06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (995)

46. mál, samvinnufélög

*Brynjólfur Bjarnason:

Ég er samþykkur brtt. hv. 1. þm. N.- M. Hún er í öllum aðalatriðunum í samræmi við þær athugasemdir, sem ég hefi gert við þetta frv. hér við umr. Þó hefi ég komið með þessa viðbótartill. við brtt., að aftan við 2. tölulið bætist: enda eigi félagið kost á viðskiptum við SÍS. Til þess að félag haldi fullum réttindum, þarf vöruverzlun félagsins, miðað við félagatölu þess, að vera svo og svo mikil, eftir því sem nánar er ákveðið á aðalfundi, og ég er því alveg samþykkur. En ég tel nauðsynlegt, að líka sé tekið fram, að félagið eigi þá kost á viðskiptum við Sambandið. Ef það ekki væri tekið fram, væru möguleikar á því, að félögum væri meinuð viðskipti við Sambandið, að svo og svo miklu leyti. Það má kannske segja. að ekki þurfi að taka þetta fram, því að það liggi í hlutarins eðli, en ég held nú samt, að það sé vissara, því að enda þótt ekkert slíkt felist í lögunum, þá er þó vel hægt að framkvæma þau þannig. Ég held þess vegna, að þeir hv. þm., sem geta fallizt á þessa brtt. hv. 1. þm. N.-M, hljóti jafnframt að geta fallizt á þessa brtt. mína.

Hv. 2. þm. N.-M. taldi ekki rétt að samþ. þessa brtt. á þskj. 184, og færði hann það sínu máli til stuðnings, að samvinnulöggjöfin væri yfirleitt stutt og markaði Sambandinu rúmt svið. En ef þetta frv. verður samþ. með þeirri breytingu, sem fyrir liggur frá hv. 1. þm. N.- M., þá þýðir það minni breytingu við lögin heldur en ef frv., yrði samþ. óbreytt. Og ef það er virkilega tilgangurinn með þessu frv., að takmarka rétt þeirra félaga, sem að meira eða minna leyti eru til málamynda í Sambandinu, án þess að vilja hafa við það viðskipti, þá getur stjórn Sambandsins vitanlega fallizt á þessa till. Ef það aftur á móti ekki er tilgangurinn og það skyldi vera meiningin með þessum óskum SÍS að fara inn á þá braut, að miða réttindi félaganna við viðskipti, en ekki tölu félagsmanna, þá tel ég alls ekki rétt að verða við slíkum óskum. — Þar af leiðandi álit ég, að afstaða þeirra þm., sem hér bera þetta frv. fram f. h. SÍS, til þessarar brtt., skeri í raun og veru úr um að, hver tilgangurinn sé með þessu frv.