01.04.1938
Neðri deild: 37. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 675 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

86. mál, mór og móvörur

*Frsm. (Pétur Ottesen):

Landbn. hefir í grg. fyrir frv. þessu gert grein fyrir, hvernig það er til komið, að hún hefir orðið til að flytja það. Ástæðan til þess er sú, að Sigurjón Pétursson, verksmiðjueigandi á Álafossi, kom til n. og lýsti því fyrir henni, að hann myndi hafa aðstöðu til að geta gert íslenzkan mó verðmætan til útflutnings með því að vinna úr honum vöru, sem sérstaklega myndi verða seljanleg og notuð á erlendum markaði til einangrunar í sambandi við húsabyggingar, auk þess sem hann væri að láta framkvæma athuganir á því, að vinna önnur efni úr mónum, sem líkleg væru til þess, að hægt væri að ryðja þeim braut á erlendum markaði.

N. leit svo á, að hér væri um að ræða mál, sem fullkomlega væri þess vert, að því væri gaumur gefinn, ef hægt væri að hagnýta með nýjum hætti það mikla magn af mó, sem til er í ísl. jörð, eins og kunnugt er, og það því fremur, sem athuganir þessar beinast að því að gera móinn að útflutningshæfri vöru. N. þótti því til hlýða og var sammála um að verða við tilmælum herra Sigurjóns Péturssonar um, að honum yrði veitt einkaleyfi til útflutnings um ákveðið árabil. Í bréfi, er hann skrifaði n., fór hann fram á, að leyfistíminn væri bundinn við 13 ár, en n. dró dálítið úr því og hefir lagt til, að leyfið væri bundið við 10 ára tíma. Að öðru leyti er frv. þetta sniðið á sama hátt og flest önnur frv. og lög, sem sambærileg eru, um einkaleyfi til útflutnings til einstakra manna eða félaga, en í flestum þeim l. eru leyfin veitt til ákveðins tíma, án frekari reglugerðar og án þess að frekari rannsókn sé látin fram fara á möguleikum þessara einstaklinga eða félaga á að geta komið þeim fyrirætlunum í framkvæmd, sem um er að ræða. Eins og frv. þetta liggur fyrir, er brugðið út af þessari venju með því að veita ráðh. heimild til að veita einkaleyfið. Ástæðan fyrir því er sú, að Sigurjón Pétursson var ekki við því búinn, þegar hann hóf þessa málaleitun, að gefa allar þær upplýsingar, sem n. áleit, að ættu að vera fyrir hendi, þegar um er að ræða að ákveða, að slíkt einkaleyfi sé veitt. því leggur n. til, að landbrh. verði veitt heimild til að veita þetta einkaleyfi, þegar umsækjandinn getur, að dómi ráðh., sýnt fram á, að hann geti hafizt handa um þessar framkvæmdir og fært líkur fyrir, að hægt sé að ryðja þessari vöru braut á erlendum markaði.

Það er jafnan sjálfsagt að styðja lofsverða viðleitni einstakra manna og félaga til að ryðja vörum braut á erlendum markaði, sem hægt er að framleiða hér, en það er líka sjálfsagt, þegar um einkaleyfi er að ræða, að lögð séu fram skilríki fyrir því, að skilyrði séu fyrir hendi um, að líkur séu á að hægt sé að koma þessu í framkvæmd. Þegar slík leyfi eru bundin við einstaka menn eða félög, má ekki gera það út í bláinn, heldur verða þeir aðiljar að sýna fram á, að þeir séu þess umkomnir að koma þessu í framkvæmd, því að það er jafnframt verið að taka fram fyrir hendur annara í þessum efnum á því árabili, sem einkaleyfið hljóðar upp á. Með tilliti til þessa hefir landbn. valið þessa leið. Þarf ég svo ekki að fara um frv. fleiri orðum. Landbn. er sammála um, að þessa viðleitni beri að styðja, og væntir, að það megi verða til góðs, að að þessu máli sé hlynnt.

Vil ég svo óska eftir fyrir hönd landbn., að frv. fái góðar undirtektir og greiðan framgang.