07.05.1938
Sameinað þing: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 141 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1939

Sigurður Kristjánsson:

Ég vil þá biðja hæstv. forseta, áður en ég byrja, að gera ráðstafanir til þess, að þeir hv. þm., sem ekki hafa fjarvistarleyfi, komi inn í þingsalinn, því að ég þarf að flytja hér erindi, sem varðar alla hv. þm., og sérstaklega hæstv. stj. Ég hefi smávegis í pokahorninu, sem hún verður að svara. (Forseti: Ég skal hringja). Þær brtt., sem ég hefi leyft mér að gera við fjárlfrv., eru allar á sama þskj., 460, að undanskilinni einni, sem ég er meðflm. að og er á þskj. 444, V. Ég geri ráð fyrir, að hv. 1. flm. þeirrar till., hv. þm. N.-Ísf., mæli sérstaklega fyrir henni. Till. er um byggingarstyrk til unglingaskóla, og er sérstaklega miðuð við skólann í Reykjanesi. Eins og hv. þm. er kunnugt, er sá skóli nýkominn undir lög um unglingaskóla í sveitum og hefir þess vegna að nokkru leyti orðið útundan með byggingarstyrk, og varð skólinn sérstaklega illa úti í fyrra. En við, sem stöndum að þessari till., viljum á engan hátt rýra hlut annara unglingaskóla, og með alveg sérstaklega vingjarnlegu tilliti til hv. þm. V.- Ísf. höfum við ekki viljað haga okkar till. á þann hátt, að sá skóli, sem hann ber sérstaklega fyrir brjósti — (en náttúrlega er honum annt um alla skóla landsins, þar sem hann er fræðslumálastjóri) —, Núpsskólinn, gæti haft baga af þessari brtt., og höfum þess vegna ekki stílað brtt. þannig, að Reykjanesskólinn fengi 15000 kr. af upphaflegu upphæðinni, heldur þannig, að aukið væri við fjárveitinguna 5000 kr., svo að hið fyrirhugaða tillag til annara skóla þyrfti ekki að rýrna við það, þótt Reykjanesskólanum væru ætlaðar 15000 kr. En það stendur þannig á um byggingaráætlunina hjá þessum skóla, að það mundi raska henni mjög, ef fjárveitingin yrði minni.

Þá eru hér nokkrar brtt., sem ég er flm. að og skal nú fara nokkrum orðum um.

1. brtt., sem er við 14. gr., er um að veita 10000 kr. til upphitaðrar sundlaugar á Ísafirði með því skilyrði, að Ísafjarðarkaupstaður afhendi Reykjanesskólanum Reykjanesið með tilgreindum skilyrðum, er þá teldust endurgjöld þess frá skólans hendi. En nesið er eign Ísafjarðarkaupstaðar, sem lagði í að kaupa það á sínum tíma, vegna þess að þar var hin eina sundkennsla, sem teljandi var í héraðinu, og vildi því tryggja sér þarna griðastað fyrir slíkan íþróttaskóla. Nú er það orðin almenn skoðun manna, að í kaupstaðnum verði aldrei almenn sundkennsla, nema sund verði kennt á staðnum. Það verður að kenna kaupstaðarfólki í kaupstaðnum sjálfum, en ekki að heimta, að það hlaupi að heiman til þess að stunda nám úti í fjarlægum sveitum. Það mundi t. d. engum detta í hug að setja barnaskóla fyrir Reykjavík uppi á Akranesi eða uppi í Mosfellssveit. Það mundi verða til þess, að börn færu ekki á þann skóla. Ef menn eiga að læra að synda, þá verður sundkennslan að fara fram þar, sem fólkið er, og síðan það varð kunnugt, að það er hægt á tiltölulega ódýran hátt að hita sundlaug með kolum, og sérstaklega síðan kaupstaðurinn (Ísafjarðar) fór að brjótast í því að virkja fallvatn í nánd við bæinn og hefir þess vegna afgangs mikið af rafmagni, þá þykir sjálfsagt að hita sundlaugina með rafmagni. Ég tel þess vegna, hvort sem það tekur lengri eða skemmri tíma, þá liggi það fyrir að setja sundlaugar í öllum þorpum og kaupstöðum, sem hafa raforku, og rafhita þær. Þess vegna hefi ég lagt til, að Ísafjarðarkaupstaður fái þennan styrk til þess að koma upp rafhitaðri sundlaug, sem að vísu mun kosta miklu meira en þetta, en ég tel víst, að kaupstaðurinn muni mjög fúslega leggja í þetta allverulegt fé, því að kaupstaðarbúum er alveg ljóst, að þetta er mikið nauðsynjamál. En þá er gersamlega orðið ástæðulaust fyrir kaupstaðinn að eiga Reykjanesið, sem er skólanum mjög mikils virði, þó að það hafi ekki orðið öðrum það. Tel ég því rétt, að Ísafjörður afhendi skólanum Reykjanesið til eignar, gegn ákveðnum skilyrðum, en komi sér í staðinn upp rafhitaðri sundlaug, skólanum er nauðsynlegt að eiga nesið, en þau fríðindi, sem hann lætur á móti, verða óbein, því að hann hefir ekki þau fjárráð, að hann geti lagt fram beint fé. Það er aftur mikils virði fyrir Ísafjarðarkaupstað að eiga forgangsrétt að skólanum í Reykjanesinu, sérstaklega íþróttaskólanum, því að þarna er haldið uppi íþróttakennslu allt árið, og eiga þar forgangsrétt til sumardvalar fyrir fólk, en um það er talsvert mikil samkeppni, því að þessi staður, Reykjanesið, vinnur meir og meir hylli nágrannasveitanna, og er mikil aðsókn þangað á veturna, en sérstaklega á sumrin. En til skilningsauka á því, hvað það er nauðsynlegt fyrir skólann að eiga landið í nágrenninu, skal ég geta þess. að það er þegar byrjað að setja þarna niður nokkurskonar húsmennsku. Það vill nú þannig til, að sá fyrsti, sem setti þarna niður hús og tók land til ræktunar, hefir selt og það komst í góðar hendur, en það er engin trygging fyrir því, að svo verði alltaf. Það er mjög freistandi fyrir Ísafjörð að notfæra sér þessa eign, og hver veit nema hann færi að setja þarna vandræðafólk, því að hann þarf ekki að taka tillit til annars en sjálfs sín, ef hann á þessa eign. En það er ófært, að skólinn megi ekki sjálfur ráða, hverjir eru hans nánustu nágrannar.

Þess vegna álít ég þetta haganlegt fyrir báða aðilja, Ísafjörð, að fá sína sundlaug rafhitaða og forgangsrétt að íþróttaskólanum og til sumarvistar fyrir fólkið, en Reykjanesskóla að fá nesið að öðru leyti. — Ég veit, að það er dálítið hart að fara fram á þessa fjárveitingu, en það hefir verið veitt mikið fé til sundnáms, t. d. í Vestmannaeyjum, og ég held, að engan iðri þess, því að þar er sundkunnátta afar almenn síðan. Og Ísafirði, þar sem menn hafa lífsbjörg sína mest úr sjó, er nauðsynlegt að koma upp fullkomnum sundskóla, sem starfaði sumar og vetur, og þar sem ekki aðeins unglingar og börn læra sund heldur líka fullorðnir, sérstaklega sjómenn. Ég vona, að hv. þm. taki þessu máli með skilningi og samþ. till.

Næsta till. er við sömu gr., og erum við þrír flm. að henni. Hún er um að auka styrkinn til Íþróttafélags Reykjavíkur úr 1000 kr. upp í 5000 kr. til kaupa á Kolviðarhóli. Ég get ekki annað en sagt nokkuð nánar frá þessu, þó að hv. 10. landsk. sé búinn að tala fyrir þessari till.

Þetta félag hefir mörg afrek að baki sér, og sérstaklega má minna á, að það var fyrsta íþróttafélagið, sem lagði leið sína úr landi og gat sér, og sérstaklega sinni þjóð, mikinn sóma með ferð sinni til Noregs og Svíþjóðar. Kennari flokksins og stjórnandi, Björn Jakobsson, fékk sérstakt hrós erlendis fyrir það, hversu afarvel þessi flokkur hefði komið fram, og í raun og veru vakið mesta athygli allra íþróttafélaga á því móti, sem var 1927. Þetta félag sendi síðan íþróttaflokk til Englands og Frakklands og gat sér bezta orð. Nú er svo komið, að útiíþróttirnar draga fólkið ef til vill allra mest að sér, og það er ekki hægt að neita því, að það eru mjög merkileg umskipti í jafnfjölmennum stað og Reykjavík, að í stað þess, að ungt fólk þyrpist inn á veitingakrár, og reyki sígarettur og neyti áfengis, og slæpist á kvöldin og jafnvel fram á nætur, þá skuli þetta unga fólk nú þjóta eftir vinnutíma upp á heiðar í útiíþróttir, ekki aðeins til þess að auka sína eigin hreysti heldur og til að beina fólksstraumnum frá öðru sem er sízt til heilsubótar eða uppeldisbótar fyrir fólkið. Við eigum svo mikið undir því, eins og aðrar þjóðir, að uppvaxandi fólk leggi stund á líkamsmennt og öðlist eðlilega hreysti og heilbrigðan hugsunarhátt, að við verðum að gefa því sérstakan gaum.

Nú hefir þetta félag ráðizt í það stórvirki, að kaupa býlið Kolviðarhól, sem við fráfall fyrri eiganda komst eiginlega dálítið út úr því hlutverki, sem það hafði, svo við borð lá, að það félli í hálfgerða órækt. En nú er þetta býli komið í hendur öflugu félagi, þó að það sé févana, sem ræður yfir fjölda áhugasamra meðlima, sem munu ekki telja eftir sér að leggja fram krafta sína til þess að gera garðinn frægan. Þessi staður er á fjölförnustu leið milli byggðarlaga, á Íslandi, og er bæði gisti- og hressingarstaður fyrir vegfarendur. En auk þess er hann orðinn sérstaklega merkilegur staður fyrir íþróttalíf. Skilyrðin þar í kring fyrir útiíþróttalíf og vetraríþróttir eru sérstaklega góð. Þetta býli keypti félagið fyrir 45000 kr., en því er ofvaxið að standa undir þeirri skuld, sem það hefir á sig tekið og hefir því farið fram á 10000 kr. styrk. Hv. fjvn. hefir ekki þótt fært að verða við þessari beiðni, en hefir sýnt, að hún metur starf félagsins nokkurs með því að láta það ekki alveg synjandi frá sér fara. En sá styrkur sem n. leggur til að veitt verði, er aðeins 1000 kr., og er það svo lítið, þegar sérstaklega er miðað við kaupverð nefndrar eignar, að segja má, að það sé þýðingarlaust að öðru leyti en því, að hv. n. hefir með þessu sýnt, að hún telur félagið einhvers vert.

Við flm. höfum ekki treyst okkur til að þessu sinni að fara fram á meira en helming af því. sem félagið sótti um, og viljum við eindregið mæla með því, að hv. Alþ. verði við þessari beiðni, og leggjum sérstaka áherzlu á, að það er engum vafa bundið, að ekki aðeins Reykvíkingar, heldur einnig allt það fólk, sem sækir til skólanna í Reykjavík víðsvegar af landinu, á afarmikið undir því, að skilyrðin á Kolviðarhóli verði sem allra bezt til vetraríþrótta. Ég tel því, að hér eigi allir landsmenn hlut að máli.

Næsta till., sem ég flyt, er við 16. gr., varðandi framlagið til atvinnubóta. Sú till., eins og þær, sem ég hefi áður minnzt á, er sniðin til hagsbóta fyrir íþróttalifið. Menn mættu kannske halda af þessum till. mínum, að ég væri einhver sérstakur sportglópur. En svo er ekki. Ég er minni maður á því sviði en mér væri heilnæmt. Meðan ég var yngri, fekkst ég nokkuð við þessa hluti, og ég sé, að það er skakkt að halda þeim ekki áfram fram á grafarbakkann. Mér er alveg ljóst af því að horfa á fólkið í kringum mig, að bætt skilyrði fyrir íþróttir eru okkur ómetanleg nauðsyn. Nú hefi ég lagt til, að af atvinnubótafénu, sem á fjárl. er áætlað 1/2 millj. megi 60 þús. kr. ganga til að vinna að íþróttasvæðinu við Skerjafjörð undir Öskjuhlíð. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þetta atvinnubótafé gengur yfirleitt til vinnu að vetrinum, og sú vinna verður oftast að heldur rýrum notum, og stundum að svo að segja engum notum, því að skilyrði til vegagerðar og jarðahóta að vetrinum til hér á landi eru sjaldan góð. Á þessum stað, sem ég nefndi, væri bæði hægt að vinna á landi og við sjó, þar sem á að undirbúa sundstöð og baðstað. Og ég er ekki í neinum vafa um, að sú vinna, sem framkvæmd yrði á þessu svæði, kæmi þess vegna að miklu meiri notum en nokkursstaðar annarsstaðar, auk þess sem ég veit, að menn mundu ákaflega fúsir til þess, sem vinnunnar kæmu til að njóta, að leggja fram krafta sína, sérstaklega til að gera þennan leikvang svo úr garði, að hann gæti komið að sem beztu gagni og orðið okkur til sóma. Einhver kynni að halda, að þetta yrði ekki almenningi til gagns, heldur aðeins Reykvíkingum. En þegar ég bar þessa till. fram á síðasta þingi, lýsti ég því nokkuð, hvað fyrirhugað væri á þessum stað, og færði rök að því, að þetta væri mál allrar þjóðarinnar. Þarna geta Reykvíkingar vitanlega notið mikils góðs af, en engu að síður allt það fólk sem sækir hingað skóla. En þar að auki er það orðið okkur ekkí aðeins metnaðarmál, heldur skilyrði til að halda sóma okkar gagnvart öðrum þjóðum, að geta boðið íþróttaflokkum frá öðrum löndum sæmilega leikvelli, þar sem þeir geti sýnt íþróttir og háð kappleiki við Íslendinga. Það er orðið alltítt, að flokkar frá stærri og merkari þjóðum á sviði íþróttanna en við erum, komi hingað, bæði til íþróttasýninga og kappleikja, og við megum ekki venja þá af okkur með því að bjóða þeim svo léleg skilyrði, að okkar hróður verði lítill, og að þessir flokkar geti sagt með sanni, að hingað sé varla komandi, hversu gott sem fólkið er, vegna þess að skilyrði séu hér svo léleg á sviði íþróttanna. Það er miklu æskilegra, að þetta fólk segi, að hjá þessari fámennu og fátæku þjóð væri merkilegt að koma á leikvang, sem stæðist fullkomlega samanburð við íþróttasvæði hjá ríkum milljónaþjóðum. Ef við komum þessu svæði í það horf, sem áætlað er og teikningar hafa markað, þá er víst, að við munum hafa af því hinn mesta sóma, að bjóða hingað erlendum íþróttaflokkum.

Nú er sá kostur við þessa till. líka, að hún fer ekki fram á neitt ,sérstakt fjárframlag, heldur að atvinnubótafénu sé að sumu leyti beint að þessum sérstaka stað. Og þar sem færa má fyrir því sterkar líkur — ef ekki sannanir —, að þetta atvinnubótafé mundi þarna koma að eins góðum eða betri notum en annarsstaðar, held ég, að það ættu að geta orðið sterk meðmæli með því að samþ. till. Enda hafa þó nokkrir þm. haft orð á því við mig, eftir að till. lognaðist út af í fyrra, að þeim sýndist þetta skynsamlegt og æskilegt. Vænti ég þess vegna, að hv. þm. geti nú fallizt á till.

Loks á ég hér fjórar smábrtt. við 18. gr., og skal ég ekki tefja tímann á því, að fjölyrða um þær. Fyrsta till. er um að hækka styrk til Páls Halldórssonar, skólastjóra stýrimannaskólans. Fjvn. hefir ætlað honum 1000 kr. styrk. Ég fer fram á, að hann fái 1700 kr. Þessi maður er nú kominn rétt að sjötugu. Hann hefir verið kennari við stýrimannaskóla landsins í 40 ár, og þar af 37 ár skólastjóri. Mér er kunnugt um, að hann er fátækur maður og hefir nokkra fjölskyldu. Ég held, að eftir svo langan starfsaldur og stórmerkilegt starf sé ekki annað rétt af þinginu en að sjá fyrir því, að hann geti lifað nokkurnveginn án neyðar þessi ár, sem hann á eftir ólifuð. Ég veit ekki betur en allir þm. beri hlýjan hug til þessa manns, og allir þm. viðurkenna áreiðanlega, að hann hafi haft með höndum það menningarstarf meðal íslenzku þjóðarinnar, sem borið hefir hvað mestan árangur síðustu áratugina, en það er að ala upp og mennta sjómanna- og farmannastétt landsins. Ég vona því, að þessi till. fái góðan byr, og efast ekki um það. Að ég er flm. hennar, en ekki einhver annar, er tilviljun ein, því að hver sá þm., sem farið hefði að athuga þetta, myndi sjálfsagt hafa verið fús til þess.

Þá hefi ég farið fram á að hækka skáldastyrk Guðmundar Friðjónssonar á Sandi um 400 kr., úr 1800 upp í 2200 kr. Ég hefi áður farið fram á hækkun fyrir þennan mann og fekk þá sæmilegar undirtektir. Var þá styrkurinn hækkaður úr 1500 upp í 1800 kr. Ég færði þá rök að réttmæti þess, og vil ég ekki vera að endurtaka þau, enda er maðurinn svo þjóðkunnur, að það hefir enga þýðingu í raun og veru. Það er áreiðanlega viðurkennt, að það sé stórmerkilegt, að bóndi í afskekktri sveit, fátækur með stóra fjölskyldu, stríðandi við heilsuleysi alla sína æfi, svo að segja, skuli hafa unnið jafnglæsilegt mikið og gott starf á sviði bókmenntanna og þessi maður, sem er áreiðanlega mesti afreksmaðurinn sem skáld í íslenzkri bændastétt. Ég tel mig fara hér hóflega í sakirnar. Það ber manni líka að gera, og vænti ég að fá góðar undirtektir.

Næsti liður þessarar sömu gr. er um Matthías Ólafsson fyrrv. alþm. Er farið fram á. að honum verði veitt ellilaun. Þessi maður er kominn á níræðisaldur og hefir ekki stundað það að krækja sér í fríðindi frá ríkissjóði. En hann hefir, frá því hann varð fullþroskaður maður, verið starfandi í þarfir og þjónustu lands sins. Hann var lengi alþm., starfaði við ríkisstofnanir, landsverzlunina og ýmislegt fleira, allsstaðar sem hinn hægláti, óframgjarni en skilsami maður. Og af því að ég veit, að hann er vinsæll og viðurkenndur, þá vænti ég þess, að hv. þm. muni bera þann hug til hans, að þeir vilji samþ. þessa litlu till. Ég taldi ekki rétt að vera að taka mikið upp í mig, því að ég veit, að jafnsparsömum og hófsömum manni og Matthíasi Ólafssyni verður mikið úr 50 kr. á mánuði, og það er þess vegna talsvert fyrir hann, þótt maðurinn hinsvegar sé ekkert smámenni í lund.

Loks er hér till. um að veita Sigríði Sigurðardóttur ljósmóður 300 kr. styrk. Það er búið að gera ráðstafanir til þess, að ljósmæður fái eftirlaun, en það er miðað við, að þær hafi verið á styrk. Þessi kona er ein af þeim konum, sem eru ekki að halda sér mikið fram. Hún er nú orðin svo roskin, að hún á sennilega ekki mörg ár eftir ólifað, er 79 ára. Hún var 31 ár ljósmóðir í Kjósinni, og ég hugsa, að það sé ekki ósanngjarnt að fara fram á, að hún sé með í þeim hópi yfirsetukvenna, sem eiga að njóta eftirlauna. Ég þekki þessa konu ekki persónulega, en þegar mér var bent á hana, rankaði ég við mér, að hún mundi ekki aðeins hafa rétt, heldur þörf fyrir að komast í hóp þessara yfirsetukvenna.

Þetta eru þær till., sem ég flyt til breyt. á fjárlagafrv., og ég vænti þess, að ekki verði litið svo á, að þær séu neitt óhóflegar.

Ég ætla svo að minnast hér á eina brtt, enn, sem er ekki flutt af mér, en ég vil eigi að síður lýsa yfir, að hún kom mér alleinkennilega fyrir sjónir. Brtt. þessi, sem er á þskj. 425, XXXVIlI, er frá hæstv. atvmrh., og með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa hana upp: „Ríkisstj. er heimilt að hlutast til um, að stj. fiskveiðasjóðs Íslands verji til útlána, samkv. nánari reglum, er atvmrh. setur, allt að 90 þús. kr. af ónotuðu fé og ónotaðri lántökuheimild skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda, í því skyni að ná fullnaðarsamningum um greiðslu og eftirgjafir á ábyrgðarkröfum á félagsmenn fiskveiðasamvinnu félaga, er á þá hafa fallið vegna skuldaskila félagsins“.

Hæstv. atvmrh. hefir ekkí talað fyrir þessari till., og mér sýnast ekki miklar líkur til þess, að hann muni ætla að gera það, en láta hana fljóta í gegn, ef unnt væri, án þess að með henni sé mælt. Till. er svo furðuleg, að það er ómögulegt að láta hana fara orðalaust framhjá sér. Það er vitanlegt, að þegar samin voru l. um skuldaskil vélbátaeigenda, þá var ætlunin, að hver sá, sem krafa væri á, skyldi greiða það, sem honum væri fært, af þeim kröfum, sem á hann féllu. Og það er vitanlegt, að skuldaskilastj. hefir framkvæmt þetta á þann hátt, að hún hefir fyrst og fremst látið skuldunautinn sjálfan greiða það, sem honum hefir verið unnt, en síðan hafa ábyrgðarmennirnir verið skildir eftir með það, sem afgangs var, m. ö. o., kröfuhafar hafa haldið eftir alveg óskertum kröfurétti á ábyrgðarmenn. Ábyrgðarmennirnir hafa flestir lent í þessari skuldbindingu á þann hátt, að þeir hafa skrifað upp á víxla fyrir útgerðarmenn og fyrirtæki, hérumbil ætið þannig, að þeir hafa ekki haft minnstu hagnaðarvon af því, hvernig fyrirtækið gengi, og engu hafa þeir ráðið um það, hvernig fyrirtækið hefir verið rekið. Þessir menn hafa við skuldaskil verið skyldaðir til þess að lúka þeirri skuld, sem ekki laukst með skuldaskilunum, allt eftir því, hvernig þeir hafa verið krafðir. Það hefir ekki komið hér fram nein till. í þá átt, að losa þessa menn undan skuldbindingum sínum. Þeir hafa verið látnir eiga sig, og þeirra hlutur er alveg kominn undir því, hvernig kröfuhafar ganga að þeim.

Þeir menn, sem hafa verið ábyrgir fyrir skuldum samvinnufélaga, hafa verið meðlimir í þeim félagskap með það fyrir augum, að njóta þeirra hlunninda, sem kynnu að skapast, ef vel gengi. Og margir þeirra hafa öðlazt ýmsa aðstöðu, bæði sem starfsmenn og stjórnendur, sem hefir beinlinis fært þeim fé, og sjálfir hafa þeir ráðið miklu um það, hvernig fyrirtækið hefir verið rekið. Og nú er hlaupið til af hæstv. atvmrh. að bera fram till. um, að varið skuli allt að 90 þús. kr. til að bæta aðstöðu þessara ábyrgðarmanna, sem hafa beinlinis verið hagsmunaaðiljar í fyrirtækjunum. En svo er ekkert gert af því opinbera til þess að létta byrðar allra annara ábyrgðarmanna, sem hafa orðið fyrir því óláni, að á þá hafa fallið stórkostlegar kröfur.

Þetta ber dálítið einkennilega að fyrir mig, sem hefi staðið hér í orðakasti við hæstv. ráðh. út af smámunum, út af því, hvort lægst launuðu sjómenn eigi að fá nokkur hundruð kr. þegnar undan skatti. Og það orðakast var frá hendi hæstv. ráðh. rekið af svo miklu kappi, að ég bjóst við, að hann mundi þá og þegar leysast upp í frumefni sín af eintómri vandlætingu. Nú kemur þessi maður og biður um 90 þús. kr. til þess að hýrga nokkra menn persónulega, sem margir eru vel settir í þjóðfélaginu. Mér er kunnugt um, að það eru mjög fá félög, sem geta komið hér til greina, eða að öllum líkindum sex. Þar af eru tvö félög, sem hafa takmarkaða ábyrgð, þannig að meðlimirnir ábyrgjast ekki meira en 3–500 kr. hver. Fyrir þessa menn hefir þessi hjálp lítið að segja, því að sennilega verður fiskveiðasjóður aldrei skuldbundinn til að lána út á minna en 500 kr. ábyrgð. Og hvað hin félögin snertir, þá get ég ekki séð, að þar geti verið nema um ábyrgðarmenn eins einasta félags að ræða, þ. e. samvinnufélag Ísafjarðar. Það vill þannig til, að ábyrgir í því félagi eru nokkrir hv. þm. — Nú get ég búizt við því, að ýmsir hugsi sem svo, að ég geri þetta sérstaklega að umtalsefni vegna þess, að hér sé um mótstöðumenn mína að ræða. Eg læt hvern og einn hugsa um það sem hann vili og anza því engu. En hitt ætla ég að spyrja hæstv. ráðh. um: Er það svo, að samningar séu um það milli Framsfl. og þessara manna, að stj. kaupi þessa menn til fylgis við sig fyrir þessi persónulegu fríðindi? Við höfum orðið að horfa upp á það, á meðan þessir flokkar, Framsfl. og Alþfl., höfðu stjórnarsamvinnu, að þeir fórnuðu fé og ýmsu því, . sem kostar ríkið mikið, til þess að geta lafað saman. En er nú svo komið, að ekki sé aðeins fórnað hagsmunum hins opinbera fyrir samstarf flokkanna, heldur að farið sé að kaupa einstaka menn þessa stuðningsflokks stj., sem margir efast um, að séu annað en gerviþm., með lítið eða ekkert kjósendafylgi á bak við sig, — að þeir geti sett stj. þau skilyrði, að hún leggi fram, hvenær sem á þarf að halda fyrir þá persónulega, stórar fjárfúlgur, til þess að halda þessum dýrmæta stuðningi þessara gerviþm. Þegar svo langt er komið í spillingunni, er ekki hægt að þegja yfir því lengur, heldur verður að gera slíkt hneyksli opinbert, til þess að alþjóð megi um dæma, hversu djúpt er stigið í spillingunni í stjórnarháttum.

Ég sé nú ekki ástæðu til að fara lengra út í þennan þátt málsins, en vænti þess, að hæstv. ráðh. (SkG) reyni að gera grein fyrir, hvernig á þeim ósköpum stendur, að hann skuli leyfa sér að koma fram með þessa till. Hitt vildi ég tala um, hversu hún er gersamlega óformleg. Það er ekki hægt að ákveða þetta einungis með brtt. við fjárlögin. Það yrði að byggjast á því, að allir kröfuhafar vildu fara þessa leið. Þessi skuldaskil byggjast nefnilega ekki á reglum skuldaskilalaganna; hér er ekki verið að framlengja þau á neinn hátt, heldur setja ný skuldaskil. Og fyrir hvern? — Fyrir nokkra ábyrgðarmenn, eða til að hindra að kröfum á þá verði framgengt. Þeim, sem kröfurnar eiga á hendur samvinnufélögunum, á að fullnægja með fé úr skuldaskilasjóði. Það eru að vísu ekki til nema 16 þús. kr., svo að hann yrði að taka lán, 75 þús. kr. sem ríkissjóður yrði að greiða og aldrei fengi endurgreitt. Nú stendur í brtt., að þessi skuldaskil skuli fara fram eftir nánari reglum, sem ráðh. setur. En hvernig fer, ef kröfuhafar stefna mönnunum eftir sem áður? Hvað ætlar hæstv. ráðh. að gera, þegar það er komið í ljós, að þessi brtt. hans getur ekki bundið hendur kröfuhafanna? — Gefa út bráðabirgðalög? Er það meining hæstv. ráðh., þegar hann er búinn að hotta þm. út úr þingsalnum, að hlaupa þá til og gefa út bráðabirgðalög um þetta efni, sem hann treystir sér ekki að fá samþ. lög um á Alþingi nú! Ég spyr, og vil fá skýr og skýlaus svör um þetta frá hæstv. ráðh., því að framkvæmd á brtt. hans er óhugsanleg. Í fyrsta lagi vil ég vita, hvort við eigum að vænta þess, að þessi ótímabundni stjórnarstuðningur Alþýðuflþm. eigi að kosta, hvað sem vera skal, ekki aðeins vegna flokksmála, heldur vegna persónulegra hagsmuna þm. Í öðru lagi verður það að koma fram. svo að allir heyri nú þegar, hvort hér á að fara í kringum aðalatriði málsins, þangað til stjórnin getur gefið út um það bráðabirgðalög.