28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í B-deild Alþingistíðinda. (767)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Frsm. minni hl. (Erlendur Þorsteinsson):

Ég varð dálítið undrandi yfir því, hvað hv. þm. Vestm., þessi að því er virðist skapstillti maður, gat sleppt sér undir þessum umr. Ég hafði ekki búizt við því, að rök mín um þetta mál færu svo í taugarnar á honum, að hann þyrfti að blása sig svona út af því, sem ég sagði til andsvara hans ræðu um þetta mál.

Mér skildist á honum, að hann hefði þá skoðun, að af því að ég væri nýliði hér, mætti ég ekki láta mína skoðun í ljós, og þá sérstaklega af því, að ég væri öndverður honum í skoðun. Og ef hann mætti ráða, mundi hann koma í veg fyrir það með öllu, að nokkur maður kæmi með nokkrar sannanir fram á móti málum, sem hann flytur. Hann myndi í því efni sem öðrum fylgja skoðanabræðrum sínum og lærifeðrum.

Hv. þm. Vestm. sagði, að ekki væri hægt að leggja á útsvör í Vestmannaeyjum til þess að ná inn nægum tekjum fyrir bæjarfélagið, vegna þess að langflestir væru svo fátækir í Vestmannaeyjum, að þeir gætu ekki greitt útsvör. Er það af umhyggju fyrir fátæku mönnunum þar, að þessi hv. þm. vill láta skylda þá til þess að greiða gjöld til bæjarins með tolli, hvort sem þeir geta það eða ekki?

Þá var hann að tala um, að það hafi komið fram hjá mér, að vegna þess að meiri hluti bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum er skipaður pólitískum andstæðingum mínum, fengi hún ekki að leggja toll á nauðsynjavörur, en ef mínir pólitísku samflokksmenn færu fram á slíkt, þá vildi ég það. En ég tók fram, að það væri mikill munur á því, að greiða gjöld til bæjarfélaga með þessu móti, eða greiða þau til ríkissjóðs, þegar þeim tekjum, sem ríkissjóði væri aflað á þennan hátt, væri varið til þess að auka atvinnu í landinu og bæta kjör fátækra manna. En þessi gjöld í Vestmannaeyjum yrðu til þess að lögð væru á menn minni útsvör, og þar með til að hlífa hátekjumönnum þar.

Þá talaði þessi hv. þm. um, að það væri stefna Alþfl., að sem allra flest heimili gætu komizt á framfæri hins opinbera. Ég mótmæli þessu algerlega. Það hefir aldrei komið fram hjá Alþfl., heldur hitt, að það verði búið vel að þeim mönnum, sem einhverra hluta vegna þurfa að leita á náðir þess opinbera. En við höfum alltaf sett okkar till. fram þannig, að sem mest væri gert til þess að bæta atvinnu þeirra fátæku, svo að þeir, þegar þeir geta unnið, þurfi ekki að leita á náðir þess opinbera, þveröfugt við það, sem hv. þm. Vestm. sagði, því að við viljum á þann hátt koma í veg fyrir, að menn þurfi að leita á náðir þess opinbera.

Þá tók þessi hv. þm. fram, að það væri sérstaklega ein stétt manna, sem ekki væri á móti þessu vörugjaldi. Mig furðar nú ekkert á því, þó að þeir séu ekki á móti vörugjaldi. Þeim mundi alveg standa á sama, þeim efnaðri, því að þessi útgjöld mundu ekki liggja þungt á bökum þeirra, heldur mest á bökum fátækra fjölskyldumanna. Hv. þm. Vestm. viðurkennir, að menn séu yfirleitt svo fátækir í Vestmannaeyjum, allur fjöldinn, að þeir geti ekki borgað útsvör. En þó vill hann láta neyða þá til þess að borga gjöld sín til bæjarsjóðs með tolli á nauðsynjavörum. Mismunurinn á minni skoðun og hans er, að ég vil, að það, sem þarf að fást greitt í bæjarsjóð, sé tekið hjá þeim, sem geta greitt.

Þá sagði þessi hv. þm., að það hefði verið slæmt, að ég hefði ekki verið kominn á þing fyrr, til þess að tala á móti því, að Siglufjörður fengi gjöld af síldarverksmiðjum ríkisins þar, og hann taldi, að þar hefði Siglufjörður forréttindi fram yfir aðra kaupstaði. Þetta er ekki rétt. Þessi hv. þm. veit, að útsvarslöggjöfinni var breytt árið 1926 af hans flokksmönnum. Hann veit líka, að síðan þessu var breytt, hafði Siglufjarðarbær orðið fyrir mjög miklum rangindum gagnvart því að afla sinna tekna með útsvörum. Fjöldi manna, sem rekur þar alla sína atvinnu, borgar ekki einn eyri til bæjarins. Og h. u. b. 2/3 af öllum þeim, sem afla sér mikilla tekna á Siglufirði, kemst þannig undan því, að hægt sé að leggja nokkurt útsvar á þá til bæjarins. Það er m. a. vegna þess, að síldarverksmiðjur ríkisins eru útsvarsfrjálsar. En þær mundu, ef þær væru reknar í einkaeign, þurfa að borga, eftir þeim útsvarsskala, sem nú er farið eftir um greiðslu útsvara þar á staðnum, um 80 til 100 þús. kr. í útsvar. Það er ekki nema sjálfsagt, að þessi stofnun væri látin greiða einhvern lítinn hluta af þessari upphæð í bæjarsjóð. Og það er ekki neitt líkt því að taka útsvar af síldarverksmiðjum ríkisins, að láta fátæka menn í Vestmannaeyjum borga vörugjald.

Þá segir hv. þm. Vestm., að vörugjald í Vestmannaeyjum komi eingöngu niður á Vestmannaeyingum sjálfum, en að engu leyti niður á öðrum. Hann veit þó, að það eru árlega fleiri hundruð manna, sem sækja sína atvinnu til Vestmannaeyja og dvelja þar mjög verulegan hluta af árinu, frá því um jól og til vertíðarloka; þeir borga dýrara fæði og aðrar nauðsynjar vegna vörugjaldsins en annars mundi vera og borga á þann hátt í bæjarsjóðinn í Vestmannaeyjum. Þeir borga af sömu ástæðum dýrara salt, sem þeir nota í fiskinn, dýrari olíu og annað slíkt. Það er jafn órétt að taka þetta gjald af þessum mönnum eins og að taka gjöld af vörum, sem fluttar eru úr kaupstöðum og upp í sveit.

Ég get vel skilið, að þessum hv. þm., þessari hálffölnuðu íhaldsfjólu, sé illa við, að ungir menn komi fram hér á þingi fyrir hönd andstöðuflokks hans, sem geta sett fram sínar skoðanir. Ég sýni honum umburðarlyndi í þeim efnum. En það hefir engin áhrif á þetta mál, sem hér er til umr., hvort menn skattyrðast um pólitík yfirleitt.

Ég hygg nú, að hv. þm. Vestm. hafi sjálfur sannað það manna bezt, að það beri ekki að taka vörugjaldið af mönnum í Vestmannaeyjum, vegna þess að hann segir, að allur almenningur í Vestmannaeyjum sé svo fátækur, að hann geti ekki risið undir útsvörum. En þá er líka hróplegt ranglæti að neyða þessa menn til að borga þetta gjald í bæjarsjóð, en láta það ekki koma niður á hinum, sem geta borið það að borga í bæjarsjóðinn.