25.04.1938
Neðri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 619 í B-deild Alþingistíðinda. (790)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Ég vil aðeins geta þess, að ef það hefir verið réttmætt að láta Vestmannaeyjar hafa þessa aðstöðu áður, þá er hið sama réttmæti enn fyrir hendi, þar sem það hefir komið í ljós, að við úthlutun úr jöfnunarsjóði hafa Vestmannaeyjar ekki fengið neitt sem teljandi sé. Þar sem þingið hefir gengið inn á þessa leið áður gagnvart Vestmannaeyjum, að leyfa þeim að afla tekna með þessu móti, þá sé ég ekki annað en nákvæmlega sömu skilyrði séu þar fyrir hendi og áður.

Þar sem hv. 5. landsk. sagði, að þetta væri aðeins leið til að létta sköttum af efnamönnum í Vestmannaeyjum, sem þeir ættu að greiða til bæjarfélagsins, en það væri réttara að taka þetta af áfengissölu í Vestmannaeyjum, þá vil ég benda honum á, að með því móti er hann líka að létta sköttum af efnamönnum í Vestmannaeyjum og lætur þá ekki standa undir því, heldur er þá verið að taka skatt, sem ríkið hefir rétt á að taka til sinnar starfsemi. En með því að halda þessu vörugjaldi, þá eru það allir borgarar í Vestmannaeyjum, sem standa undir því, og þar með er ekki tekin tekjuöflunarleið, sem ríkið hefir annars áskilið sér rétt til að hafa til þess að standa undir sínum útgjöldum. Ég tel því, að það væri síður en svo réttmætari leið að fara að létta bæjargjöldum af Vestmannaeyjum með því að láta þá hafa tekjustofn, sem ríkið hefir haft. heldur en að leyfa þeim að leggja vörugjald á þær vörur, sem þeir nota sjálfir.

Viðvíkjandi því, sem hv. þm. Seyðf. hélt fram, að með þessu móti fengju Vestmannaeyjar sérstöðu fram yfir aðra kaupstaði og þeim væri ekki gert jafn hátt undir höfði, þá er því til að svara, sem jafnan hefir verið fært fram sem aðalástæða, þegar þetta gjald hefir verið samþ. áður, að Vestmannaeyjabær hefir sérstaka aðstöðu, þar sem hann er ekki innflutningshöfn fyrir neina nema íbúa Vestmannaeyja. Þessu er ekki til að dreifa með aðra kaupstaði hér á landi, þar sem þeir hafa verzlun við héruðin umhverfis sig, svo að þeim væri þá leyft að skattleggja ekki aðeins sina eigin borgara, heldur líka önnur héruð eða sveitarfélög. Þessu er ekki til að dreifa um Vestmannaeyjar, því að þær flytja svo að segja ekkert inn nema það, sem borgarar þeirra neyta sjálfir. Þetta hygg ég, að séu aðalrökin fyrir því, að þetta gjald hefir verið leyft í Vestmannaeyjum, en öðrum kaupstöðum hefir verið neitað um það. Þessi rök eru enn í fullu gildi þrátt fyrir h um jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga, þar sem sá sjóður hefir enn sem komið er ekki orðið Vestmannaeyjum að neinu liði.