25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 662 í B-deild Alþingistíðinda. (885)

69. mál, togaraútgerðarnefnd

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Ég á hér eina mjög litla brtt. við þetta frv., sem gengur í þá átt, að þessi fyrirhugaða n. hafi sér til aðstoðar einn háseta, einn kyndara og einn matsvein, sem starfa á togurum — og Sjómannafélag Reykjavíkur tilnefnir.

Ég ber þessa brtt. fram vegna þess, að sögur hafa gengið um það, að í rekstrarreikningum ýmsra togara væru kostnaðarliðirnir færðir þannig, að ekki næði nokkurri átt. T. d. hefi ég heyrt, að færð hafi verið kolaeyðsla fyrir eina veiðiferð, er var meiri en togarinn gat eytt eða rúm var fyrir í skipinu. Það segir sig sjálft, að framhjá venjulegum skrifstofumönnum, sem ekki hafa sérþekkingu á þessum hlutum, getur ýmislegt svona lagað farið. Þess vegna tel ég nauðsynlegt, að n. hafi sér til aðstoðar menn, sem virkilega hafa sérþekkingu í þessu tilliti.

Ég býst nú við, að þessu verði svarað þannig, að vitanlega mundi n. í öllum greinum leitast við að afla sér upplýsinga hjá mönnum, sem hafa þekkingu á hverju einstöku atriði. En hinsvegar fel ég þetta atriði svo þýðingarmikið, að rétt sé að taka það fram í lögunum. Og þó að þessi brtt. mín yrði ekki samþ., þá gæti hún orðið til þess, að meiri áherzla verði lögð á nákvæma gagnrýni í þessum efnum, og þá hefir hún náð sínum tilgangi.