31.03.1938
Neðri deild: 37. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 678 í B-deild Alþingistíðinda. (938)

86. mál, mór og móvörur

*Gísli Guðmundsson:

Ég fyrir mitt leyti legg enga höfuðáherzlu á það, að þessu máli verði vísað til iðnn. Hv. frsm. landbn. hefir lýst því yfir að landb. sé reiðubúin að eiga tal við iðnn. um málið. Tel ég því ekki ástæðu til frekari aðgerða í þessu efni. Ég skal ekki bæta miklu við það, sem ég sagði hér áðan, en aðeins geta þess, að þar sem hv. þm. Borgf. minntist á frv., sem hv. þm. Eyf. flytja í Ed. um einkaleyfi handa Kaupfélagi Eyfirðinga til að vinna þilborð, byggingarpappa og „cellulose“ úr íslenzkum jarðvegsefnum, er rétt að benda á það, að þessi frv. gætu farið nokkuð hvert inn á annars svið. Þar er talað um að vinna þilborð, byggingarpappa og „cellulose“ úr íslenzkum jarðvegsefnum, og þar getur vitanlega verið um ýms efni að ræða. Hinsvegar er hér engin skilgreining á því, hvaða efni má vinna úr mó samkvæmt leyfinu, og ég er ekki svo fróður í þeim sökum, að ég kunni skil á því, hvort það kynni að vera eitthvað af þeim, sem mætti vinna úr mó. Ég býst við, að fleiri hér í d. séu ekki heldur sérlega fróðir um þetta. Það er því alveg rétt, sem hv. þm. Borgf. minntist á, að nokkur hætta gæti verið á því, að þau tvö frv., sem fram eru komin hér á þinginu, geti rekizt á. Ég vænti þess, að þetta verði vel athugað, og get verið ánægður með það, að landbn. ætlar að ræða við iðnn. um þetta mál, því að hún hefir einkum haft slík mál til meðferðar.