkallandi, ef loðdýraræktin gæti að einhverju leyti byggt upp aftur það, sem hrunið hefir af atvinnumöguleikum manna á þessum svæðum, og er þá öllum hv. þm. ljóst, að hér er ekki kostað of miklu til þess, að loðdýrastofninn falli ekki eins og sauðfjárbústofn manna á þessum svæðum hefir fallið, þó að bændur á þessum svæðum geti fengið að njóta þess að hafa dýralækni með sérþekkingu á loðdýrasjúkdómum og meðferð þeirra. Þessi till. náði samt ekki fram að ganga á síðasta þingi. Ég bar þetta fram í upphafi þess og það lá fyrir hv. fjvn. Á fjárl. fyrir árið 1939 var svo öðrum manni veittur utanfararstyrkur í þessu skyni. Nú skal ég ekkert um það fullyrða, hvort þörf er á að veita þeim manni þann styrk. En ég fullyrði, að það er a. m. k. jafnmikil þörf að veita þessum manni þennan styrk í þessu skyni. Þessi dýralæknir er orðinn 11 ára gamall í starfinu. Og dýralæknum er nauðsynlegt að fylgjast með því, sem gerist í þeirra fræðigrein, rannsóknum og uppgötvunum og öðru. Þar við bætist, að dýralæknir sá, sem ég flyt brtt. um, að fái utanfararstyrk, er einmilt á því svæði, þar sem loðdýrarækt hefir verið mest undanfarin ár og a. n. l. fyrir tilstuðlun hins opinbera. En hún er aftur á móti mjög skammt á veg komin austanlands, þar sem sá dýralæknir situr, sem nú hefir hlotið náð fyrir augum hæstv. fjmrh.

Það er kunnugt, hvernig litið hefir verið á dýralækna sem slíka af mörgum hér á landi. Það hefir verið sagt, að lítið gagn væri að starfi þeirra, að því leyti að bændur væru lítið betur settir með að hafa þá, þó að veiktist skepna hjá þeim, fyrir það hve dýrt og erfitt væri að sækja þá, og líka hitt, að bústofn okkar væri svo lítils virði, að í mörgum tilfellum borgaði það sig betur að slátra húsdýrinu heldur en að sækja dýralækni. Það kann að vera nokkuð satt í þessu. En málið horfir allt öðruvísi við að þessu leyti, þegar um loðdýrin er að ræða, því að þar er hver einstaklingur svo dýrmætur, að það verður að leita allra ráða til þess, að enginn þeirra veikist eða drepist. Þess vegna vil ég segja það, að ef dýralæknar hafa ekki átt tilverurétt hér á landi, þá eru þeir algerlega búnir að fá hann með aukningu loðdýraræktarinnar, því að þar verður að nota meiri þekkingu, til þess að sá dýri bústofn, sem loðdýrin eru, ekki hrynji niður. — Ég bar fram þessa brtt. á þskj. 425, eftir að aðalbrtt. hv. fjvn. voru komnar fram, vegna þess, að það er nú svo, að þessi styrkur var ekki á því plaggi. Þetta mun hafa verið af vangá hjá hv. fjvn., því að á þessu sama þskj. kemur till. frá fjvn. um, að þessi maður fái 1000 kr. styrk. Ég sá þó ekki ástæðu til að taka mína brtt. aftur, því að ef utanför þessa manns á að verða að nokkru liði, þá þarf hann að fara bæði til Noregs og Þýzkalands til að kynna sér allt, sem lýtur að því, sem hann þarf að kynna sér um loðdýrasjúkdóma og meðferð þeirra, og þá er honum ekki unnt að komast af með styrk til þessara ferða, ef hann verður ekki meiri en 1000 kr. Af því að maðurinn er fátækur, tel ég líklegt, að hann geti ekki notað þennan styrk til utanfarar, nema hann verði hækkaður upp í 1500 kr. Ég vænti þess, að hv. þm. skilji svo nauðsyn þessa héraðs á því, að íbúar þess missi ekki loðdýrastofn sinn í viðbót við allt annað tjón, sem þeir hafa orðið fyrir, að þeir veiti nú þessum manni þennan nauðsynlega styrk.

Hin brtt. mín er á þskj. 444, um flóabátaferðir. Undanfarin ár hefir sá bátur, sem ég hér geri brtt. um styrk til, verið í nál. samvinnun. samgöngumála kallaður Mýrabáturinn. Hann hefir notið styrks til flutninga á milli Mýra vestanverðra annarsvegar og Reykjavíkur, Akraness og Borgarness hinsvegar. Maður hefir verið fenginn héðan úr Reykjavík til þess að halda uppi þessum flutningum. En nú treystir hann sér ekki til að halda ferðunum uppi fyrir svona lítinn styrk. Margir hafa farið fram á, að ég færi fram á styrk til þess, að hægt væri að halda uppi þessum ferðum og að fá hann hækkaðan. Ég taldi ekki unnt að fá styrkinn hækkaðan. En hitt kom mér mjög á óvart, þegar samgmn., án þess að kynna sér málið með viðtali við mig, hefir farið fram á, að styrkurinn lækkaði í stað þess að hann ætti að hækka. Þessi lækkun, sem hv. samgmn. gerir ráð fyrir, er 100 kr. Það búa milli 20 og 30 bændur þarna á ströndinni. Og allir, sem eitthvað hafa kynnt sér landshætti hér á landi, vita, að það geta varla verið örðugri samgöngur til á landinu heldur en eru til og frá þessari strönd landleiðina á vorin og haustin, því að Mýrarnar eru mjög illar yfirferðar. Allir þessir bændur, 20 til 30, sem búa þarna með ströndinni, hafa notað þennan bát til þess að koma frá sér og ná til sín þungavörum haust og vor. Það yrði því ákaflega mikill hnekkir þessum bændum, ef þessi styrkur lækkaði, eins og samgmn. fer fram á, og þeir fyrir það yrðu af þessum styrk til þessara flutninga. Þegar ég sá, að hv. samgmn. lagði til, að þessi styrkur lækkaði, sá ég mér ekki annað fært en að gera till. um, að hann yrði hækkaður nokkuð. Samgmn. lagði til, að styrkur þessi yrði lækkaður niður í 400 kr., úr 500 kr. En ég geri till. um, að hann verði hækkaður upp í 800 kr., en til vara, að hann verði hækkaður upp í 600 kr. Verði varatill. samþ., þá nemur hækkunin aðeins 100 kr., frá því sem verið hefir. — Ég vil vona, að hæstv. Alþ. líti með sanngirni á þetta mál og veiti hér umtalaða hækkun á þessum styrk, sem er svo nauðsynlegur bændum á þessu svæði og þeir hafa haft að undanförnu.

Hér er á þskj. 460, VIII, brtt. frá hv. þm. Vestm., sem hljóðar um það, að ríkisstjórninni sé heimilt að endurgreiða á árunum 1938 og 1939 helming aðflutningsgjalda og álagningar grænmetisverzlunar ríkisins á útsæðiskartöflum, og að endurgreiðslan fari fram fyrir milligöngu bæjar- og sveitarstjórna, undir eftirliti Búnaðarfélags Íslands. Ég er alveg samþykkur hv. þm. Vestm. um, að þess sé mikil þörf, að endurgreiddur verði þessi hluti, sem þarna er um að ræða. Það hefir hvað eftir annað komið í ljós á síðustu árum, að mikið vantar til þess, að landsmenn framleiði nægilega mikið af kartöflum til þess, að ekki þurfi að flytja inn kartöflur frá útlöndum, fyrir utan þá stórkostlegu neyzluaukningu á kartöflum, sem mætti koma á hér á landi, ef nægilega mikið væri framleitt af þeim í landinu. Þess vegna verður á einn eða annan hátt að styrkja það, að garðrækt, og þá sérstaklega kartöfluframleiðsla, geti aukizt í landinu. Nú leggja landbn. Alþ. til, samkvæmt jarðræktarl. að nokkur aukastyrkur verði veittur til aukningar garðræktarframkvæmda á fjárpestarsvæðinu. Þetta gerir n. fyrst og fremst vegna þeirrar nauðsynjar, sem er á því að auka kartöfluræktina í landinu, en líka vegna þess, að þau héruð, sem fjárpestin geisaði um, eru mjög vel fallin til kartöfluræktar. Ef kartöflurækt ekki eykst, verður að leita til útlanda með kaup á útsæðiskartöflum. Þess vegna er ég sammála hv. þm. Vestm. um, að það beri að ívilna mönnum um slík útsæðiskaup. Hinsvegar er ég honum ekki sammála um það, að bezta fyrirkomulagið á þessum endurgreiðslum sé eins og hann vill hafa það, „endurgreiðslan fari fram fyrir milligöngu bæjar- og sveitarstjórna, undir eftirliti Búnaðarfélags Íslands“. Ég býst við, að það mundi valda mikilli fyrirhöfn og miklum skýrslugerðum, og það alveg að óþörfu, að ganga fyrir hvers manns dyr, þar sem kartöflur eru ræktaðar, til þess að fá upp hjá mönnum, hve mikið þeir hafa notað af útlendu útsæði. Hitt er miklu einfaldara, að láta þetta fara fram gegnum grænmetisverzlun ríkisins, því að henni er kunnugt um það, hve mikið er flutt inn af útsæðiskartöflum. Þess vegna ber ég fram brtt. um, að grænmetisverzlun ríkisins annist þessa milligöngu, sem fram á er farið í till. hv. þm. Vestm.

Þá ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þessar brtt. Ég býst við, að hér komi fram enn ein brtt. við fjárl., sem ég leggi fram, ásamt hv. þm. Borgf. Hún liggur ekki fyrir enn, og ég geri ráð fyrir, að hv. þm. Borgf. tali fyrir henni á sínum tíma.