29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 672 í B-deild Alþingistíðinda. (926)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

*Jakob Möller:

Ég get fallizt á, að það er verulegur munur á þessum tveimur till., um það að fella niður 2. tölul. og fella niður stafl. í í 3. tölul. 10. gr. frv. Og það, sem ég sagði, á í rauninni alls ekki við síðari till. En ég vil vekja athygli hv. þm. Ísaf. viðvíkjandi fyrri till. á því, að það er alls ekki sambærilegt í þessu sambandi, verksmiðjubygging og hafnargerð. Verksmiðjan er fyrirtæki, sem á að bera sig sjálft, og hún er ekki stofnuð til að verða ríkissjóði baggi. Höfnin reyndar ekki heldur. En spurningin er þá, hvar á að afla höfninni tekna. Verksmiðjan fær sínar tekjur í mismun á afurðaverði og verði á hráefnum. Og verðhækkun á lóðum, sem verður af þessum framkvæmdum hvorum tveggja, verður hrein tekjulind fyrir þá, sem hennar njóta. En hvað hefir ríkissjóður í raun og veru unnið til að fá slíka verðhækkun? Verksmiðjubyggingin kemur því ekki við. Það er hafnarbyggingin ein, sem þar kemur til greina og á að koma til greina, vegna þess að hún á að taka sínar tekjur af atvinnurekstrinum, sem þar er rekinn. Þetta hefir í rauninni engin önnur áhrif en þau, að ef höfnin fær hluta af verðhækkuninni, sem verður af lóðum og löndum, þá tekur hún þeim mun lægri gjöld. En hvað verksmiðjuna snertir, þá er hún sjálfstæð eign, því að þótt hún sé reist af ríkinu, er hún eign atvinnurekstrarins sjálfs. Þessi tvö fyrirtæki og þeirra hagsmuni verður því að aðskilja vel. En með því að létta gjöld fyrir afnot af höfninni er í raun og veru greitt fyrir verksmiðjurekstrinum.

Mér hefir kannske ekki tekizt að gera þetta eins skýrt eins og vera ætti, en ég hygg þó, að það ætti að liggja nokkurn veginn í augum uppi, að um þetta tvennt gegnir ekki alveg sama máli.

Um hinn liðinn, 1% af afla, sem lagður er í land, gegnir öðru máli. En þar er hinsvegar fordæmið frá Siglufirði, og hygg ég, að þetta sé þarna sett inn í frv. með tilliti til þess.