29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

63. mál, vörugjald fyrir Vestmannaeyjakaupstað

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Að það sé ekki nægileg trygging, þótt atvmrh. eigi að samþ., hversu há prósenttala sé tekin með vörugjaldi þar sem það geti viljað svo til, að fyrir þann tíma verði kominn annar atvmrh. heldur en nú er, þá er því til að svara frá minni hendi, að ef það væri kominn annar atvmrh., sem vildi breyta þessu, þá myndi líka vera komin sú skipan á hér á Alþ., að sá ráðh. myndi geta breytt l., ef hann óskaði þess. Ég sé því ekki, að það breyti röksemdafærslunni í þessu efni. Og þar sem það liggur fyrir, að bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum hefir aldrei farið fram á samþykki fyrir meiru en þessu, og aldrei hefir verið innheimt nema sem svaraði 25%, þá sé ég ekki ástæðu til að lækka það niður, eins og farið er fram á með brtt. hv. 5. landsk., og þegar það er líka upplýst, að í Vestmannaeyjum er útsvarsstiginn hærri en í hér um bil öllum öðrum kaupstöðum. Það er líka eftirtektarvert, að einmitt á hæstu tekjunum er útsvarsstiginn í Vestmannaeyjum langtum hærri heldur en bæði í Hafnarfjarðarkaupstað og í Rvík. Svo að ég taki nokkur dæmi, þá er t. d. á 6000 kr. nettótekjur lagt í Rvík 710 kr., í Hafnarfirði 470 kr., en í Vestmannaeyjum 880 kr. Og ef farið er upp í 14000 kr., þá er í Rvík lagt á þær 3180 kr., í Hafnarfirði 2110 kr., en í Vestmannaeyjum 4220 kr., eða helmingi hærra en í Hafnarfirði. Það er því síður en svo, eins og hv. 5. landsk. var að tala um við 1. umr., að þeir, sem hefðu mestar tekjur í Vestmannaeyjum, væru með þessu að létta af sér gjöldum, þar sem það liggur fyrir, að hvergi er gengið lengra í því að leggja útsvör á háar tekjur en einmitt í Vestmannaeyjum. Þess vegna tel ég, að það sé ekki ástæða til annars en láta þessa heimild enn af hendi undir sömu kringumstæðum og verið hefir, því að það er vitað, að kaupstöðunum, eins og þeirra fjárhag er komið, bæði Vestmannaeyja og annara, veitir ekki af að hafa þær tekjur, sem þeir hafa haft, því að það er alltaf verið að bera fram á Alþ. miklar kröfur um nýja og nýja tekjustofna fyrir bæjarfélögin.