02.05.1938
Sameinað þing: 23. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (98)

1. mál, fjárlög 1939

Thor Thors:

Herra forseti, góðir áheyrendur! Við þessar eldhúsumr. þykir mér hlýða að minnast í upphafi máls míns hinnar virðulegu stofnunar, sem vér skipum og nefnum Alþingi Íslendinga. Því miður verðum vér að játa, að þeim röddum fjölgar óðum í okkar þjóðfélagi, sem láta í ljós óánægju sína í garð Alþ. og þverrandi virðingu fyrir því. Þetta á ekki rót sína að rekja til þess, að Íslendingar vilji Alþ. feigt, heldur til hins, að þeim gremst, að skuggar falli á þá stofnun, sem frá fornu hefir stafað slíkur ljómi af. En því verður ekki neitað, að hryggð og virðingarleysi þjóðarinnar er eigi að ófyrirsynju. Erfitt mun að þræta fyrir það, að virðing manna fyrir Alþ. hefir mjög þorrið í valdatið núv. háttv. stjórnarflokka. Á Alþ. 1934 beittu þessir flokkar valdi sínu til takmarkalausrar kúgunar á stjórnarandstæðingum. Öll þeirra mál og allar þeirra till. voru felldar og fyrirlitnar, enda þótt stjórnarandstæðingar hefðu þá meiri hluta þjóðarinnar á bak við sig. Síðan var níðzt á þeim kjördæmum, sem kosið höfðu þessa menn á þing, og þau svipt framlögum til verklegra framkvæmda til þess að reyna að svelta fólkið til hlýðni við stjórnarflokkana. Slíkt er ekki til þess fallið að auka virðingu fyrir Alþ. Síðan .hefir orðið nokkur breyt. á þessari stefnu, enda munu forráðamenn stjórnarflokkanna hafa öðlazt skilning á því, að þetta herbragð var vanhugsað og byggt á vanþekkingu á eðli Íslendinga. Þeir láta sízt kúgast. En einkenni þinganna á síðustu árum hafa ýmist verið áníðsla á þjóðinni eða þá aðgerðarleysi og skilningsleysi á þörfum atvinnulífsins, sem ég síðar mun minnast á. Það hafa liðið vikur, jafnvel meira en mánuður af sjálfum þingtímanum, sem þingið hefir verið gersamlega óstarfhæft, af því að beðið hefir verið eftir ákvörðun samkomu, sem haldin hefir verið hér í bænum og nefnd hefir verið þing Alþýðusambands Íslands. Slíkt er ekki til þess fallið að auka virðingu fyrir Alþingi Íslendinga. En að þessu hafa verið svo mikil brögð, að sumum hefir flogið í hug, að rétt væri að lögfesta samkomudag Alþ. eins og mánuði eftir að þingi sósíalistanna lýkur. Þjóðin mun þó eigi una því til lengdar, að Alþ. sé rekið sem útibú frá klíkufundi sósialista.

Þetta þing, sem nú situr, verður sízt til þess að auka veg Alþ. Veldur þar um fyrst og fremst, hversu hraksmánarlega þingið var undirbúið af hálfu ríkisstj., sem ber skylda til að sjá Alþ. fyrir verkefnum. Hvað lagði ríkisstj. fyrir þetta þing? Stjfrv., sem lögð voru fram í þingbyrjun, voru samtals 5, og voru þau þessi:

Frv. til fjárlaga fyrir árið 1939. Það er beint fyrir mælt í stjórnarskránni, að skylt sé að leggja fjárlfrv. fyrir þingið, svo að hjá því varð ekki komizt. En fjárlfrv. var að mestu endurprentun af fjárl. þeim, sem Alþ. hafði afgreitt tæpum 2 mánuðum áður. En frá upphaflegri áætlun sinni á rekstrarútgjöldum fjárl. fyrir 1938 hafði fjmrh. hækkað útgjöld þessara fjárl. um 11/2 millj. eða úr 15,8 millj. (15826000) upp í 17,3 millj. (17354700).

Annað frv. hæstv. ríkisstj. var framlenging á verðtollinum og bráðabirgðaverðtollinum. Þriðja frv. var um bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs, þ. e. a. s. hækkun tekju- og eignarskatts. Lækkun verðtolls á nær öllum vörum um 40–50%, tvöföldun benzínskattsins og loks 12% hækkun ofan á allar drápsklyfjar undanfarinna ára, á nær alla skatta, tolla og öll önnur gjöld til ríkisins.

Fjórða frv. var um bráðabirgðabreyt. nokkurra laga. — Það er eftirtektarvert, að öll þessi tekjuöflunarfrv. hæstv. ríkisstj. eiga að heita „til bráðabirgða“. En þessi bráðabirgðaráðstöfun vill verða nokkuð langvinn og verður vissulega jafngömul valdaferli ennverandi stjórnarflokka. En þetta frv. miðaði að því að fresta framkvæmd nokkurra nytsamlegra laga, svo sem framlögum ríkisins til ræktunarsjóðs, til búfjárræktar til sýsluvegasjóðs og til byggingar verkamannabústaða.

Fimmta frv. hæstv. ríkisstj. var um að innheimta ýms gjöld 1939 með 10–25% viðauka. Flestum fannst nóg komið með þeim skattafrv., sem ég þegar hefi getið, en svo var þó eigi. Hæstv. ríkisstj. þurfti, samkv. frv. þessu, enn á ný heimild til að auka eignarskattinn um 10%, og aðflutningsgjöldin, þ. á. m. verðtollinn, um 25%.

Þetta voru þá þau frv., sem hæstv. ríkisstj. fékk Alþingi til meðferðar. Samtals 5, og öll í sömu áttina, þyngstu álögur á þjóðina. Grimmilega var hert á hinum beinu sköttum, og af stakri hugkvæmni og með nákvæmni hins smámunalegasta skattheimtumanns var hver biti og hver spjör margtolluð, — en á þessum 5 frv. átti svo Alþ. að lifa. Þetta voru þau verkefni, sem hæstv. ríkisstj. ætlaði hinum 49 alþm., fulltrúum þjóðarinnar, vökumönnum þjóðarinnar o. s. frv., eins og þeir eru kallaðir í hátíðlegu tali. Yfir þessu var þeim ætlað að hanga mánuðum saman, þessum 19 mönnum, sem þjóðin hefir kjörið til að leysa vanda líðandi stundar og vaka yfir velferð hennar. Lítilfjörlegt og ófagurt hlutverk var þeim fengið af hendi hæstv. ríkisstj., en á henni hvílir fyrst og fremst skyldan til að sjá Alþ. fyrir nægum og þjóðhollum verkefnum. Það getur a. m. k. ekki verið skylda stjórnarandstæðinga, einkum þegar þeir eiga að venjast, að þeirra ráð og bendingar eru að jafnaði að engu hafðar. En sökin á þessari lítilsvirðingu fyrir Alþ. hvílir þyngst á forseta ríksstj., hæstv. forsrh. Hæstv. fjmrh. verður að þessu leyti ekki ásakaður. Hann hefir munað eftir sjálfum sér og sinni þörf. Það sýna öll skattafrv. En ekkert frv., engin úrræði komu frá fyrrv. hæstv. atvmrh., Haraldi Guðmundssyni. Hann hefir þó engum vonbrigðum valdið, sennilega vegna þess, að við hann voru engar vonir tengdar. Allir vissu, að hann átti fullt í fangi með að halda lífinu í sjálfum sér og sinni hirð, og það gerði hann, unz hann sárnauðugur, en við lítinn söknuð, var dreginn úr ráðherrastólnum, eins og ég síðar skal víkja að.

Vinnubrögð þessa þings, ef nota má það orð um aðgerðaleysi og svefnmók þess, eru til þess eins að grafa undan þingræðinn og gefa þeim vopn í hendur, sem kynnu að vilja feigt það Alþingi, sem verið hefir og verið gæti þjóðarinnar þarfasta stoð og traustasta vernd. Það verður þegar að breyta hér um stefnu. ríkisstj. verður þegar í þingbyrjun að leggja mál sín vandlega undirbúin fyrir þingið, svo að það megi frá upphafi hefja öflugt starf. Þingin þurfa að verða styttri og skilvísari, þjóðinni til þrifa. Að tjónlausu mætti fækka þingmönnum, og vissulega þarf að hefja skipulegri vinnubrögð á þinginu. En þess vil ég þó geta, að störf Alþ. ber ekkí að meta eftir fjölda þeirra laga, sem það setur, heldur eftir efni þeirra og því, á hvern veg Alþ. býr að þjóðinni, atvinnuvegum hennar og lífskjörum.

Það er talandi tákn um samstarf þeirra flokka, sem þessu Alþ. þykjast stjórna, Framsfl. og flokksbrots hv. þm. Seyðf., að þessa þings verður sennilega aðallega getið vegna tveggja l.

Vegna gerðardómsl., sem leystu togaradeiluna. Þau náðu fram að ganga fyrir tilstilli sjálfstæðismanna, en gegn vilja sósialistanna. Ennfremur vegna þeirrar vinnulöggjafar, sem sennilega verður afgreidd frá þessu þingi. Í því hefir Sjálfstfl. haft alla forystu á undanförnum þingum, sem og í baráttunni utan þings.

Starfsskrá núv. ríkisstj. hefir af hæstv. fors.rh. verið lýst með þeirri einu setningu, að haldið skuli sömu stjórnarstefnu og síðastl. kjörtímabil. Ég hefi nú nokkuð lýst, hvernig sú stefna birtist gagnvart AIþ. Þar á þjóðin því enn von á góðu. Það á að halda áfram að vanrækja og óvirða Alþ. og þingræði. En nú er rétt að athuga lítillega, hver var stjórnarstefnan á síðasta kjörtímabili á sviði þeirra mála, sem mestu skipta velferð og framtíð þjóðarinnar, á sviði fjármála og atvinnumála. Það ætti að vera hv. þingheimi bending þess, sem í vændum er. Lítum fyrst á fjármálin. Hæstv. fjmrh. hefir haft það hlutverk við allar fjármálaumr., að lofsyngja sjálfan sig af alveg einlægri hrifningu. Fagnaðarerindið um afrek þessa unga stjórnmálamanns er síðan flutt af flokksmönnum hans í öllum blöðum þeirra og á öllum mannfundum, og þjóðinni er boðið að líta hann í stækkunargleri skrumauglýsinganna. Ýmsir eru ánægðir með slíkar myndir einar, en réttara mun að láta verkin tala og bera saman orð og efndir flokks hans. Framsfl. hefir löngu heitið þjóðinni því að létta byrðar hennar, taka niður eitthvað af klyfjum skatta og tolla. Hvað hefir nú hæstv. fjmrh. gert í þessu? Ég hefi þegar lýst því lítillega. En í stuttu máli eru afrekin þessi, svo að notaðar séu þær tölur, sem hæstv. fjmrh. hefir sjálfur tíundað við framlagningu skattafrv. sinna. Á fyrsta þinginu, 1931 lagði hann á nýja skatta og tolla, sem áttu að nema á 3. millj. kr. Á þinginu 1935 voru lagðir á skattar og tollar, sem gefa áttu ríkissjóði um 1700 þús. og loks var á þinginu 1937 bætt við nýjum sköttum og tollum að upphæð um 3 millj. kr. Samtals nema því skattar þeir og tollar, sem hæstv. fjmrh. hefir ætlað sér að kreista undan nöglum aðþrengds almennings, um 7 milljónir króna. Það væri því synd að segja, að hæstv. fjármálaráðherra hafi verið stórtækur í því að lækka álögurnar á almenningi. Slíkar fullyrðingar hljóta að skiljast sem háð. Ráðh. hefir einmitt látið skattasvipu sína dynja miskunnarlausar og grimmilegar á bökum alls almennings en nokkur fyrirrennari hans hefir gert. Beinir skattar eru nú orðnir hærri hér á landi en hjá nokkurri menningarþjóð. Þetta varð hæstv. fjmrh. að viðurkenna á síðasta Alþ., er hann sagði, að ríkissjóður gæti ekki náð auknum tekjum með beinum sköttum. En tollar og bein neyzlugjöld hafa einnig verið svo gífurlega hækkuð, að þar sem þau gáfu í ríkissjóð árið 1933 6,á millj. kr., gáfu þau árið 1935 um 8 millj. kr., og var þó innflutningur árið 1935 nær því 7 millj. lægri og útflutningur um 8 millj. kr. lægri en árið 1933. Árið 1937 gáfu þessir tollar ríkissjóði 9.5 millj. Þeir hafa því hækkað á þessum 4 árum í höndum ríkisstj. um ca. 3 millj. eða nærfellt 50%.

Í þessum tölum er þó ekki ágóðinn af einkasölu ríkisins, en ef hann er með tekinn, verður hækkunin frá 1933 um 4.3 millj. (úr 7905000 upp í 12279000). Árið 1933 voru hinar óbeinu álögur 58% af ríkistekjunum, en 1937 68%. Höfðu þó ríkistekjurnar hækkað um 4.5 millj.

Í þessu sambandi er vert að minnast þess, hverju annar stjórnarflokkurinn Alþfl., hafði heitið þjóðinni í kosningabaráttunni 1934 og endranær. Í 15. gr. hinnar frægu 4 ára áætlunar sósíalista stóð þetta: ,— að breyta skatta- og tollalöggjöfinni þannig, að tollum verði létt af nauðsynjum“. Efndirnar á þessu urðu þær, sem ég lýsti áðan. Vissulega varpar þetta skýru ljósi yfir baráttu sósialista og er glöggt dæmi þess, hversu alvarlega sá félagsskapur er takandi.

En skattaánauð hæstv. fjmrh. á sér eins og allt annað sínar orsakir. Að nokkru leyti má rekja þær til hins pólitíska uppeldís hæstv. ráðh. Hann fer rakleiðis í stöðu fjmrh. úr starfi skattheimtumannsins. Hæstv. ráðh. hefir gleymt því, að hann hefir skipt um hlutverk. En sjónarmið skattheimtumanns er honum nú óviðkomandi. Fjmrh. þjóðarinnar ber að hafa útsýn yfir þjóðlífið frá miklu hærri sjónarhól. Hans fyrsta skylda er að skilja afkomuhorfur og getu atvinnulífsins og miða þarfir ríkissjóðs og athafnir sínar við ástæður og óskir atvinnuveganna. En ástæðan til þessarar skattakúgunar liggur þó miklu dýpra. Hæstv. fjmrh. hefir ekki verið sjálfráður. Hann og hans flokkur hafa verið í vondum félagskap. Græðgi sósialista og áfergja þeirra hefir ráðið mestu um hinar stöðugu skattaálögur. Frá þeim stafar ógæfan. Sósíalistarnir eru dýrir í rekstri, og þeir halda áfram að vera það, á meðan nokkur fæst til að gera þá út.

Hæstv. forsh. hefir sagt, að stefna stjórnarinnar eigi að haldast. Á sviði fjármálanna er auðsýnt, að stefnan gerir meira en haldast. Sósíalistarnir munu nú, eftir að óttinn við hv. 3. þm. Reykv. og kommúnista hefir heltekið þá svo, að þeir vita ekki sitt rjúkandi ráð, já vita ekki einu sinni, hvort þeir eru lífs eða liðnir í heimi stjórnmálanna — nú munu þeir, freklegar og trylltar en nokkru sinni áður heimta meira fé, meiri bitlinga og hærra kaupgjald handa sjálfum sér. Eina leiðin til þess, að unnt verði að létta einhverjum byrðum af þjóðinni, er að hætta að gera sósíalistana út, gera þá áhrifalausa og hjálpa þeim að hitta sjálfa sig binum megin við áhrifasvið stjórnmálanna. En allir hugsandi óhlutdrægir menn hljóta að sjá, að ægilegur voði blasir við, þegar svo er komið, að þjóðin þarf að gjalda 25–30 millj. í sköttum og tollum til ríkis og bæjarfélaga, en allur útflutningur hennar nam aðeins um 45 millj. En þjóðin má kvíða því, að áfram verði haldið á brautinni, því að hæstv. forsrh. segir, að stefnan skuli haldast.

Annað atriði, sem hæstv. fjmrh. lofaði þjóðinni og starfsskrá fyrrv. ríkisstj. getur um, er, að færðar skuli niður ónauðsynlegar fjárgreiðslur ríkissjóðs og sparnaðar gætt í rekstri ríkisins og ríkisstofnana. Þetta hefir verið efnt á þann veg, að þar sem rekstrarútgjöld ríkisins voru samkv. LR. 1933 — síðasta árið áður tn núv. ríkisstj. komst til valda — 13.6 millj. kr., urðu þau síðastl. ár um 17.2 millj. H:ekkunin nemur því 3 millj. 600 þús. kr. Þessari stefnu á enn að halda áfram samkv. yfirlýsingu hæstv. forsætisráðh.

Hið þriðja, sem hæstv. fjmrh. lofaði, var að semja fjárl. vandlega og nákvæmlega og fara eftir þeim til hins ýtrasta. Efndirnar hafa orðið þær, að samkv. játningu ráðherrans sjálfs á öndverðu þessu þingi, fóru gjöldin fram úr áætlun 1935 um 16%, 1936 um 101/2% og 1937 um 151/2%, eða um 2 millj. 300 þús. Enda hefir ríkisstj. orðið að fá heimild til að taka 3 millj. kr. lán til að risa undir vitanlegum og umsömdum útgjöldum ríkisins. — Þessari stefnu á að halda áfram, segir hæstv. forsrh.

Þá hefir lengi kveðið við þann sönginn hjá Framsfl., að skuldirnar við útlönd þyrfti að lækka, því að þær væru þrælshald á landið og þjóðina. Þetta hefir verið efnt á þann veg í tíð núv. hæstv. fjmrh., að ríkisskuldirnar hafa hækkað úr 40 millj. í árslok 1933 upp í 46 millj. í árslok 1937, eða um 6 millj. kr. Vextirnir af ríkisskuldum, sem í tíð Jóns heit. Þorlákss. voru komnir niður í 700 þús. kr., eru nú 1700 þús. Þeir hafa því aukizt um 1 millj. Og skuldir þjóðarinnar í heild hafa í tíð núv. fjmrh. hækkað úr 74.6 millj. upp í um 105 millj., eða um 30 millj., samkv. skýrslu skipulagsnefndar atvinnumála. — Þessari stefnu á að halda áfram, segir hæstv. forsrh.

Af engu hefir hæstv. fjmrh. og flokkur hans gumað eins hóflaust og af fengnum verzlunar- og greiðslujöfnuði. Hér er þó ekki af meiru að státa en því, að á 4 árum núv. fjmrh. hefir verzlunarjöfnuðurinn verið hagstæður um samtals 11.2 millj. kr., en á 2 árum samsteypustj. var verzlunarjöfnuðurinn hagstæður um 12.9 millj. Þess má og minnast, að á valdatímum sjálfstæðismanna 1924–1927 var verzlunarjöfnuður hagstæður um samtals 36.3 millj. Enn hefir hæstv. fjmrh. ekki tekizt að ná greiðslujöfnuði við útlönd. Síðastliðið ár var greiðslujöfnuður óhagstæður um 3.3 millj. Fram á síðustu mánuði hefir fjmrh. talið, að hinar „duldu greiðslur“ næmu 6 millj. árlega, þ. e. a. s., að verzlunarjöfnuður þyrfti að vera hagstæður um þá upphæð til þess að greiðslujöfnuður næðist. Þessa vizku segist hæstv. fjmrh. hafa úr sænskum pilti, sem hér dvaldi fyrir nokkrum árum 2–3 mánuði. M.ö.o., ráðh. hefir játað að vita ekkert um þetta sjálfur og hafa enga rannsókn framkvæmt á þessu, en segir bara, að sér hafi verið sagt þetta. En hvílík vandvirkni og ábyrgðartilfinning einmitt á því sviði, sem hæstv. fjmrh. hafði hátíðlegast lofað að koma fram umbótum. Nú um áramótin játar ráðh., að duldu greiðslurnar séu ekki 6 millj., heldur 10 millj., en síðan hefir einn helzti fjármálamaður Framsfl. tekið ráðh. á kné sér og hvíslað að honum, að duldu greiðslurnar séu ekki 6 millj., og ekki heldur 10 millj., heldur nær 14 millj. Af þessu má sjá, hversu illa upplýstur hæstv. fjmrh. hefir verið í þessu langalvarlegasta og örlagaþrungnasta máli, sem í hans verkahring hefir fallið. Afleiðingar þeirrar stj., sem verið hefir á gjaldeyrismálunum á undanförnum árum, eru nú að koma fram á þann alvarlegasta og ískyggilegasta hátt, að hæstv. fjmrh. kemur nú fram fyrir þingið og biður um 12 millj. kr. erlent lán til að afstýra gjaldeyrisþroti þjóðarinnar. Ríkið skortir gjaldeyri til að rísa undir skuldbindingum sínum erlendis og einstaklingana einnig. Ríki og opinberar stofnanir þurfa að greiða erlendis í afborganir einar um 3400 þús. árl. Þetta 12 millj. kr. lán færir þjóðinni því miður engin varanleg bjargráð. En allt þetta sýnir gleggra en annað, að skrumauglýsingarnar nægja ekki, hvorki á sviði fjármála né annarsstaðar. Staðreyndirnar tala sínu máli, og þegar verk hæstv. fjmrh. eru litin augum raunveruleikans, verða þau neikvæð og dýrkeypt þjóðinni. Það er annars athyglisvert, að þrátt fyrir öll innflutningshöftin var innflutningur til landsins síðastl. ár meiri en nokkru sinni síðan óhófsárið 1930. Mun þar um valda ágengni vildarvina hæstv. ráðh. og gjaldeyrisnefndar, hinna svokölluðu „neytenda“ í landinu. En framkvæmd gjaldeyrismálanna hefir verið sú í stuttu máli, að lánstraust þjóðar og einstaklinga er á þrotum erlendis, þar sem það er vitað, að mönnum hefir verið synjað um gjaldeyri mánuð eftir mánuð, jafnvel árum saman, enda þótt þeir hefðu í höndum gjaldeyrisleyfi, gefið af umboðsmönnum ríkisstj. M. a. sjálfar einokunarstofnanir ríkisstj. hafa lent í megnustu vanskilum. Samkv. upplýsingum fjmrh. höfðu þannig safnazt í bönkunum 1/1'38 um 3 millj. alls. Framkvæmd innflutningshafta ásamt hinum gífurlegu skatta- og tollahækkunum ríkisstj. hefir leitt til geipilegustu dýrtíðar, sem stöðugt vex, en hafði þegar í okt. 1937, samkv. skýrslu hagstofunnar, aukizt um 130% að því er snertir skattaálögur, frá því núv. stjórnarflokkar tóku við völdum 1934. Þessi vaxandi dýrtið leggst með vaxandi þunga á allan almenning og er að sliga hina aðþrengdu atvinnuvegi.

Ég vil þá fara nokkrum orðum um atvinnumálin, því að einnig á því sviði hefir hæstv. forsrh. hughreyst þjóðina með því, að stefna ríkisstj. skuli haldast.

Stefna ríkisstj. og ennverandi valdaflokka á undanförnum 10 árum á sér minnísvarða einnig á sviði atvinnumálanna. Þessir minnisvarðar eru kreppulán bændanna, kreppulán vélbátaeigenda, kreppulán bæjar- og sveitarfélaga. Samtals um 15 millj. kr. Ennfremur hin vaxandi fátækra framfærsla úr 1976000 1933 í 2313000 1934, 2845000 1935, 3466000 1936. Eða m. ö o. fátækrabyrðin hefir nær tvöfaldazt frá því í árslok 1933.

Allt talar þetta sínu máli, og hæstv. forsrh. boðar framhald á þessari glæsilegu braut. Tími minn leyfir aðeins nokkrar aths. um sjávarútvegsmálin. Þar þarf ég helzt að tala við hv. þm. Seyðf., fyrrv. ráðh. þessara mála. Hann hefir jafnan, þegar sjávarútvegsmálin hafa verið rædd hér á Alþ. og mannfundum, brugðið upp einni og sömu grammófónsplötu, lofsöng um fiskimálan. Hún var orðin gatslitin, — en hún var jafnframt lof um fyrrv. form. fiskimílan., hv. 3. þm. Reykv. Nú er Héðinn búinn að brjóta og týna, svo að nú getur þm. Seyðf. ekki spilað þessa plötu lengur. En það er skemmst frá að segja, að svo var komið hag útvegsins, er hv. þm. Seyðf. var dreginn úr ríkisstj., að þrátt fyrir skuldaskil vélbátanna, þar sem einstakir menn, eins og þm. Ísaf., héldu, að þeir slyppu með að greiða 5% af skuldum sínum, höfðu vélbátaeigendur aftur komizt í þrot, þar eð bátarnir voru reknir með stórfelldu tapi ár eftir ár. Togaraútgerðin sýndi tap, sem nam tugum þúsunda á hvert skip, eins og sást m. a. á því, að bæjarútgerð Hafnarfjarðar tapaði 180 þús. á 2 skipum 1936. Vandræði og vonleysi var framundan eins og greinilegast lýsti sér í bréfi, sem stj. S. Í. F. skrifaði ríkisstj. 1. des. síðastl., þar sem hún taldi óumflýjanlegt hrun framundan. Undir þetta rituðu 2 bankastjórar, Magnús Sigurðsson og Helgi Guðmundsson, ennfremur báðir fulltrúar ríkisstj., Jón Árnason, framkvæmdarstjóri S. Í. S., og Jónas Guðmundsson, framkvæmdarstjóri Alþfl. Hvaða mark tók hv. þm. Seyðf. og ríkisstj. á þessu? Hvað var gert útveginum til viðreisnar? Jú, útvegsmenn fengu að tala við hæstv. ráðh., þó aðeins stutta stund. Ráðh. voru svo önnum kafnir. Þeir máttu ekki vera að að eyða tíma í þetta. En hvað gerði svo ríkisstj. og stjórnarflokkarnir? Það var þetta: Það hefir verið afnuminn nokkur hluti útflutningsgjalds af saltfiski. Þetta munar allan útveg landsmanna um 225 þús. kr. ári. Sjálfstfl. hefir árum saman barizt fyrir afnámi alls útflutningsgjalds af sjávarafurðum. en stjórnarflokkarnir hafa alltaf hindrað framgang þess máls. Þá hafa stjórnarflokkarnir afnumið toll af salti, olíu og kolum yfir saltfisksvertíðina. Þetta reikna þeir sjálfir um 100 þús. kr. virði fyrir allan útveginn. En á móti þessu eru lagðir á 2–6% nýir tollar á nær allar aðrar notaþarfir útgerðarinnar og 12% ofan á alla skatta og tolla, gamla og nýja. Hér er veitt með annari hendinni, en meira hrifsað með hinni. Á slíkri rausn getur útvegurinn ekki lifað.

Þá telja einkum sósíalistar útvegsmönnum vel veitt með því að láta útflutningsgjaldið, sem þeir sjálfir greiða, renna til fiskimálan. Það nemur árl. um 400 þús. kr., og var svo ákveðið, að því skyldi varið aðallega til kaupa á 2 nýjum togurum. Var ráðgert, að þeir kostuðu samtals um 1500 þús., fiskimálan. legði fram 25%, eða samtals 375 þús. kr. Þá var lítið eftir til hinna nytsamlegri framkvæmda, svo sem niðursuðuverksmiðju, frystihúsa og annara nýrra úrræða. En framlag þetta var bundið því skilyrði, að félög sjómanna, verkamanna og annara legðu fram 15–20% af verði skipanna. En það sýnir gróðavonirnar, sem tengdar eru nú við togaraútgerðina, að engir hafa viljað þiggja þessar 375 þús. að gjöf. Jafnvel gírugustu fjárplógsmenn, sem jafnframt eru einlægir vinir alþýðunnar og eiga enga hugsjón hjartanlegri en aukna atvinnu sjómanna og verkamanna, menn eins og Héðinn Valdimarsson, Stefán Jóh. Stefánsson, Finnur Jónsson og slíkir, hafa ekki lagt fram eyri af sínum bólgnu fjársjóðum í þessu skyni. En hugur löggjafans var hinn sami, að hafa að engu kröfur og kveinstafi allra útvegsmanna, en halda áfram að skattleggja þá. því neitar auðvitað enginn, að nauðsyn ber til að endurnýja skipastólinn, og það sem fyrst, en það má ekki ske á kostnað þess skipakosts, sem fyrir er í landinu, og fyrsta skylda valdhafanna er vissulega sú, að varna því, að skipin liggi ónotuð og óarðbær í höfn.

Þetta er nú það, sem stjórnarflokkarnir telja sig hafa gert til viðreisnar útveginum. Sannleikurinn er sá, að enn sem komið er hafa stjórnarflokkarnir með hæstv. ríkisstj. í broddi fylkingar daufheyrzt við aðvörunum og kvörtunum útvegsmanna. Þetta þing verður að sinna viðreisn útvegsins, ef það ætlar ekki að horfa ábyrgðar- og sinnulaust á það, að algert hrun skelli yfir þann atvinnuveg, sem drýgstur hefir reynzt þjóðinni á undanförnum áratugum og vel var á vegi staddur að leiða hana frá fátækt til bjargálna. Útvegsmenn munu ekki gefast upp fyrr en fleytan er komin í kaf, en þeir krefjast þess, að ríkisvaldið láti einnig einskis ófreistað til að afstýra voðanum. — ríkisstj. verður að breyta um stefnu í garð útvegsins. Það er freistandi að fara nokkrum orðum um eymd og vandræði þeirra sjömenninga hér á Alþ., sem nefna sig Alþýðuflokk. Þessir háttv. þm. fengu svo maklega ráðningu við síðustu alþingiskosningar, að þeir hafa ekki beðið þess bætur síðan. Þessi ósigur var að miklu leyti undir herstjórn og fyrir herkænsku hv. 3. þm. Reykv., en hann hefir síðan undið sér úr hópi fyrri félaga, er hann sá, að stefnt var í strand. Í Rvík reiknuðu sósíalistar sér 8 þús. atkv., en fengu 4 þús. Örvæntingin leiddi til samfylkingarskrafs og samningamakks við línudansarana frá Moskva, umboðsmenn rússneska blóðveldisins, og við bæjarstjórnarkosningarnar í lok jan. fylktu hinir rauðu flokkar saman liði sínu í Rvík og víðast hvar. Hv. þm. Seyðf., sem nú þykist berjast gegn kommúnistum, sat við hlið hv. 5. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, á kjörlistanum í Rvík. En alþýða Rvíkur sýndi enn á ný andstyggð sína á þessum flokkum. Þeir náðu ekki samanlögðu atkvæðamagni flokkanna við alþingiskosningarnar og komu aðeins að 5 fulltrúum, en töldu sér vísa 7–8. Upp úr þessu jukust enn vandræðin og ringulreiðin. Bandamennirnir byrjuðu að hnakkrífast og brigzla hver öðrum um svik, en hv. 3. þm. Reykv. þóttist sjá, að kommúnistarnir yrðu hlutskarpari í baráttunni um hylli lýðsins, og yfirgaf því fyrri samherja sína, sem hann nú telur umboðslausa á Alþingi og kallar Harald & Co. En þessir sjömenningar þykjast enn ráða yfir alþýðusamtökunum. Þeir höfðu leitt sjómennina út í togaraverkfallið um áramótin, þeir leyfðu kommúnistunum að berjast gegn öllum sáttatillögum í Sjómannafélaginu. Loks þegar forsætisráðherra hafði lagt fram gerðardómsfrv. sitt, fóru þessir sjömenningar að óttast um eigin valdaaðstöðu. Þá var samin ein Vilmundartillagan, þar sem sjómenn voru beðnir að eta ofan í sig fyrri samþykkt sína, og stórskotaliðið fór með þetta plagg á fund sjómanna. Þetta var auðvitað hin megnasta vanþekking og vanvirðing á skapferli sjómannanna, enda vísuðu þeir henni eindregið á bug. Sjömenningarnir reyndu að bjarga lífi sínu, brutu öll fyrri heit sín um verndun á samningsrétti verkalýðsins og reyndu að fá kaup sjómannanna lögfest. Þetta tókst þó ekki, hæstv. forsrh. hélt fast við sitt frv., og hv. þm. Seyðf. var dreginn út úr ríkisstjórninni. Það er svo enn ein ný sönnun eymdar og vesaldóms sjömenninganna að eftir að ráðherra þeirra þannig hafði verið fleygt fyrir borð með fullri einurð og vanþóknun, þá koma þeir og biðja auðmjúklega um að mega áfram styðja þann forsrh., sem fyrir hreingerningunni hafði staðið! Þetta eru merkilegir menn, höfðinglegir og dáðríkir! Sannleikurinn er sá, að síðustu mánuðina hefir hinn svokallaði Alþfl. ekki annað gert en að fara í gegnum sjálfan sig. Hefir hann gert það svo margvislega og oft, að ég hygg, að þeim sjömenningum væri óhætt að sýna sig í hvaða fjölleikahúsi sem væri. Yrði þá hv. þm. Seyðf., Haraldur Guðmundsson, „aðalnúmerið“, en þm. N.-Ísf., Vilmundur Jónsson, leikstjóri, því að þaðan hafa hin viturlegu hollráð komið. En eins og nú er komið högum þeirra sjömenninganna, er engri ríkisstjórn nokkur stuðningur í þeim, hvorki málefnalega né lýðræðislega — þeir eru allir eins og fiskar á þurru landi. En auðsveipni, hugsjónasvik og værð sósíalistanna hefir orðið fjörgjafi og verndari kommúnistanna. Þeir hafa skapað kommúnistaflokkinn hér á landi og fleygt til hans fylgi. Framsfl. hefir einnig gerzt stórbrotlegur og vítaverður með því að veita þessum ólánsmönnum, sem engin vaxtarskilyrði eiga í okkar þjóðfélagi, hlífð og jafnvel stuðning. Allir ábyrgir stjórnmálamenn ættu þó að geta sameinazt um það að útrýma þessum óþjóðlega flokki, sem sækir allar sínar fyrirskipanir til Moskva og hefir það hlutskipti eitt í íslenzkum stjórnmálum, að grafa undan þjóðskipulaginu, stofna til óeirða og verkfalla, boða mannhatur og öfund, allt í þeim tilgangi að leiða blóðuga og grimmilega byltingu og manndráp yfir þjóðfélagið. Það er hægðarleikur að kyrkja þennan ófögnuð áður en hann nær örari vexti, ef menn aðeins standa saman um það. Aukin völd kommúnistanna er ægilegasta hættan, sem vofir yfir lýðræði voru og þingræði. Þau þýða sköpun og mátt hinna öfganna, fasismans. Öfgaflokkarnir munu leikast á, en þjóðfélag og einstaklingar gjalda afhroð.

Tími minn er nú á enda. Að lokum aðeins þetta: Aðalmeinsemd þjóðfélagsins hefir verið hinn sósíalistíski hugsunarháttur og áhrif sósíalista á ríkisstjórnina og stefnu hennar. Ekkert fátækt land hefir ráð á að lúta boði sósíalista. Í okkar fátæka og ónumda landi, þar sem ótal verkefni blasa við, ótal auðlindir við sjó og í sveit, verður að nota hvern kraft og hvert framtak, sem að liði vill verða. Nær öll löggjöf vor á sviði atvinnumála hefir undanfarið hafizt í þessum orðum: „Enginn má — — — , o. s. frv. Þessu þarf að breyta. Kjörorðið þarf að verða: „Allir mega að liði verða“. Ríkisvaldið á aðeins að vera atvinnuvegunum til fyrirgreiðslu og eftirlits, en ekki að liggja eins og mara á þeim. Framleiðendur til lands og sjávar verða nú að taka höndum saman og heimta sinn rétt. Meira frelsi. Meira frjálsræði. Og þeir heita því, að það muni færa með sér auknar athafnir, meiri framfarir, meiri atvinnu og bætta afkomu alþjóðar.

En hvað sem öllu liður. Það verður að breyta um stjórnarstefnu.