18.03.1938
Neðri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 634 í B-deild Alþingistíðinda. (846)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Ólafur Thors:

Það er kunnara mál en svo, að þörf sé að fara um það mörgum orðum hér í hv. d., að hagur útgerðarinnar almennt hér á landi stendur höllum fótum og hefir gert það hin síðustu ár. Þar sem þetta frv. fjallar sérstaklega um rannsókn á hag togaraútgerðarinnar, þykir mér ástæða til að vekja athygli á því, að fyrir hv. ríkisstjórn og ýmsum öðrum hafa legið skýrslur frá útvegsmönnum, sem bera með sér, hvernig rekstur togara hefir gengið hin síðustu ár. Sést þar, að tap meðal togara árið 1936 hefir numið um 70 þús. kr. og 1937 um 50 þús. kr. Slík afkoma, ofan á slæman efnahag, sem fyrir var orðinn, leiðir ekki til neins annars en gjaldþrots og almenns hruns. Af þeim ástæðum hafa útvegsmenn beint þeim óskum til löggjafarvaldsins, að löggjafinn slakaði eitthvað til á þeim þungu gjöldum, sem hann hefir lagt á útveginn og stöðugt þyngjast ár frá ári nú síðari ár. Vil ég í því sambandi, út af orðalagi grg. þessa frv., þar sem segir, að málaleitanir útvegsmanna hafi sérstaklega verið rökstuddar með því, að togaraútgerðin geti ekki horið sig af eigin rammleik, geta þess og leggja áherzlu á, að það er almenn skoðun togaraútgerðarmanna og annara útvegsmanna, að það sé mjög hægur leikur að láta útveginn bera sig, ef ríkisvaldið tæki hann ekki þeim tökum, sem það hefir gert undanfarin ár. Það er eitt fyrir sig, að allur gjaldeyrir er tekinn af útveginum og útveginum skammtað verð fyrir hann, sem ákveðið er af öðru en framboði og eftirspurn. Hv. flm. munu vita, eins vel og ég, að það er skoðun útvegsmanna, að ef þeir fengju að selja sinn gjaldeyri á frjálsum markaði, þá myndu þeir bera nóg úr býtum til, að togararnir væru fjárhagslega arðbærir. Væri lögleitt, að útvegurinn fengi að ráðstafa sjálfur sínum gjaldeyri, þá mundi hann fær um að standa undir sjálfum sér af eigin rammleik, þrátt fyrir auknar álögur. Að þetta hefir ekki verið gert, þrátt fyrir þótt þörfin hafi verið viðurkennd, er af því, að menn veigra sér við að ganga inn á þá braut af ýmsum ástæðum, sem of langt yrði hér upp að telja. Það hefir ekki verið reynt að rannsaka, hve brýn þörf útvegsmanna væri til að fá sinn gjaldeyri greiddan fullu verði, eða hve mikið það myndi hjálpa þeim til að rísa undir rekstrinum af eigin rammleik. Nú er þó, að því er hv. frsm. og flm. telur, ástæða til að athuga, hvers vegna útvegsmenn hafa ekki getað staðið undir rekstri útgerðarinnar. Ekki einungis togaraútgerðin, heldur og vélbátaútgerðin verður nú að fá aðstoð Alþ. Sumsstaðar mun vélbátaútgerðin ekki standa sig betur en togaraútgerðin. Það, sem við löggjafarnir þurfum að horfast í augu við, er það, að útvegsmenn hafa lagt fram skýrslu um, að, að óbreyttum kringumstæðum og núverandi verðgildi gjaldmiðilsins, muni þeir ekki geta staðizt reksturinn lengur, verði áframhaldandi sama hlutfall milli tilkostnaðar og afraksturs. Við verðum að horfast í augu við það, að svo má þetta ekki til ganga til langframa.

Um þær málaleitanir, sem útvegsmenn hafa borið fram til Alþ., er það að segja, að Alþ. og ríkisstj. hafa synjað um að gera nokkrar ráðstafanir til þess að verða við þessum beiðnum. Enda þótt létt hafi verið af tollum á salti, kolum og olíu, þá koma hara nýir skattar í staðinn. Það er því tekið með annari hendinni, sem gefið er með hinni. Það er þess vegna svo, að útgerðarmenn hafa enn á ný borið fram kvartanir sínar viðvíkjandi skattþunganum og beiðni um, að löggjafinn vilji verða við þeirri augljósu nauðsyn útgerðarinnar, að verða ekki eins þunghentur eins og verið hefir á útgerðinni. Nú má segja, að fyrir þessu liggi nokkuð óyggjandi sannanir, meðal annars í bréfi til stjórnar S. Í. F. til ríkisstjórnarinnar, sem oft hefir verið minnzt á. Þar lýsir stjórn S. Í. F. þeirri skoðun sinni, að ekkert blasi við útflutningnum annað en fyrirsjáanlegt hrun, nema veruleg gangskör sé gerð að því að leiðrétta hlutfallið milli tilkostnaðar og afraksturs. Ég tel því þetta mál liggja skýrt fyrir. Hitt er annað mál, að það er a. m. k. mjög eðlilegt, að þeir hv. þm., sem telja sig ekki geta tekið jafnmikið mark á skýrslu útgerðarmanna eins og ég, vilji, að framkvæmd verði rannsókn á hag útgerðarinnar af þeim mönnum, sem þeir treysta, áður en þeir taka þá ákvörðun að veita útgerðinni þennan skattlétti. Mér finnst þetta eðlileg afstaða, þó að ég ekki telji mig þurfa neinar nýjar sannanir í málinu, áður en ég tek ákvörðun. Ég segi þess vegna, að ég mun fylgja þessu máli. Og ég get upplýst það, sem mönnum mun ekki þykja óeðlilegt, að ég hefi leitað álits útgerðarmanna um málið, og ég held, að ég megi fullyrða, að álit þeirra sé á sama veg. Sannast að segja virðist mér sú skoðun koma fram hjá útvegsmönnum í sambandi við umr. mínar við þá, sem við höfum tjáð bæði sáttasemjara ríkisins,sáttanefndinni, stjórnarvöldunum og bæjarstjórn Reykjavíkur, að við getum ekki haldið áfram nema við fáum ívilnanir frá bæ og ríki. Og við höfum ákveðið að hreyfa ekki skipin, enda þótt við næðum kaupsamningum, nema þessir aðiljar geri einhverjar tilslakanir. Því að gegn okkar lánardrottnum höfum við enga heimild til að misnota þeirra traust og halda áfram út í voða með útgerðina. Þannig var það okkar skylda að segja betur til, hvar skórinn kreppti. Nú hefir Alþ. kveðið upp með nýjum f. úrskurð um það, að löggjafarvaldið telji svo mikla nauðsyn á því, að útgerðin geti haldið áfram, að nauðsyn beri til að brjóta reglu, sem það að öðru leyti telur sig aðhyllast. nú skilst mér, að útgerðarmenn vilji taka afleiðingunum af þessu. Ég hefi ekki umboð til að segja, að þetta sé félagssamþykkt, en ég hefi talað við marga útgerðarmenn, og þeir hafa látið í ljós þessa skoðun. Þeir telja, að við verðum að virða þennan þingvilja um leið og við játum okkar getuleysi til að halda áfram rekstrinum, ef ríki og bær taka jafnþungum tökum á okkur. En með flutningi þessa frv., sem hér liggur fyrir, þykjast útgerðarmenn sjá hilla undir það, að löggjafinn ætli sér að ívilna þeim. Með þessari rannsókn getur ekki verið önnur meining en sú, að ef rannsóknin leiði það í ljós að útgerðin standi sig, eins og af er látið, þá ætli löggjafinn að verða við beiðni útgerðarmanna að einhverju eða öllu leyti. Mér sýnist þess vegna afstaða útvegsmanna eðlileg. Þeir segja sem svo: Við fögnum framkomu þessa frv., af því að með flutningi þess sjáum við hilla undir uppfylling þarfa okkar.

Ég vil svo aðeins að lokum benda á tvö atriði í sambandi við þetta mál. Það er annarsvegar það, hvort ekki þætti rétt að láta fara fram rannsókn á annari útgerð en togaraútgerðinni, þ. e. a. s., ég er að bera fram ósk um, að einnig yrði tekið til athugunar, hvort önnur útgerð þyrfti ekki ívilnana víð. Það er ekki rétt með farið, að þessar óskir og kveinstafir, sem Alþ. hafa borizt, séu eingöngu frá stærri útgerðinni. Þar eru einnig bornar fram ýmsar umkvartanir fyrir smáútveginn. — Hitt atriðið er það, að mér skilst, að samkv. frv. sé ekki ætlazt til, að rannsókn fari fram hjá öðrum fyrirtækjum en þeim, sem einstaklingar eða félög reka. Með þessu mundi falla undan rannsókn á bæjarútgerðunum. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé af vangá, og vildi mælast til, að flm. sjálfir hlutuðust til um, að þetta yrði leiðrétt. Ég get vel hugsað mér, að heppilegasta lausn þessa máls væri sú, að það færi til n., en fengi þar tafarlausa afgreiðslu, og gæti svo fengið svo hraða afgreiðslu í þinginu sem l. mæla fyrir.