07.04.1938
Efri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 615 í B-deild Alþingistíðinda. (777)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Bernharð Stefánsson:

Eins og fram kom við 2. umr. þessa máls hér í hv. deild og sömuleiðis er getið í nál. fjhn., þá taldi ég eins rétt að tímabinda þessi lög um ákveðið árabil, hliðstætt því sem gert er um ýmsar álögur til ríkissjóðs. Samkv. þessari skoðun minni hefi ég borið fram brtt. þess efnis, að lög þessi skuli gilda til ársloka 1940. Og jafnframt vil ég geta þess, að það hefir orðið samkomulag um það hjá meiri hl. fjhn. að taka aftur brtt. á þskj. 131.

Hv. flm. þessa máls hefir borið það fram sem stuðning við þetta mál sérstaklega, að Vestmannaeyjakaupstaður fengi ekkert úr jöfnunarsjóði bæjar- og sveitarfélaga, sökum þess, hve hátt fasteignamatið væri þar, það er því ekki rétt, sem hv. 1. þm. N.-M. sagði í ræðu, að ég hefði borið þetta fram sem ástæðu fyrir frv., heldur gat ég aðeins um, að þessi ástæða væri nefnd.

Samkvæmt því, sem ég nú hefi sagt, vil ég því reyna að láta lög þessi gilda aðeins til ársloka 1940. Ég var fyrst að hugsa um að bera fram brtt. um að láta þau gilda til ársloka 1941, en við nánari athugun fannst mér það of langt, en hinsvegar kostar lítið að framlengja lögin eftir 2 ár, ef þess gerist þörf.