08.03.1938
Efri deild: 17. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 685 í B-deild Alþingistíðinda. (976)

46. mál, samvinnufélög

Flm. (Einar Árnason):

Í gildandi samvinnulögum er svo ákveðið, að þegar á að kjósa fulltrúa í samvinnufélagi á sambandsfundi, skuli fulltrúalalan eingöngu miðuð við tölu félagsmanna. Þetta litla frv., sem ég flyt hér, gerir þá breyting á þessu ákvæði, að heimilt skuli að miða töluna einnig við viðskiptin, sem samvinnufélagið hefir haft við Sambandið á næstliðnu ári.

Það hefir komið í ljós, jafnvel frekast síðan afnumið var, að hver maður, sem inn gekk, yrði að gangast undir sameiginlega ábyrgð á skuldbindingum félagsmanna. að mjög hefir fjölgað í einstökum félögum og þau þar af leiðandi fengið stóraukinn rétt til meiri ráða en áður um stjórn SÍS, án þess þó að viðskiptin hafi aukizt neitt verulega, hvað þá svo sem samsvara mundi fjölguninni.

Stjórn Sambandsins hefir því álitið rétt að gera þessa breyting, sem hér er farið fram á. Það er í sjálfu sér ákaflega eðlilegt að viðurkenna það og taka tillit til þess í samvinnulöggjöf, að sterkustu stoðir Sambandsins eru félögin, sem hafa mest viðskiptin við það, og beztu stoðir hvers félags eru þær deildir þess, sem beina öllum viðskiptum félagsmanna sinna til sins eigin félags. — Í frv. er einnig gert ráð fyrir því, að þau samvinnufélög. sem skipt eru í deildir, fái rétt til að ákveða á sama hátt, að fulltrúatala hverrar deildar skuli miðuð að einhverju leyti við heildarvöruskipti hennar við félagið.

Það virðist eðlilegt, að þetta tvennt fari saman, heimild til að ákveða þannig fulltrúatölu fyrir félögin og fyrir deildirnar. Annars staðar á Norðurlöndum hefir þessi regla verið tekin upp í samvinnufélögunam. — Ég geri ekki ráð fyrir, að mikill ágreininur verði um þetta. Þess vegna ætla ég ekki að ræða málið meir að svo komnu, en legg til, að því verði að lokinni umræðu vísað til 2. umr. og allshn.