29.04.1938
Neðri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 673 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

40. mál, hafnargerð á Raufarhöfn

*Finnur Jónsson:

Ég geri mig ánægðan með það, að hv. 2. þm. Reykv. getur fallizt á seinni hluta þessarar brtt. Og það, sem hann sagði í lok sinnar ræðu, gefur mér tilefni til þess að skýra það, að þetta er ekki sambærilegt og óviðkomandi samþykkt, sem gerð var með breyt. á síldarverksmiðjulögunum á síðasta þingi, á þá leið, að síldarverksmiðja ríkisins greiði í sveitarsjóð 1/2% af söluandvirði ársins og Presthólahreppur fær sitt 1/2% gegnum þau lög. Siglufjarðarkaupstaður hefir þannig enga slíka heimild í sínum hafnarlögum sem þessa, og það væri því óviðfelldið að veita Presthólahreppi þessi sérstöku hlunnindi.

Viðvíkjandi verðhækkuninni skal ég viðurkenna það, að Presthólahreppur ætti rétt á að fá verðhækkun á landi í hlutfalli við framlag sitt til hafnarinnar, á móts við framlag ríkisins til hennar, að viðbættum stofnkostnaði verksmiðjunnar; því að þótt hreppurinn byggi þarna höfn, þá yrði vitanlega engin verðhækkun á lóðum, ef ekki væri jafnframt byggð verksmiðja. Aftur á móti getur vel orðið verðhækkun á lóðum á Raufarhöfn við það, að byggð væri 4 þús. mála síldarverksmiðja, enda þótt ekki væri byggð nein höfn. Ef til vill yrði hún ekki eins mikil, og ég get til samkomulags fallizt á, að Presthólahreppur fengi einhvern vissan hluta af verðhækkuninni, með tilliti til þess, hversu mikið hann legði fram í samanlagðan kostnað hafnar- og verksmiðjubyggingarinnar. En ég get ekki fallizt á, að það sé eins mikið og frv. fer fram á.

Ég skal svo taka það fram, að ég var 2. flm. þessa frv., og ég sætti mig betur við það, að frv. verði afgr. eins og meiri hl. sjútvn. hefir lagt til, og eins og það var í upphafi, heldur en með þeim breyt., sem hv. Ed. hefir á því gert, og ég álit, að hafnarsjóði Raufarhafnar sé nægjanlega séð fyrir tekjustofnum með frv. eins og það var í upphafi.