29.03.1938
Efri deild: 36. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

82. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

*Magnús Jónsson:

Ég skal játa, að ég hefi ekki athugað þetta mál eins og ég hefði ef til vill gert, ef mig hefði grunað, að það ætti að vísa þessu máli í aðra n. en ég taldi eðlilegt, að það færi í, því að ég á sæti í allshn. og bjóst við, að málið kæmi þangað. Þess vegna vil ég gera aths. við málið við þessa umr.

Mér sýnist sumar breyt., sem hér um ræðir, ekki alveg tvímælalausar, eins og t. d. breyt. á því, hvernig skipulagsnefnd skuli saman sett, að inn í hana komi vitamálastjóri í staðinn fyrir heilsufræðikennara háskólans. Ég veit ekki, hvaða erindi vitamálastjóri á í þessu. Maður gæti eins vel hugsað sér hvaða mann á landinu sem væri, sem jafnt gæti komið til mála í þessu efni og vitamálastjóri. Hann er að vísu verkfræðingur, en það hefði verið fullt eins eðlilegt, að Verkfræðingafélag Íslands hefði tilnefnt verkfræðing í n. Það mundi þá velja til þess mann, sem hefði sérstakan áhuga á þessum málum, en það er ekki hin minnsta trygging fyrir því, að vitamálastjóri, sem sér að vísu um hafnargerðir, sem viða koma nokkuð við skipulagningu bæja, hafi nokkurn áhuga fyrir skipulagsmálum. Ég get ekki séð, hvers vegna heilbrigðisfræðingur við háskólann má ekki vera þarna með. Við heyrðum í framsöguræðu hv. flm., að það er ákveðinn maður, sem hann hefir í huga, og ég tel eðlilegt, að hann eigi kost á að vera hér með í ráðum eins lengi og hans nýtur við, sakir áhuga hans á þessu máli. Það er alveg eins hægt að heimila að kveðja hann og aðra slíka menn til aðstoðar, þó að kennari í heilbrigðisfræði við háskólann ætti sæti í n. Við megum ekki miða svo við mann, sem er hniginn að aldri, eins og Guðmundur Hannesson, að við getum ekki hugsað okkur, að n. kveðji síðar mann, sem er sérstaklega fróður í heilbrigðismálum, til þessa starfs, og það er eðlilegt, að kennari í heilbrigðisfræði eigi fast sæti í n., sem beinlínis hefir skyldu til þess stöðu sinnar vegna, að fræða um heilbrigði og hollustuhætti í bæjunum.

Viðvíkjandi ákvæðinu í 3 gr. um 3% gjald af húsum, sem reist eru, vil ég segja, að það er ekki mjög tilfinnanlegt í sjálfu sér, en þó nokkurt gjald, og ég er ekki viss um, að það sé í sjálfu sér svo sanngjarnt að leggja þessar byrðar, sem leiða beinlínis af skipulagningu bæja, á þá, sem reisa ný hús. Skipulagning Reykjavíkurbæjar er af bæjarins hálfu vel fyrir komið, og að sjálfsögðu ekki fremur í þágu þessara manna en hverra annara í bænum. Þetta skipulag getur meira að segja haft nokkur áhrif á það, hvort þeir fá að reisa sín hús. Þetta er að vísu lítið gjald, af einbýlishúsum um 100 kr., en ég sé ekki, hvers vegna ekki má láta þetta heyra undir þann kostnað, sem greiddur er að hálfu úr ríkissjóði og að hálfu úr bæjar- eða hreppssjóði. Annars dettur mér í hug í sambandi við þetta frv., sem við erum með í allshn., bifreiðafrv. Þar var ákveðið, að skoðunargjöld og prófgjöld skyldu renna til þess að launa eftirlitsmenn með umferðinni, og lögreglustjóri, sem átti tal við n., fjáði okkur, að þetta væri ekki heppilegt ákvæði vegna þess að það hefðu risið upp málaferli út af því, að eftirlitsmennirnir hefðu gert kröfu til þess að fá alla þá peninga, sem komu inn með þessu móti. Þeir vitnuðu í l. og héldu því fram, að það, sem þannig komi inn, skyldi renna til þess að launa þessa eftirlitsmenn, og gerðu kröfur til 30000 kr., sem höfðu safnazt umfram það, sem þeim var veitt. (JJ: Þeir töpuðu málinu). Já, en ég tel óþarft, og lögreglustjóri taldi það einnig að setja slíkt ákvæði í l. Ég segi þetta ekki af því, að mér detti í hug, að hægt sé að gera þessa kröfu.

Svo vil ég spyrjast fyrir um, hvað átt sé við með breyt., sem felst í 4. gr. Með því að fella niður orðin: „ef það sér sér það fært“ er lagt til að gera það skilyrðislaust, að stjórnarráðið staðfesti skipulagsuppdrátt, og að fengnum endanlegum till. skipulagsnefndar, á stjórnarráðið að samþ. skipulagsuppdráttinn óbreyttan eða með þeim breyt., sem það álitur til bóta, og svo er því bætt við samkvæmt þessu frv., að skipulagsuppdrátturinn skuli staðfestur af stjórnarráðinu eigi síðar en tveim árum eftir að hann hefir verið lagður fram.

Ég hefði viljað fá skýringu á því, hvers vegna þetta ákvæði er sett hér inn, því að það er ekki óhugsandi, að um geti verið að ræða ágreining, t. d. milli bæjarstjórnar og ef til vill skipulagsnefndar, og hvort það sé meiningin með þessu, að úr því eigi að skera þannig, að sá uppdráttur, sem gerður er, skuli koma í gildi, hvort sem bæjarstjórn líkar betur eða verr. Ég vil biðja hv. flm. skýringar á þessu, því að þetta kom ekki fram hjá honum, og það er heldur ekki vikið að því í grg.