20.04.1938
Efri deild: 50. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

82. mál, skipulag kauptúna og sjávarþorpa

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég hafði óskað eftir því við d., að aðalumr. yrðu nú við þessa umr. en ekki við 2. umr., og var tekið vel í það. — Og vil ég nú skýra lauslega þær brtt., sem fyrir liggja sem gerðar hafa verið í samráði við skipulagsnefnd.

Á þskj. 225 er fyrst gert ráð fyrir tveim litlum brtt. Önnur er sú, að sá maður, sem skipulagsnefnd ræður til sín, til þess að stýra hinni daglegu vinnu við mælingar, kortagerð og þ. h., skuli kallast húsameistari, en ekki byggingarfræðingur, þannig að það sé skýrt tekið fram, að hér geti aðeins verið um fullfæran „arkitekt“ að ræða. — Ennfremur er gert ráð fyrir því, að skipulagið nái fyrst og fremst til allra staða, sem hafa 200 íbúa og fleiri; og í sjálfu frv. er þetta gert nokkuð rýmra, þannig að skipulagsnefnd og landsstj. geta í raun og veru fært þetta ákvæði niður, þannig að skipulagið nái til alls þéttbýlis, um leið og það er að myndast. Þetta er mjög þýðingarmikið, og skipulagsnefnd er nú þegar komin það langt, með sína vinnu, að heita má, að flestir kaupstaðir og kauptún, sem hafa fleiri en 500 íbúa, séu þegar búin að fá skipulag. En nú er gert ráð fyrir því að taka hina mörgu minni staði, og jafnvel allt þéttbýlið um leið og það fer að myndast.

Þá kem ég að brtt. á þskj. 264. Þær eru bornar fram eftir ósk skipulagsnefndar þeirrar, sem nú er.

Brtt. við 1. gr. er til þess að gera það nokkuð gleggra, hvernig fjárreiðum til hinnar væntanlegu skipulagsnefndar skuli háttað. — Ég minntist á það við 1. umr., að þessi skattur, sem á að leggja á samkv. frv., 3% af byggingarkostnaði nýrra húsa, yrði fyrst um sinn aðalstofninn til þess að standast kostnaðinn við stjórn skipulagsmála, skrifstofuhald og annan óhjákvæmilegan kostnað. En fram að þessu hefir verið dálítil fjárveiting á fjárl. í þessu skyni, og bæirnir lagt á móti henni. — Þessi litla brtt. við 1. gr. lýtur að því, að kostnaðurinn við skipulagið greiðist fyrst og fremst af þessum nýja skatti, en ef hann nægir ekki, þá verður að kom til — eins og nú er — fjárlagavelting með framlagi frá bæjunum. En það er ekki gert ráð fyrir, að koma muni verulega til þess, ef þessi nýi skattstofn gengur fram.

Síðasta brtt. á þessu sama þskj. er um það, að skipulagsnefnd geti, um leið og hún samþykkir skipulagsuppdrátt af einum bæ, tiltekið vissar götur, þar sem hún geti blandað sér í það, hvernig byggt verði. Við skulum til dæmis hugsa okkur, að Austurvöllur væri nú eins og hann var fyrir 30 árum. Þá væri það vitanlegt, að þar kæmu stórbyggingar í kring, og mundi skipulagsnefnd þá óska eftir því að hafa eitthvað um það að segja, hvernig þessi sérstaklega þýðingarmikli staður kæmi til með að líta út.

Annað er það ekki. sem fram þarf að taka í þessum brtt., og ætla ég því ekki að fjölyrða frekar um þær.

Ég get svo endurtekið það, sem ég sagði við 1. umr., að tilgangur frv. er sá, að skipulagsnefnd hafi rýmri hendur heldur en hún hefir haft, og að hún geti haft a. m. k. tvo starfsmenn, húsameistara og mælingamann, til þess að vinna allt árið að skipulagi bæja og kaupstaða, og að þetta skipulag nái til Reykjavíkur. Er þá gert ráð fyrir, að bærinn geti sparað sér þá vinnu, sem hann nú kaupir alldýru verði. — Einn nm. hefir borið sig saman við bæjarráð um þetta, af því að þetta er nokkuð viðkvæmt mál þar, og komst bæjarráð að þeirri niðurstöðu, að það mundi láta þetta mál hlutlaust, og er það í raun og veru sama og meðmæli frá þess hendi.

Þá vil ég taka það fram vegna skipulagsnefndar, að þessir þrír menn, Guðjón Samúelsson, Geir Zoëga og Guðmundur Hannesson, sem þar hafa unnið síðan 1921, er lögin gengu í gildi, fyrir mjög lága þóknun, hafa hlotið þá ánægju, að nálega öll kauptún og kaupstaðir hafa óskað eftir því að fá skipulag, og alls ekki fundizt það ganga nógu fljótt, sem meðfram hefir stafað af því, hvað skipulagsnefnd hefir haft litla peninga handbæra. Ég veit ekki um neinn stað utan Reykjavíkur, þar sem í heild sinni hefir ekki verið mikil ánægja yfir vinnu n. Hún hefir einnig fengið viðurkenningu frá útlöndum. Árið, sem leið, var hér á ferðinni norskur skipulagsfræðingur, sem kynnti sér starf n. og hefir síðan sýnt uppdrætti hennar víða, sem fengið hafa ágæta dóma. — Ég geri þess vegna ráð fyrir því, þar sem n. heldur áfram óbreytt fyrst um sinn, að öðru leyti en því, að vilamálastjóri bætist við, þá megi gera sér fullar vonir um, að ef n. fær rýmri hendur heldur en verið hefir, muni af því leiða mikið gott fyrir bæi og kaupstaði þessa lands.