28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (761)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Bernharð Stefánsson:

Eins og nál. meiri hl. á þskj. 131 ber með sér og hv. frsm. tók fram, hefi ég skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, sem er fyrst og fremst um það, eins og þar greinir, að ég tel að ýmsu leyti réttara að tímabinda þessi L., eins og verið hefir, því að undanfarin ár hefir það verið svo, að l. um vörugjald í Vestmannaeyjum hafa verið sett til ákveðins tíma.

Hv. frsm. meiri hl. n. benti að vísu á það, að þetta vörugjald hefði gilt allmörg ár í Vestmannaeyjum og alltaf verið framlengt. Þetta er rétt. Fyrstu l. um slíkt vörugjald í Vestmannaeyjum munn vera frá 1926 og hafa alltaf verið framlengd síðan. En það er ekki nægileg ástæða til þess að telja, að framlengja eigi þessi lög til frambúðar. Ég vil benda á í þessu sambandi, að sumir þeir skattar, sem til ríkisins eru innheimtir samkv. bráðabirgðalögum, sem framlengd eru frá ári til árs, eru eins gamlir og þetta gjald í Vestmannaeyjum. Svo er bæði um lögin um vörutoll og um verðtoll, sem munu vera frá 1924. Ég legg þó ekki svo mikla áherzlu á þetta atriði, að ég hafi flutt um það brtt. nú, en ég mundi samþ. hana, ef fram kæmi, og áskil mér rétt til 3. umr. að bera slíka brtt. fram.

Þó að ég mæli með þessu frv., fellst ég ekki að öllu leyti á þann rökstuðning, sem fram hefir komið því til meðmæla, sérstaklega það, að þessa heimild verði að velta af því, að Vestmannaeyingar verði fyrir misrétti við framkvæmd laganna um tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga, sem sett voru í fyrra. Að Vestmannaeyingar hafa ekki fengið framlag úr jöfnunarsjóði, getur ekki stafað af öðru en því, að þeir beri tiltölulega léttari byrðar en aðrir bæir. Um þau framlög gilda ákveðnar reglur. Þau eiga a. m. k. að vera þannig miðuð við fátækraframfærið, kostnað af tryggingalögum og upphæð kennaralauna, að mest renni til þeirra bæja, sem hafa tiltölulega mestan kostnað af þessu. — Þá sagði hv. þm. Vestm., að fasteignamat væri óeðlilega hátt í Vestmannaeyjum. Sé svo, gæti verið ástæða til að framlengja lögin þangað til nýtt fasteignamat gengur í gildi og ekki lengur. Það, að ég fylgi frv., þýðir ekki, að ég telji Vestmannaeyjar neinu misrétti beittar með lögunum um tekjuöflun bæjar- og sveitarfél. og um jöfnunarsjóð, heldur að ég tel það sanngjarnt og útlátalaust að leyfa Vestmannaeyingum að leggja þessi gjöld á sjálfa sig. Þetta vörugjald mun sama og ekki lagt á aðra en Vestmannaeyinga sjálfa, og þetta eru aðeins heimildarlög, og ef þeir samþ. sjálfir að haga þessu þannig, þá sé ég ekki, hvað á að vera móti því að leyfa það. Ég lít svo á, að vel mætti leyfa öðrum kaupstöðum þetta, þeim sem lítið verzla við nágrenni sitt. Ég hefi fyrr borið fram frv. um að veita Siglufirði slík réttindi. En það náði ekki samþ., og var þá talið, að Siglfirðingar gætu frekar en Vestmannaeyingar skattlagt utanbæjarmenn með gjaldinu.

Það má segja sem svo, eins og hv. 11. landsk. gerði, að þarna sé verið að leggja skatt á neyzluvörur almennings. En þegar á staðreyndirnar er litið, hefir það sýnt sig, að þetta er óhjákvæmilegt. Það er vitað, að það er ákaflega erfitt að ná öllum þörfum bæjarfélaganna inn með beinum sköttum og þannig hefir það líka reynzt þar, sem þessi hv. þm. á helma og á sæti í bæjarstjórn. Hvað sem um þetta má segja frá fræðilegu sjónarmiði, verður að fá féð með því að fara til þess einhverja færa leið. Þess vegna var sett löggjöfin um tekjur bæjar- og sveitarfélaga til að fá þeim nýja tekjustofna og tekjurnar, sem þau fá úr jöfnunarsjóði, koma nú einmitt inn með auknum og nýjum tollum.