18.03.1938
Neðri deild: 28. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 638 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og hv. þm. N.-Þ. tók fram, þá er þetta frv. flutt að tilhlutan Framsfl. og samkv. flokksamþ. hans. En út af ræðu hv. þm. Ísaf. vildi ég bara segja það, að ég var farinn að verða hræddur um, vegna þess, að hv. þm. G.-K. tók sæmilega í málið, þá ætlaði Alþfl. að verða á móti því, þó að það hafi í raun og veru verið hans áhugamál. En svo heyrði ég, að hv. þm. Ísaf. tók vel í málið, og allir þeir, sem talað hafa, hafa talið sig því fylgjandi. Ég skal taka það skýrt fram, að um þetta mál var hvorki samið við Sjálfstfl. né neina aðra flokka, og hefir ekkert verið um það rætt, hvaða ráðstafanir yrðu gerðar að lokinni rannsókn þessarar nefndar, svo að hv. þm. Ísaf. getur sofið rólega fyrir þeim hlutum.

Það er öllum vitanlegt, að ástand togaraútgerðarinnar er það mesta vandamál, sem nú er uppi með þjóðinni, og þarf ekki langt að vitna til afleiðinganna af því, því að fyrir tveim dögum var hér á Alþ. mál til meðferðar, sem stafaði af því öngþveiti. Annarsvegar standa sjómenn, sem telja sig hafa of lítinn hlut frá útgerðinni og heimta meira, og hinsvegar standa útgerðarmenn, sem halda því fram, að þeir geti ekki einusinni greitt sama kaupgjald og undanfarið, hvað þá heldur meira, og báðir aðiljar kalla beint eða óbeint á aðgerðir Alþ. í þessu máli, og sjá allir, að hér er mikið vandræðamál að skapast, sem þarf nánari athugunar við, áður en hafizt verður handa, því að það gæti verið verr farið en heima setið, að gera ráðstafanir, sem ekki verða að því gagni, sem menn hafa gert sér vonir um. — Það dregur að sjálfsögðu enginn í efa, að togararnir hafi verið reknir með tapi undanfarin ár, en enda þótt sú staðreynd liggi fyrir, þá er það engin sönnun fyrir því, að útgerðin gæti ekki borið sig undir venjulegum kringumstæðum, því að undanfarin ár hafa verið óvenjulegar kringumstæður, þar sem hvorttveggja hefir skeð í senn, að aflaleysi hefir verið og verðiag mjög lágt á afurðum sjávarútvegsins, og ekkert hækkað á þeim, þó að verðlag hafi yfirleitt farið hækkandi og þannig raskazt hlutfallið milli framleiðslukostnaðar og afurðaverðs. Þess vegna álít ég, að þótt þetta liggi fyrir sem staðreynd, þá sé það eitt af hlutverkum nefndarinnar að gera sér grein fyrir því, hvort hin íslenzka togaraútgerð sé líkleg til þess að geta borið sig undir venjulegum skilyrðum, þ. e. a. s. með meðalafla og venjulegu hlutfalli milli verðiags sjávarafurðanna og verðlagsins á þeim vörum, sem hún þarf að kaupa til framleiðslunnar. Þetta álít ég, að ekki liggi fyrir, enda þótt fyrir liggi rekstrarniðurstaða áranna 1936–1937. Ég geri ekki ráð fyrir, að nokkur maður telji, að t. d. búrekstur geti borið sig hjá bónda, sem ekki hefir lamb undan nema annari hvorri á, sem má heita hliðstætt dæmi við aflabrögð undanfarinna ára.

Þá er annað atriði, sem þarf athugunar við af þessari nefnd, og það eru einstakir kostnaðarIiðir útgerðarinnar. Nú eru gerðar kröfur til Alþ. um ívilnanir handa útgerðinni, og hefir sumpart verið orðið við þeim og sumpart ekki. Þegar svo er, þá er ekki nema eðlilegt, eins og hv. frsm. tók fram, að Alþ. eigi þess kost að kynna sér nákvæmlega einstaka kostnaðarliði útgerðarinnar, og hvort þar sé gætt þeirrar ráðdeildar, sem krefjast verður sem skilyrði fyrir því, að útgerðinni séu veitt hlunnindi, frá því sem verið hefir. Það eru náttúrlega margir kostnaðarliðir, sem til greina kæmu, þar á meðal kaupgjaldið, sérstaklega þeirra manna, sem hærra eru launaðir, og hvort ekki gætu komið þar til athugunar önnur ráðningarkjör heldur en verið hefir.

Undanfarin ár hefir verulegur hluti togaranna gengið undir hamarinn, og hefir rekstur þeirra skipa gengið með ýmsu móti. Sum hafa gengið til bæjarfélaga og eru rekin af þeim. Sum hafa lent á hendur sjómanna um tíma og verið rekin af þeim með samvinnusniði. Önnur hafa lent á hendur einstakra manna, og með öllu móti hefir þetta gengið. Mikill hluti af togaraflotanum, sem ekki hefir gengið undir hamarinn, er sennilega þannig stæður, að að því hlýtur að draga, að hann fari þessa sömu leið, og þá er það atriði, sem nefndin verður að athuga, hvaða skipulag muni vera heppilegast á rekstri togaranna í framtíðinni. Ég er þess vegna sammála hv. þm. Ísaf. um, að það er ekki einungis það atriði, sem nefndin þarf að taka til athugunar, hvort tap hafi verið undanfarið á rekstri togaranna, heldur einnig einstakir kostnaðarliðir, og hvort möguleikar séu á rekstri án taps framvegis, miðað við venjulegar kringumstæður, og í þriðja lagi, hvort annað skipulag en það, sem verið hefir, henti betur, og hvaða ráðstafanir eigi að gera til þess að koma útgerðinni í það skipulag, sem nefndin kynni að verða sammála um.

Ég vildi aðeins láta þetta sjást í Þingtíðindunum sem minn skilning á hlutverki nefndarinnar, í tilefni af þeim umr., sem hér hafa farið fram. En ég sé ekki ástæðu til að fara nánar inn á málið við þessa umr., nema þá að sérstakt tilefni gefist til.