04.03.1938
Neðri deild: 14. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (902)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

Sigurður Kristjánsson:

Það var aðeins út af því, sem hv. þm. N: Þ. sagði áðan, að það væri ekkert hæft í því, sem hv. þm. G.-K. sagði, að ég vil vitna um annað af þessum atriðum, sem sé það, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefir haft frv. tilbúið til flutnings og viljað koma því á framfæri á þann hátt, að það væri nokkurn veginn tryggt, að það yrði ekki flokksmál og kæmist í gegnum þingið. Einn úr verksmiðjustj. kom til mín fyrir nokkru síðan og skýrði mér frá þessu. Þeir voru þá ekki ráðnir í því, hvort þeir bæðu sjútvn. Nd. eða Ed. að taka að sér flutning málsins, en þeir töldu eðlilegt og sjálfsagt, að sjútvn. tæki að sér flutning málsins. Ég get þess vegna borið um það, að það er hárrétt, sem hv. þm. G.- K. sagði, að stjórnin hafði þetta frv. og ætlaði að fá það flutt á þann hátt, sem hún teldi sigurvænlegast.

Ég skal skýra frá því, að mínar undirtektir voru þannig, að ég taldi sjálfsagt, þegar ákveðið væri að gera dýr mannvirki þarna á Raufarhöfn, svo búast mætti við, að þar tækist mikill útflutningur, að staðurinn fengi sín hafnarlög. Ég skýrði því þessum manni frá því, að það væri engin fyrirstaða á því frá minni hálfu að gerast flm. að frv. um þetta efni ásamt öðrum nm., ef síldarverksmiðjustj. þætti vel til haga, að málið væri flutt í Nd.

En ég hygg, að þó hv. þm. N.- Þ. hafi tekið að sér flutning málsins — og skal ég ekkert blanda mér í deiluna út af því, hvernig það er til komið, eða leggja dóm á það, hvort hann myndi að sjálfsögðu flytja málið, þó hann hafi fengið beiðni um það frá hreppsnefnd, því það er í sjálfu sér engin sönnun — þá hafi það ekki mikla þýðingu fyrir framgang þess, hvort það er sjútvn. eða þm. N.- Þ., sem flytur það. Það standa sem sé þannig sakir, að andstöðuflokkar þess flokks, sem hv. þm. er í, er Sjálfstfl., sem aldrei lætur málefni gjalda þess, hver flytur þau. Málinu er þess vegna engin hætta búin, alveg gagnstætt því, sem er þegar andstöðuflokkar Sjálfstfl. taka afstöðu til mála.