29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (925)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

*Finnur Jónsson:

Það er vitanlegt, að þær framkvæmdir, sem gera hafnargerð á Raufarhöfn nauðsynlega, eru verksmiðjubyggingin, sem í ráði er, að þar rísi. Það er framkvæmd ríkissjóðs og kostar um eina milljón króna. Auk þess er gert ráð fyrir, að ríkissjóður kosti 2/5 af höfninni sjálfur. eftir því, sem fé er veitt til í fjárl. og allt að 180 þús. kr. Allur kostnaður, sem gert er ráð fyrir, að hafnarsjóður Raufarhafnar hafi, er þá 3/5. eða 270 þús. kr. Það er með öðrum orðum gert ráð fyrir því, að kostnaður ríkissjóðs af framkvæmdum þarna á Raufarhöfn verði ein millj. 180 þús. kr., — fyrir utan þá verksmiðju á Raufarhöfn, sem þegar er búið að byggja. En kostnaður Presthólahrepps er einar 270 þús. kr.

Af þessu mega menn sjá, hversu ósanngjarnt það er, ef hreppurinn ætti að fá 3/5 hluta lóðargjalda húsa þeirra, er þarna verða byggð. Og ég vona. að þessar tölur nægi til að sannfæra hv. 2. þm. Reykv. um það, að ekki er sanngjarnt ákveði gagnvart ríkissjóði, sem Ed. setti inn. Þótt að vísu sé sitt hvað, verksmiðjubygging og hafnabygging, þá er það eingöngu vegna verksmiðjubyggingarinnar, sem nokkur hækkun yrði á landi. Ef ekki yrði byggð verksmiðja jafnframt höfninni, yrði engin sérstök verðhækkun.

Í öðru lagi þekki ég ekki í neinum hafnarlögum, annarsstaðar en þar, sem hefir verið gert ráð fyrir mjög liflum rekstri, að heimilt sé hafnarnefnd að taka 1% af afla skipa, sem leggja þar á land. En þar sem gert er ráð fyrir jafnmikilli umsetningu og á Raufarhöfn, hygg ég það gæti orðið freistandi fyrir hafnarnefnd að notfæra sér höfnina sem sérstaka féþúfu fyrir hreppinn, umfram það, sem þörfin krefur. Meiri hl. sjútvn. er á móti því, að hafnarnefnd Raufarhafnar sé leidd í þessa freistingu, og leggjum við því til, að þessi heimild verði felld úr frv. Það eru sannarlega nógar aðrar heimildir og nógu víðtækar fyrir í frv.