28.03.1938
Efri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég mun reyna að draga mál mitt saman svo sem frekast er unnt, til þess að gera mitt til þess, að þeim umr., sem út af þessu máli hafa spunnizt, linni.

Hv. 1. þm. Eyf. gerði að umtalsefni nokkur orð, sem ég beindi til hans áðan. Ég hefi í raun og veru litið við hann að ræða, því að í öllum höfuðatriðum greinir okkur ekki mikið á. Hann viðurkenndi, að það væri rétt hjá mér, að Framsfl. hefði verið á móti vörugjaldinu sem tekjustofni fyrir bæjarfélögin, af ástæðum, sem hann sagði, að ég hefði farið rétt með. Við erum nokkurn veginn sammála um, að það beri að leita að öðrum leiðum fyrir bæina heldur en þeirri, sem hér hefir verið rætt um og Vestmannaeyjar vilja fá áfram fyrir sig. Hann gerði nokkra tilraun til þess að réttlæta það, að það stæði sérstaklega á með Vestmannaeyjar, og þeir myndu sennilega vilja leggja þetta á sig. Ég hefi heyrt, að í Vestmannaeyjum sé það mjög mikið deilumál meðal íbúanna, hvort fara eigi þessa leið. Ég get líka hugsað mér, að það sé enn meira deilumál nú, þegar búið er að sýna nokkra viðleitni í að veita bæjarfélögunum upphæð til tekna, sem ekki áður var í l. Einn hv. ræðumaður hefir líka bent á það, að ekki er nema hálfsögð sagan, að Vestmannaeyingar beri þennan skatt einir. Það er fjöldi vermanna í Vestmannaeyjum, sem hann lendir á líka. (BSt: Þeir hafa flestir frítt fæði). Það er langt frá því; margir þeirra verða að greiða sitt fæði. Þessir menn eru flestir úr sveitum landsins, úr Skaftafellssýslu, Árnessýslu og Rangárvallasýslu. Þessir menn fá að bera bróðurpartinn af þessum skattþunga, sem þarna er lagður á. Þetta er því nokkuð hliðstætt því, sem við erum sammála um, að ekki eigi að gera, að skattleggja vörur, sem fara í gegnum kaupstaðina til þeirra, sem utan þeirra búa. Ef hv, þm. er sjálfum sér samkvæmur, þá ætti hann að vera með okkur, en móti þessu frv.

Hann gerði að umtalsefni, að fólk nú á dögum gerði kröfur til hins opinbera í stórum stíl, svo að það yrði að reyna að finna upp ráð til að fylla sjóðina. Hann vildi meina, að jafnaðarmenn og kommúnistar ættu mikla sök á þessu. Ég skal ekki deila við hv. þm. um það, að fólk geri kröfur, enda mun vera til í öllum stéttum fólk, sem gerir kröfur. Ég kann þar ekki að greina á milli stétta. Ég veit ekki betur en að bændur undir ýmsum kringumstæðum komi til þingsins og geri háværar kröfur. Við verðum að játa, að Alþ. hefir mörgu öðru fremur sýnt fulla viðleitni í því að mæta kröfum bændastéttarinnar. Það er ekki nema mannlegt, að mer,n leiti þangað, sem þeir halda, að hægt sé að bæta úr þeim þörfum, sem fyrir hendi eru, og þá er vanalegast, eins og nú standa sakir, að leita til Alþ. og ríkisstj., að svo miklu leyti sem bæjarsjóðir eða hreppssjóðir ekki geta orðið við kröfum manna eða óskum. Við skulum því ekki gera mikið upp milli stétta, hvað það snertir að gera háværar kröfur. Hin fastlaunaða embættismannastétt kemur jafnvel hingað með sínar kröfur, svo að það er óréttlátt að tala um, að verkamenn einir geri kröfur.

Hann minntist að síðustu á það, að jafnvel við jafnaðarmenn hefðum orðið að játa, og sérstaklega vitnaði hann í það, að okkar látni foringi hefði haft þau ummæli hér á hv. Alþ., að beinu skattarnir væru orðnir svo háir, að lengra væri tæplega hægt að komast. Ég hygg, að þessi ummæli séu rétt eftir höfð. En hann mun þar eingöngu hafa verið að ræða um skatta, sem ríkið er að taka af þegnum þjóðfélagsins. Þegar þessi ummæli féllu, mun hafa verið talað um það, hvort tekju- og eignarskatturinn ætti að hækka úr því, sem komið væri, eða ekki. Það var alls ekki verið að ræða um það, hvaða tekna bæjarfélögin ættu að afla sér, þegar þessi ummæli féllu. Ég hygg, að sú almenna skoðun hafi verið og sé enn sú, að sú eina færa leið til skattaálagningar fyrir bæjar- og sveitarfélögin sé að jafna niður eftir efnum og ástæðum. Það hefir oft klingt, að þarfir bæjar- og sveitarfélaga væru svo miklar, að það væri örðugt að uppfylla þær með því að fara þessa leið. En í umr. hér, bæði fyrr og síðar, hefir það komið í Ijós, að sum bæjarfélög hafa ekki notað út í yztu æsar þá leið, að jafna niður eftir efnum og ástæðum. Það hafa verið færð nokkur rök að þessu. En ég er ekki svo kunnugur í Vestmannaeyjum, að ég geti fyllilega um það dæmt, hvort þessi leið hefir fyllilega verið notuð þar eða ekki.

Að öðru leyti tel ég mig ekki þurfa að svara hv. 1. þm. Eyf.

Hv. þm. Vestm. leiddi hjá sér að svara minni fyrirspurn. Hann getur kannske gert það með því að taka fram í í ræðu minni. Ég spurði hann að því, hvað það væri mikil upphæð, sem Vestmannaeyjar ætluðu að taka með þessu vörugjaldi. (JJós: Það hefir komizt hæzt 30 þús. kr.). Fljóti á litið virðist þetta vera allveruleg upphæð. Ég veit ekki, hvað margir gjaldendur eru þar, en við skulum hugsa okkur, að þeir séu 1000. Þá vil ég spyrja, hvort það sé ókleift að jafna þessari upphæð niður með útsvarsálagningu. Það liggja engin rök fyrir um, að það sé ókleift. (JJós: Ég skal upplýsa hv. þm. um það, sem ég geri ráð fyrir, að honum sé kunnugt um, að útsvörin í Vestmannaeyjum nást alls ekki öll inn). Við höfum heyrt þessa sögu hér á þingi, og það má vera, að á ýmsum tímum séu nokkur rök fyrir þessu. Það eru sjálfsagt áraskipti að því, hvernig útsvörin innheimtast, og í bæjarfélagi, þar sem eins er háttað og í Vestmannaeyjum, hlýtur slíkt að eiga sér stað, þar sem svo mikið er undir útgerðinni komið og því, hvernig aflast frá ári til árs. Aflabrögð í Vestmannaeyjum hafa verið sæmileg á undanförnum árum. (JJós: Ósköp er að heyra þetta. Man ekki þm. eftir árinu í fyrra?). Ég held það hafi verið meðalár. Árið þar á undan var ágætt ár, ef ég man rétt. Það eru þess vegna áraskipti að því, hvernig innheimtan gengur, og er það ekkert sérstakt fyrir Vestmannaeyjar, því að það er líka svo í öðrum bæjarfélögum.

Það myndi taka nokkuð langan tíma fyrir mig að svara öllum þeim ummælum, sem hv. þm. hefir kastað hér fram. Hann fór út um alla heima og geima og vitnaði í allt mögulegt sem syndir á herðum okkar jafnaðarmanna. En það myndi reyna of mikið á þolinmæði hæstv. forseta og annara hv. þdm., ef ætti að hrekja öll þau óathuguð ummæli, sem hann hefir hér kastað fram. Hann talaði um hvalablástur hjá mér. Ég held það mætti tala um hvalablástur hjá honum sjálfum.

Hann talaði um jafnaðarmenn og 4 ára áætlunina. Um þetta mætti tala langt mál, en ég vil í stuttu máli benda honum á, að mikið af því, sem er í 4 ára áætluninni, hefir verið framkvæmt af núverandi stj. Þar er því ekki um nein svik að ræða, eins og hann var að tala um. Þetta hefir verið framkvæmt þrátt fyrir það, þó að slíkir örðugleikar hafi dunið yfir okkar þjóðfélag, að slíks eru varla dæmi í okkar þingsögu, þar sem við höfum misst megnið af okkar fiskmarkaði bæði á Spáni og í Ítalíu. Þrátt fyrir þetta hefir stj. tekizt að láta fólkið í landinu búa við þolanlega afkomu, ef tekið er tillit til þessa. Í sambandi við önnur mál hefir hv. þm. játað, að áfall það, sem við höfum hlotið í viðskiptum okkar við útlönd, hafi verið það mikið, að það hafi verið hreinasta kraftaverk, hvernig okkur hafi tekizt að stjórna málum okkar og koma ýmsu í framkvæmd, sem gera þurfti, til þess að fólkið gæti lifað. Ef flokksmenn hv. þm. hefðu setið við stýrið á þessum árum, þá hefði ég haft gaman af því að sjá, hvort þeim hefði tekizt betur að sigrast á örðugleikum þessara ára. Það þýðir ekki fyrir hv. þm. að segja, að sósíalistar hafi svikið öll sín mál. Þeir hafa gert mikið meira í samstarfi við Framsfl. heldur en nokkur gat búizt við með tilliti til örðugleikanna, sem fyrir hendi hafa verið.

Það var rangt hjá honum, að ég hefði sagt, að Vestmannaeyjar hafi átt að vera búnar að gefa sig upp. Ég sagði, að það mundi þá fara þannig fyrir Vestmannaeyjum, að þær yrðu að gefa sig upp, ef þær gætu ekki staðið undir þeirri byrði, sem á þeim hvíldi. Hann sagði, að þær hefðu gert það ennþá. Ég vona líka, að það verði aldrei. En það er öllum kunnugt, að stjórnin á Vestmannaeyjum hefir verið með endemum slæleg. Það er vitað, að bæjarstjórnin var orðin svo hrædd við sín eigin verk, að hún þorði ekki að halda lögboðna fundi tímunum saman af ótta við, að bæjarbúar, og það meira að segja kjósendur meiri hlutans, myndu ef til vill koma með gagnrýni á stjórnina á rekstri bæjarins. Sú rannsókn, sem fram fór í sambandi við stjórnina á Vestmannaeyjabæ, var ekki að ófyrirsynju gerð, þótt ef til vill hafi ekkert komið fram, sem benti á, að það hafi verið um nokkuð glæpasamlegt að ræða. Ég minni hv. þm. á þetta af því, að þetta mun vera einsdæmi í stjórn bæjarfélags hér á landi. Það er ekki til að stæra sig af, að gefa tilefni til að rifjað sé upp, hvernig flokksbræðrum hans hefir tekizt stjórn í þessu bæjarfélagi.

Að síðustu var hann að bera blak af útgerðarmönnum í Vestmannaeyjum, að því er mér skildist. Ég fór nú ekkert niðrandi orðum um þá. Ég sagði hinsvegar, að ef um vandræði og örðugleika væri að ræða í atvinnulífi Vestmannaeyja, þá hlyti það að standa í beinu samband! við útveginn í Vestmannaeyjum, hvort hann væri rekinn eins og með þyrfti til þess, að fólkið hefði nóg að bita og brenna. Hinsvegar ætla ég ekki að deila á neinn einstakan, hvað því viðvíkur, hvort reka hefði mátt útgerðina betur eða ekki. En það er ekki rétt að ásaka stj. og þingið, þótt komið hafi upp í Vestmannaeyjum örðugleikar í beinu sambandi við atvinnulífið þar í bænum. Ég veit ekki betur en þingið hafi gert ýmsar ráðstafanir til þess að létta undir með útveginum.

Hv. þm. sagði, að ég væri þannig skapi farinn, að ég vildi koma útveginum fyrir kattarnef. Ég verð að segja, að svona ummæli eru mjög ódrengileg, að leyfa sér að halda því fram, þótt ég sem umboðsmaður vissrar stéttar hafi leyft mér að flytja kröfur hennar og óskir gagnvart atvinnurekendum, að þá sé það mín hugsun að vilja koma slíkum atvinnuvegi fyrir kattarnef. Ég verð að segja, að ég hygg, að slík ummæli nálgist það að vera meiðyrði. Það er allt annað, hvort menn vilja, að útgerðin hætti, eða að þeir sem við hana vinna, hafi lífvænleg kjör. (JJós: Hvað vildi hv. þm. gera við togaraútgerðina á síðasta þingi?). Ég er ekki einn um þá skoðun, því að það eru meira að segja margir útgerðarmenn þeirrar skoðunar, að útgerðarfélög, sem eru langt fyrir neðan það að eiga fyrir skuldum, eigi að gera upp og koma togurum þeirra í hendur manna, sem geta rekið þá. Þetta er ekki skoðun okkar jafnaðarmanna einna, því að margir útgerðarmenn eru þessarar skoðunar.

Ég lofaði í upphafi að hafa þetta ekki langa ræðu, en hv. þm. fór svo langt út fyrir efnið og óð út um heima og geima, og á þeim grundvelli verður maður að svara honum, svo að hann hafi ekki einn orðið um fjarstæður í þessu máli. Já, ég sagði, að hv. þm. Vestm. væri einn um þær fjarstæður, sem hér hafa verið bornar fram. Og ég held, að það sé nokkurnveginn rökstutt, að svo sé. Minn réttur til þess að taka til máls er hér með úti, og mun ég þá ekki svara honum, nema ef ég þarf, eins og kallað er. að bera af mér sakir.