28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í B-deild Alþingistíðinda. (864)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Héðinn Valdimarsson:

Ég hafði við fyrri umr. lýst þeirri brtt., sem hér liggur fyrir, en hún er á þá leið, að ætlazt sé til, að rannsóknin komi til yfirstandandi þings. N. hefir ekki látið í ljós neina skoðun viðvíkjandi þessu, en mér virðist öll aðstaða vera þannig, að mikil nauðsyn sé til, að þessi rannsókn geti hafizt sem allra fyrst, en verði ekki látið bíða til næsta þings. Ég held líka, að þetta þing geti gert þær nauðsynlegu ráðstafanir, og við höfum séð þess dæmi, að Alþingi hefir látið fara fram slíka skyndirannsókn í stórmálum, sem mjög hafa snert togaraútgerðina. Nefni ég þar t. d. matið á Íslandsbanka á sinni tíð. Nú þegar hafa fengizt viðvíkjandi togaraútgerðinni margvíslegar skýrslur, bæði sem borizt hafa til alþm. á þessu þingi frá n. S. Í. F. o. fl., og eins á undanförnum þingum hafa slíkar upplýsingar komið fram, svo að ekki ættu að vera miklir erfiðleikar á þessari rannsókn. Fyrst og fremst yrðu þessar skýrslur athugaðar. að hve miklu leyti þær eru réttar, og svo að taka þau viðbótargögn, sem kæmu í þessu efni. Það hafa líka komið fram till. í þessu máli, bæði í fyrra frá Alþfl., og auk þess hefir Sjálfstfl. komið með hinar og aðrar till., svo að úr nægilega miklu er að moða, til þess að þingflokkarnir geti tekið ákvarðanir í þessu máli. Ég sé því ekki ástæðu til að láta þetta mál liggja svo lengi í salti, og vil því eindregið mælast til, að þessi brtt. verði samþ.

Ég hafði hugsað mér að koma með frekari till. um þessa rannsókn, en ég bjóst við, að hv. þm. Ísaf. mundi koma með till. í svipaða átt og frv. Alþfl. í fyrra, svo að ég hefi ekki borið hana fram, og að vísu er frv. þannig, rammi þess svo víður, að hægt er að haga málum á þann hátt, sem ég hefi hugsað mér, svo að það getur verið undir framkvæmdinni komi meira en formi.