08.03.1938
Efri deild: 17. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 688 í B-deild Alþingistíðinda. (980)

46. mál, samvinnufélög

Flm. (Einar Árnason):

Hv. 1. landsk. taldi það óráð, hvernig þessu yrði fyrir komið. En í frv. er engu slegið föstu um það, hvaða nánari reglum yrði fylgt í þessu efni. Ég vil aðeins segja hv. þm. það, að það liggur fyrir sambandsfundi, sem samsettur er af fulltrúum frá öllum sambandsdeildum, að ræða, hvernig fyrirkomulag verði haft um þetta, innan þess ramma, sem l. setja. Það er misskilningur hjá hv. þm., ef hann heldur, að sambandsstjórnin fari að setja reglur um það, hvernig þetta skuli vera. (BrB: Mér datt það ekki heldur í hug). Ef þetta frv. verður að h, þá liggur fyrir næsta sambandsþingi að ákveða, hvaða reglur verði teknar upp um þetta. Ef það yrði ofan á að fylgja gömlu reglunni, að félagsmannatalan skuli ein ráða um tölu fulltrúanna, þá er engin breytingin. Og það getur hvorugur okkar hv. þm. sagt um það, hvað verður ofan á í þessu. Sambandsstjórnin álítur, að það sé réttara að eiga þessa heimild til í l., ef fulltrúar frá samvinnufél., sem eru í SÍS, skyldu heldur vilja nota þá aðferð að ákveða fulltrúatöluna með tilliti til viðskipta félaganna.

Það, sem hv. 1. landsk. var að minnast á fátæka og ríka í þessu sambandi og segja, að þeir ríku ættu eftir þessu frv. að hafa völdin í SÍS, en þeir fátæku engin. er ekki sagt af því, að neitt sé í frv., sem hafi áhrif í þá átt. Ég vil aðeins benda hv. þm. á það, að ég hefi upp undir 40 ára reynslu um starfsemi kaupfélaga og þekki töluvert mikið inn á starfsemi þeirra og viðskipti manna yfir höfuð við þau. Og ég get sagt honum það, að það eru til efnaðir bændur í sveitum, sem eru í kaupfélagi, en verzla mjög lítið við það; miklu minna við það heldur en fátækir bændur, sem í því eru, þannig að það er ekki séð með þessu, að hér sé verið að kúga þá efnaminni í kaupfélögum. Það er bara hugarburður hjá hv. 1. landsk., að slík yrði afleiðing þess að samþ. þetta frv.