28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (768)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Bernharð Stefánsson:

Hv. 3. landsk. talaði um flokkspólitík í sambandi við þetta mál. Hann sagðist fylgja flokki sínum í þessu máli sem öðrum og bjóst við, að hv. þm. Vestm. myndi gera það líka, en taldi aftur, að ég mundi ekki vera í samræmi við minn flokk í þessu máli. Það er rétt, að pólitísk flokksmál eru til, en þau ná venjulega ekki nema til höfuðmála þingsins. Hin smærri og þýðingarminni mál liggja þar fyrir utan, flokkasamþykktir ná ekki til þeirra. Og hvað þetta mál snertir, þá er það víst, að það liggur fyrir utan allar flokkssamþykktir Framsfl. Afstaða mín til þess er því tekin alveg á mína eigin ábyrgð.

Hann vildi halda því fram hv. þm., að Framsfl. hefði jafnan verið á móti slíkum málum sem þessu, af því að bændur væru skattlagðir að meira og minna leyti með þeim. Þetta er bara ekki rétt hjá hv. þm. Það skiptir ekki máli í þessu sambandi, hvort bændur eiga í hlut eða aðrir, heldur hitt, hvort bærinn fær með þessu aðstöðu til að skattleggja utanbæjarmenn eða leggur gjaldið aðeins á sína eigin íbúa. Við vorum á móti því, að slíkt gjald sem þetta væri lagt á á Sauðárkróki, en það var beinlínis fyrir þá sök, að þar hlaut gjaldið að mjög miklu leyti að lenda á héraðsbúum utan kaupstaðarins. Þar hagaði því allt öðruvísi til, hvað þetta snerti en í Vestmannaeyjum. Að Vestmannaeyingum hefir verið leyft að taka þetta umrædda vörugjald nú um lengri tíma, byggist á því, að þeir skattleggja aðeins sjálfa sig með því, en ekki aðra. Ég vona að hv. þm. skiljist, að hér er um tvennt ólíkt að ræða.

Það hefir nokkuð verið á það minnzt undir þessum umræðum, að aðeins bæri að leggja gjöldin á þá ríku. Þetta kann nú að láta vel í eyrum, en það er nú bara því miður svo, að ríkir menn eru venjulega fremur fáir í landinu, nema þá ef það væri hér í Reykjavík. Í Vestmannaeyjum geri ég t. d. ekki ráð fyrir, að þeir séu margir, auðmennirnir. En það er nú svona, fólkið gerir kröfur til þess opinbera, bæði til ríkissjóðs og bæjar og sveitarsjóða. Og ef þeim kröfum á nokkuð að sinna, þá verður að taka peningana þar, sem hægt er að innheimta þá. Hinsvegar man ég ekki betur en að því væri lýst yfir hér á Alþingi í fyrra, af þáverandi form. Alþfl., að beinu skattarnir væru nú orðnir svo háir, að tæplega væri hugsanlegt að auka þá verulega, frá því sem væri. Það skal og fúslega viðurkennt, að tollar og gjöld koma mjög hart niður á ýmsum fjölskyldufeðrum, en jafnframt má benda á það, að hinir óbeinu skattar eru eina leiðin til þess að ná gjöldum til almennra þarfa hjá mörgum einhleypum einstaklingum. Þetta vita allir, og því er ekki hægt að hrópa hátt um afnám allra óbeinna skatta.

Það, sem farið er fram á í frv. þessu, er að framlengja þá óbeinu skatta handa Vestmannaeyjakaupstað, sem bæjarsjóðurinn er búinn að fá að hafa síðastl. 12 ár. Hvað mig snertir, þá finnst mér ekki nema eðlilegt og sjálfsagt að verða við þeim óskum kaupstaðarins, að framlengja þetta gjald ennþá einu sinni, sérstaklega líka þegar því er haldið fram, að vegna hins mjög háa fasteignamats þar í Eyjum þá fái bæjarsjóðurinn ekkert úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga. Það getur því varla komið til mála annað en framlengja þennan tekjustofn, a. m. k. þangað til að búið er að framkvæma nýtt fastelgnamat. Að síðustu skal ég gjarnan geta þess, að ég gæti vel gengið inn á vörugjald sem tekjustofn fyrir kaupstaði yfirleitt, ef hægt væri að finna út þá leið, að utanbæjarmenn væru ekki skattlagðir með því.