31.03.1938
Neðri deild: 37. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

86. mál, mór og móvörur

*Frsm. (Pétur Ottesen):

Það er alveg rétt, sem hv. þm. N.-Þ. sagði, að vandlega verði að afgreiða slík mál í d. og gæta varúðar við því, að ekki geti risið neinn ágreiningur um það, að þeim einkaleyfislögum, sem samþ. eru, sé þannig fyrirkomið, að glöggt sé skilgreint, hvað við er átt. Það verður að gæta þess, að enginn ágreiningur risi milli einkaleyfishafanna og að þeir geti ekki gert kröfu eða tilkall til að fara hver inn á annars svíð. Þetta fyrirkomulag hefir verið athugað af landbn., og hún hefir lagt til, að það einkaleyfi yrði veitt, sem hér um ræðir. Hún álítur, að það sé svo fráskilið öllum einkaleyfisveitingum, sem áður hafa verið samþ. l. um, að ekki geti risið neinn ágreiningur út af þessu. Þetta er tryggt í l. um sérleyfi til útflutnings á vikri og sérleyfi til útflutnings á hrafntinnu, svo að ég nefni helztu sérleyfisveitingar. Þá getur það ekki með neinu móti blandazt saman við það, sem um er að ræða í þessu frv., en við slíku ber náttúrlega að sjá, þegar um sérleyfi er að ræða, sem nú er farið að veita töluvert af. Ég sé, að nú á þessum fundi hefir verið útbýtt frv. frá hv. þm. Eyf. um að veita Kaupfél. Eyfirðinga sérleyfi til að vinna þilborð, byggingarpappa og „cellulose“ úr íslenzkum jarðvegsefnum til notkunar hér á landi. Ef þetta mætti verða, þá er vitaskuld hægt að spara innflutning á slíkum einangrunarefnum til húsabyggingar frá útlöndum, en til þeirra verður að flytja mikið efni til landsins, eins og nú standa sakir. Þetta frv. hefir legið fyrir landbn., og hún hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að þær vörur, sem hægt væri að vinna úr mó, myndu sérstaklega vera efni til einangrunar við húsagerð, auk þess sem sérleyfið tekur fram. Ég geri ráð fyrir, að það væri hægt að vinna fleiri efni úr mó, sem e. t. v. mætti fá markað fyrir erlendis. En einkum, af því að okkur þótti þetta ekki liggja nógu ljóst fyrir, var ekki tekin fullnaðarákvörðun um þetta í n. Það var ekki við því að búast, að ég hefði þær upplýsingar við hendina, sem við töldum nauðsynlegar, en hann bjóst við að fá þær bráðlega, svo að hægt væri að hefjast handa um framkvæmdir á þessu ári. N. hefir haft þessa tilhögun á frv., að fela landbrh. að velta sérleyfið, að fengnum þeim upplýsingum, er teljast nauðsynlegar til að fullnægja ákvörðunum um skilyrði fyrir því, að Alþ. veiti slík sérleyfi. Það er náttúrlega miklu meira virði, ef hægt væri að gera þessa vöru útflutningshæfa, en aðstaðan til þess er erfið, þar eð slík efni eru víða til í þeim löndum, sem við yrðum að keppa við. Hér á Norðurlöndum er víða mikill mór í jörðu. Með tilliti til þess, að við Íslendingar yrðum að verzla með þessa vöru í samkeppni við samskonar framleiðslu frá öðrum þjóðum, hefir n. ekki séð sér fært að leggja til, að neinn sérstakur skattur yrði lagður á þessa vöru, eins og sumir sérleyfishafar hafa þurft að greiða. En þar hefir verið um vörur að ræða, sem tiltölulega litið hefir þurft að vinna við hér á landi, og auk þess hefir eigi þurft að keppa við sambærilegar vörutegundir í þeim löndum, þar sem þurfti að afla markaða fyrir framleiðsluna og helzt var gert ráð fyrir, að hún yrði seljanleg.

Þar sem hv. þm. N.-Þ. minntist á, að þar sem hér væri um iðnað að ræða, hefði verið réttara að visa málinu til iðnn. en til landbn., þá vil ég segja það, að það hefir verið venja hér á Alþ. að vísa þeim málum, sem flutt hafa verið af n., til hinna sömu n., því að þau heyra undir starfsvið þeirra. Það má vel vera, að iðnn. sé þannig mönnum skipuð, að innan hennar sé um meiri fagþekkingu á iðnaði að ræða en innan landbn. En ég er þess fullviss, að ef þeir menn í iðnn., sem hafa slíka sérþekkingu til að bera, sjá einhver vandkvæði eða missmíði á þessu frv. út frá því sjónarmiði, þá muni þeir vilja benda landbn. á það. Auk þess munu þeir, sem eiga sæti í landbn., vera viðbúnir að tala við iðnn. um þau atriði í þessu máli. Þess vegna virðist mér engin ástæða til að fara nú að vísa þessu máli til iðnn. En hinsvegar skal ég sjá um, að það verði rætt við þá menn í iðnn., sem hafa sérþekkingu á því sviði, sem snertir vinnslu þessara efna, sem hér er um að ræða.