08.03.1938
Efri deild: 17. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (978)

46. mál, samvinnufélög

Flm. (Einar Árnason):

Mér finnst kenna nokkurs misskilnings hjá hv. 1. landsk. í þessu máli. Mér finnst ekki vera um þau tvö viðhorf að ræða, sem hann nefndi, — um félög, sem væru í Sambandinu „próforma“, og önnur félög. Um það, hvort frv. brjóti í bág við lýðræði, skal ég ekki deila. Við lítum kannske ekki sömu augum á lýðræðið, enda heyrir það mál ekki undir þetta.

Ég neita því að slíkar breytingar á fulltrúakjöri geri nokkurt félag áhrifalaust um stjórn Sambandsins. Mér skilst hv. 1. landsk. hugsa sér, að sum félög fái þá kannske enga fulltrúa á sambandsfund. Það er mesti misskilningur. Því að í frv. er skýrt tekið fram, að alltaf skuli taka tillit til tölu félagsmanna og viðskipta félagsins, en ekki til annars eingöngu.

Eg held, að það sé líka alveg óhætt að treysta því, að þetta sé ekkert gerræði, sem hér á að leyfa, þegar nágrannaþjóðir okkar, sem að sjálfsögðu verða að skoðast lengra komnar en við í samvinnu, hafa allar vikið frá þeirri reglu að binda fulltrúatöluna eingöngu við félagsmannatölu. Í Danmörku má t. d. hver sambandsdeild senda einn fulltrúa á sambandsfund, alveg sama hvort félagið er stórt eða lítið, nema í Kaupmannahöfn. Félagsdeildin þar sendir 15 fulltrúa. Það kemur aðeins af því, að þar voru einu sinni 15 smáfélög eða deildir, en sameinuðust. Danir reikna fulltrúatöluna ekki nákvæmar en þetta. — Á Englandi sendir hvert félag einn fulltrúa, hvort sem það er stórt eða litið, siðan annan fulltrúa fyrir fyrstu 10 þús. £, sem það kaupir fyrir árlega í Sambandinn, og eftir það einn fulltrúa fyrir hver 20 þús. £, sem það kaupir fyrir. Í Noregi sendir líka hvert félag einn fulltrúa og viðbótarfulltrúa miðað við viðskiptamagn, t. d. einn fyrir 20 þús. kr., tvo fyrir 100 þús. kr. og siðan einn fyrir hverjar 100 þús. þaðan af. Í Svíþjóð er það dálitið ólíkt. Þar mega félögin fyrst senda einn fulltrúa og síðan einn viðbótarfulltrúa fyrir hverja 500 félagsmenn; en þó er það skilyrði, að félagið hafi keypt fyrir 200 þús. kr. hjá Sambandi sínu fyrir hvern fulltrúa, sem það sendir fram yfir einn á sambandsfund.

Ég skal ekkert um það deila, hvort hv. 1. landsk. finnst þetta vera lýðræði hjá nágrannaþjóðum okkar. En ég held, að okkur sé alveg eins gott að fara eftir reynslu þeirra, þó að eitthvert nýstofnað kaupfélag hér áliti það ekki lýðræði. Ég veit ekki, hvers vegna Kaupfélag Reykjavíkur og nágrennis ætti að óttast þetta, því að í því eru margir félagar og mikil viðskipti við Sambandið. Ég skal heldur ekkert um það segja, hvort fulltrúar þess verða fleiri eða færri eftir breytinguna en áður; það veit hvorugur okkar. Það er ekki farið að setja neinar reglur um þetta; það er á valdi sambandsfundar.

— Annars hirði ég ekki um að lengja hér umræður.