28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Fjhn. varð ekki sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hluti n. leggur til, að það verði samþ. með einni lítilli leiðréttingu.

Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessu máli, því að hér er um að ræða ákaflega þekkt ákvæði. Vestmannaeyjar hafa að ég hygg, í 12 ár haft þennan tekjustofn, og það má geta nærri, að það er ekki auðvelt fyrir bæjarfélagið að missa hann af sinni fjárhagsáætlun, nema því aðeins að í staðinn komi eitthvað tilsvarandi, og það var tilgangurinn með l. frá síðasta þingi um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga, að bæirnir fengju nokkurn tekjuauka úr þeim sjóði, og þá hefði mátt ætla, að þetta gjald hefði mátt falla niður, enda voru l. um það numin úr gildi með 1. um jöfnunarsjóð, en það hefir farið svo að þessu sinni, að það hefir ekkert fallið Vestmannaeyjum í skaut af tekjum jöfnunarsjóðs. Það er því þegar af þeirri ástæðu nauðsynlegt fyrir kaupstaðinn að fá þetta gjald a. m. k. þetta ár. Svo er annað, sem þarna kemur til greina, sem sé það, að í Vestmannaeyjum er fasteignamatið allhátt, svo að það er tvísýnt, að Vestmannaeyjar muni í náinni framtíð njóta mikils úr þessum sjóði, og hæpið, hvort þær njóta hans nokkurn tíma. Það má náttúrulega segja, eins og hv. minni hl. segir í náI. sínu, að þetta séu algerð sérréttindi fyrir Vestmannaeyjakaupstað, en það eru þó sérréttindi, sem hann hefir haft um alllangt árabil, og það er alkunnugt, að þegar slíkur tekjustofn er einu sinni kominn á og reiknað er með honum, þá er mjög erfitt að kippa honum burt, án þess að eitthvað tilsvarandi komi í staðinn, og viðvíkjandi sérréttindum Vestmannaeyjakaupstaðar er það að segja, að því verður ekki neitað, að sá kaupstaður hefir líka sérstöðu, sem mælir mjög með því, að hann hafi þetta, sem kalla mætti sérréttindi, þar sem Vestmannaeyjar eru, eins og kunnugt er, land út af fyrir sig, og verzlun og víðskipti, sem fara fram í gegnum höfnina þar, snerta Vestmannaeyjar að segja má einar, og þær eru meira afskornar frá viðskiptum annara heldur en nokkur annar kaupstaður eða kauptún hér á landi. Hv. minni hl. hefir ekki viljað samþ. frv., og ég hygg, að það sé af flokkslegum ástæðum fyrst og fremst, því að það er alkunnugt, að það er yfirleitt stefnumál Alþfl. að vera á móti eða að spyrna a. m. k. á móti auknum þessháttar álögum. Þeir halda því fram, að tekjum eigi sem mest að ná með beinum sköttum. Það er þessi flokksafstaða, sem jafnaðarmenn hafa haldið fram a. m. k. á pappírnum um þetta frv., sem hefir aðallega valdið því, að hv. minni hl. er ekki með um afgreiðslu þessa máls, sem annars hefir gengið í gegnum þingið þing eftir þing með samþykki flestra, sem nú eiga sæti á Alþingi.

Brtt. okkar er ekkert annað en leiðrétting. Það stendur í frv., að l. skuli þegar öðlast gildi, en hinsvegar er þessi skattur með l. framlengdur til ársloka 1938, og því er ekki rétt að láta l. öðlast gildi fyrr en sú framlenging er útrunnin, sem sé frá ársbyrjun 1939. Eins og nál. okkar ber með sér, hefir annar nm. meiri hl. skifað undir með fyrirvara um það, að hann teldi a. m. k. ekki brýna ástæðu til þess að gera þessi l. ótímabundin, heldur áskilji hann sér rétt til þess að vera með því, ef stungið yrði upp á, að þau yrðu höfð í sama formi og verið hefir, sem sé framlengd frá ári til árs. Ég fyrir mitt leyti sá ekki ástæðu til að samþ. það, því að vitanlega er það jafnan á valdi Alþingis að nema l. úr gildi, og ég verð að segja, að ég sé enga ástæðu til þess að nema þessi l. úr gildi fyrr en hægt er að bæta kaupstaðnum upp þann tekjustofn, sem hann myndi missa við það. Það er ekki annað en óþarft stapp og endalausar uppprentanir að vera að framlengja l., sem eru jafngömul og viðurkennd og þessi l. Ég, og þessi hv. meðnm. minn í rauninni líka, gátum því fallizt á að frv. yrði afgr. í því formi, sem það er borið fram, og mælum við með því, að þingið samþ. frv. aðelns með þessari einu leiðréttingu, sem við berum fram till. um í nál. okkar.