28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (714)

19. mál, bókhald

*Ísleifur Högnason:

Ég er í öllum aðalatriðum samþykkur þessu frv. Þó eru þar tvö atriði, sem ég ætla að bera fram skrifl. brtt. við. Önnur brtt. er við 6. gr. frv., sem fjallar um færslu sjóðbókar. Legg ég til, að orðin „stærri fyrirtækjum“ falli niður og að minni fyrirtækjum sé einnig heimilt að færa undirbækur við sjóðgreiðslur. Þetta orðalag frv. er líka mjög loðið og er ekki gott að átta sig á því, hvað á að telja stærri og hvað minni fyrirtæki.

Hin brtt. er við 3. málsgr. 7. gr., þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nota má lausblaðabækur sem viðskiptamannabækur, en þó því aðeins, að þá sé færður sameiginlegur viðskiptareikningur fyrir alla viðskiptamenn, er reikning hafa í viðskiptamannabók, í aðalbók, dagbók eða sjóðdagbók, o. s. frv. Ég vil leggja til, að þessu verði breytt á þá lund, að viðskiptamannabækur megi ekki vera lausblaðabækur, með tilliti til þess, að það er hægast að koma við fölsunum í lausblaðabókum, heldur skuli allar viðskiptamannabækur vera innbundnar og tölusettar. Álít ég það stóran galla á þessari lagasetningu, ef ekki á að tryggja það, að eigi sé unnt að koma við fölsunum gagnvart viðskiptamönnum.

Eg ætla ekki að fjölyrða um þetta, en bið hæstv. forseta að taka þessar brtt. til greina.