28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 573 í B-deild Alþingistíðinda. (717)

19. mál, bókhald

Skúli Guðmundsson:

Ég get fallizt á þær brtt. við þetta frv., sem allshn. ber fram á þskj. 122. Hefi ég ekkert við þær að athuga. En aftur á móti vildi ég mæla gegn þeim brtt., sem fram eru bornar á þskj. 121 og eru frá þeim hv. þm. Snæf. og hv. 8. landsk. þm.

Eins og hv. þm. Snæf. réttilega tók fram, eru þessar brtt. þeirra allar í raun og veru um það, að fella niður úr frv. ákvæðin um tvöfalt bókhald. En það get ég ekki fallizt á, og vil ég því leggja til, að þessar brtt. á þskj. 121 verði felldar.

Hv. þm. Snæf. virðist bera kvíðboga fyrir þv1, að ef frv. verði samþ. óbreytt, séu með því lagðar óeðlilegar hömlur á kaupmenn og atvinnurekendur, þar sem það sé miklu torveldara fyrir þá að halda reikninga eftir reglum tvöfalds bókhalds en á annan hátt. Þetta get ég ekki fallizt á. Hv. þm. Snæf. viðurkenndi líka, að tvöfalt bókhald væri að ryðja sér til rúms, og sagði, að það myndi sennilega verða almennt notað innan fárra ára. Ég er honum sammála um það. Mér er kunnugt um, að í öllum kaupfélögum hér á landi — a. m. k. þeim, sem eru í S. Í. S. — er notað tvöfalt bókhald og hefir verið gert lengi. Mér er ekki eins kunnugt um kaupmennina, en ég geri ráð fyrir, að þeir hafi einnig tvöfalt bókhald, og byggi ég það á því, að tvöfalt bókhald er eingöngu kennt í skólum hér, samvinnuskólanum og verzlunarskólanum. Og það er mikill fjöldi, sem hefir útskrifazt úr þessum skólum undanfarin ár, svo að það ætti að vera tryggt, að nægileg þekking sé orðin á þessum sviðum til þess, að atvinnurekendur og kaupmenn geti auðveldlega hagað bókhaldinu á þennan hátt. Það má í þessu sambandi líka benda á þau undanþáguákvæði, sem eru í frv., bæði í 3. gr., þar sem taldir eru upp ýmsir smærri atvinnurekendur, sem eru undanþegnir bókhaldsskyldu, og 4. gr. frv., þar sem veitt er heimild til undanþágu um ákveðið árabil í senn fyrir smærri atvinnurekendur, svo að það er óþarfi að óttast það, að með þessu ákvæði séu nokkrum manni lagðar byrðar á herðar, sem hann eigi erfitt með að rísa undir eða hafi nokkurn aukakostnað í för með sér. En ástæðan til þess, að ég vil halda fast við þetta upphaflega ákvæði frv. um það, að bækur eigi að færa eftir reglum tvöfaldrar bókfærslu, er sú, að í tvöfalda bókhaldinu er mjög mikil trygging fyrir því, að bækurnar séu rétt færðar, sem ekki er í einfalda bókhaldinn. Það er vitanlega mjög mikilsvert atriði fyrir alla þá, sem þurfa að færa bækur um sinn atvinnurekstur, að bækurnar séu færðar eftir því bókhaldskerfi, sem auðvelt sé að átta sig á, og að í því felist trygging fyrir því, að rétt sé fært. Og það er þessi stóri kostur, sem tvöfalda bókhaldið hefir fram yfir það einfalda. Og benda má á það í þessu sambandi, að þótt talað sé um tvöfalt bókhald, þá getur þar verið um fleiri afbrigði að ræða, ef svo má að orði komast, þ. e. a. s., að það er völ á fleiru en einu bókhaldskerfi.

Út af þeim brtt., sem hv. 5. landsk. kom með, vil ég segja það um fyrri brtt. hans, við 6. gr., sem mér skilst, að sé þannig, að niður falli tvö orð „stærri fyrirtækjum“, að ég sé ekkert athugavert við það, þó að þau orð falli niður, og get ég fallizt á þá till. Aftur á móti get ég ekki fallizt á till. hans um breyt. á 7. gr., um það, að fella niður heimildina til þess að nota lausblaðabækur fyrir viðskiptamannareikninga, þar sem það hefir mjög tíðkazt á seinni tímum hjá stærri fyrirtækjum a. m. k., og þar sem viðskiptamenn eru margir, að nota lausblaðabækur, sem eru á margan hátt hentugri en innbundnu bækurnar. Myndi þess því verða saknað af mörgum, ef þessi heimild væri felld niður. Ég held, að sá ótti sé ástæðulaus, sem fram kom hjá hv. þm., um falsanir á viðskiptamannabókunum, þó að þessi heimild sé, því að þeir, sem eiga viðskipti við verzlanir eða önnur fyrirtæki munu í flestum tilfellum fylgjast nokkurn veginn með viðskiptum og gera aths., ef þess er þörf. Auk þess er einmitt ákvæði í þessari gr. um það, að þessa reikninga eigi að færa á samandregið yfirlit í sérstaka bók, sem gerir að verkum, að það er ómögulegt fyrir verzlanir eða atvinnufyrirtæki að falsa þessa reikninga einstakra manna í lausblaðabókunum öðruvísi en það komist upp, þegar farið er að gera upp bækurnar, a. m. k. ef bækurnar eru færðar eftir reglum tvöfalds bókhalds.

Þess vegna vil ég ákveðið mæla á móti þessari síðari brtt. hv. þm., en get, eins og áður er fram tekið, fallizt á hina.