18.03.1938
Neðri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Flm. (Gísli Guðmundsson):

Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 95, frá okkur hv. þm. V.-Húnv., er flutt hér í hv. d. samkvæmt ákvörðun Framsfl. og er um skipun n. til að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarinnar og gera till. þar að lútandi. Í þessu frv. er svo ákveðið, að í Sþ. skuli kosin með hlutbundinni kosningu 5 manna n. til að rannsaka hag og rekstur togaraútgerðarinnar, og sú n. skuli, eins og það er orðað í 1. gr. frv., sérstaklega taka til athugunar, hvort hægt muni að gera rekstur togaranna hagkvæmari og ódýrari en nú er, og á hvern hátt unnt sé að koma á öruggan grundvöll útgerð þeirra skipa, sem rekin hafa verið með tapi undanfarin ár. Í frv. er gert ráð fyrir, að þessi n. skili niðurstöðum rannsóknar sinnar og þeim till., sem hún, að niðurstöðunum fengnum, vill gera í þessu máli, til ríkisstj., og ef ríkisstj. þykir ástæða til, að þeim tillögum fengnum, að láta rannsaka einstök atriði nánar en gert hefir verið, þá getur hún falið n. þær framkvæmdir. — Til þess að greiða fyrir störfum n. er henni í frv. gefin heimild til að heimta skýrslur af þeim, sem helzt hafa yfir upplýsingum að ráða í þessu máli, og henni er heimill aðgangur að bókum og skjölum þeirra útgerðarfyrirtækja, sem þetta mál snertir, og lögð á þau skylda til að veita n. slíkar upplýsingar sem þurfa þykir. Þessi heimild er veitt með þeim fyrirvara, að n. sé bundin almennri þagnarskyldu um þau atriði, sem mega teljast einkamál fyrirtækjanna, en hafa ekki almenna þýðingu fyrir árangur þessarar rannsóknar og fyrir þær till., sem eru tilgangurinn með þessu.

Ástæðurnar fyrir því, að þetta frv. er fram komið, eru að nokkru raktar í grg. frv., og skal ég ekki tala um það efni langt mál. Eins og kunnugt er, hafa frá útgerðarmönnum, og þá einkum togaraútgerðarmönnum, verið uppi óskir um það, að af hálfu ríkisins yrðu gerðar einhverjar ráðstafanir til fjárhagslegrar íhlutunar þess um þessa atvinnugrein. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, hvílíka þýðingu togaraútgerðin hefir haft fyrir þetta land, hve stór þáttur hún hefir verið í atvinnulífi landsmanna og hve hún hefir skapað mikið verðmæti fyrir landið undanfarinn áratug, og hvílíka möguleika hún hefir á ýmsan hátt skapað fyrir landið. Þegar því frá þessari útgerð berast ákveðnar óskir til ríkisvaldsins um að koma henni til aðstoðar fjárhagslega á einhvern hátt, verður ekki hjá því komizt, að taka þær óskir til athugunar, en ekki er það gerlegt fyrir ríkisstjórnina að verða við þeim óskum af handahófi, heldur verður að álítast sjálfsagður undanfari, áður en um slíkt sé að ræða, að ríkið láti fram fara rannsókn á hag útgerðarinnar, sem þing og stjórn getur á allan hátt byggt á, hvað það er, sem sérstaklega veldur því, að togaraútgerðin virðist eiga svo erfitt uppdráttar við þau skilyrði, sem hún nú hefir, og hvaða leiðir eru vænlegastar til að bæta úr þessu ástandi. Þegar ríkið á í hlut, er sjálfsagt að gera. sér samvizkusamlega grein fyrir því, hvort ekki kynnu að vera einhverjar aðrar leiðir, sem fara mætti að einhverju leyti, til að bæta aðstöðuna, önnur en sú, að veita opinberan stuðning. Í þeim tilgangi, að slík vitneskja geti legið fyrir á þann hátt sem eðlilegt er, er frv. þetta flutt.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. Ég hefi rakið efni frv. og ástæðurnar fyrir því í aðalatriðum, og málið að öðru leyti það einfalt, að ég tel ekki þörf á ýtarlegri framsögu fyrir því. Legg ég til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn. og er þá að sjálfsögðu tækifæri til að ræða einstök atriði þess nánar við 2. umr., þegar hv. n. hefir haft það til meðferðar og gert sínar athugasemdir við það.