06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

46. mál, samvinnufélög

Einar Árnason:

Ég vildi aðeins segja nokkur orð út af þeim brtt., sem fram hafa komið. Ég hygg, að ég hafi tekið það fram, þegar málið var hér síðast til umr., að ég gæti ekki fallizt á slíkar brtt. sem þessar. — Það virðist vaka fyrir þeim hv. þm., sem að þessum brtt. standa, að það sé einhver ógnarleg goðgá, ef höfðatalan í félögunum eigi ekki að ráða því, hve margír fulltrúar mæta á aðalfundi. Ég stundi fram á það þá. að eins og lögin væru nú, væri í raun og vera ekki hægt að ná þessu marki, nema með því móti að hafa atkvæðisréttinn beinan og að hver félagsmaður gæti mætt á aðalfundi og greitt þar atkvæði. En nú er slíkt vitanlega ómögulegt, og þá verður að gripa til þess ráðs, eins og venja er í öllum félögum eða samböndum a. m. k., að hafa fulltrúa. Nú er það ekki svo, að jafnmargir félagsmenn séu á bak við hvern fulltrúa, heldur eru þeir misjafnlega margir, og þá er svo langt frá því, að þetta réttlæti náist, sem hv. flm. brtt. hyggjast að ná. Eftir þeim lögum, sem nú gilda, þá er það venjan með félög, sem eru í Sambandinu, að þau hafa rétt til þess að senda einn fulltrúa á aðalfund, hversu fámennt sem félagið er, en til þess að senda tvo fulltrúa, þurfa þau að hafa 300 félagsmenn, að ég held. Og ef maður hugsar sér, eins og hv. 1. þm. N.-M. sagði um daginn, að mannvitið ætli að ráða í þessum efnum, þá ætti mannvitið að vera helmingi meira hjá 300 félagsmönnum heldur en 299. Það er sem sé ekki hægt að ná fullkomlega því réttlæti, sem flm. brtt. ætla sér að ná.

Og svo er annað í þessu sambandi, sem sé, að svo er að heyra á þessum hv. þm., að þetta, sem hér er farið fram á, sé einsdæmi í samvinnufélagsskap heimsins. En ég bara spyr, hvort það sé nokkursstaðar ríkjandi í nágrannalöndunum, að tala þeirra fulltrúa, er hvert félag má senda á aðalfund, sé bundin við höfðatöluna. Ég vildi gjarnan, að þeir nefndu það land. — Ég hefi áður bent á það, og get endurtekið það, að Englendingar, sem ég hygg að standi mjög framarlega í samvinnufélagsskap, láta pundin sín koma til greina við tölu fulltrúa á aðalfund. Og þó að hér hafi nú verið talað um þessar krónur sem stórhættulegar okkar mönnum, þá er nú þetta það, sem við allir erum að sækjast eftir. Alveg sama er að segja um Norðmenn. Þeir taka líka tillit til sinna króna í þessum efnum, aðeins eftir dálítið öðrum reglum heldur en Englendingar. Svo er alls ekki úr vegi að líta til Svíanna, sem líka eru taldir með þroskaðri þjóðum í samvinnumálum. Þeir hafa það fyrirkomulag, að hvert félag í sambandi þeirra á rétt til þess að senda einn fulltrúa á aðalfund, og auk þess einn fyrir hverja 500 félagsmenn, þó með þeirri takmörkun, að félagið verður að hafa keypt fyrir 200 þús. kr. hjá þeirra sambandi fyrir hvern fulltrúa, sem er fram yfir einn. — Nú skildist mér á hv. 1. landsk. við 1. umr. þessa máls, að hann myndi geta sætt sig við fyrirkomulag, sem væri svipað eins og hjá Svíum, og eftir því sem frv., sem fyrir liggur, er orðað, liggur einmitt opið fyrir að fylgja aðferð þeirra. Með till. þessum eru bundnar hendur samvinnufélagsmanna á aðalfundi SÍS. Og það merkilega við brtt. er, að þær ganga þó að nokkru leyti í sömu átt og frv., nefnilega, að þær taka tillit til krónunnar, en ekki tölu félagsmanna eingöngu. Hv. flm. vill ganga inn á svið, sem ekki heyrir undir löggjafarvaldið, heldur er fyrirkomulagsatriði, sem samvinnumenn eiga sjálfir að ráða. Þessar till. eiga frekast heima í samþykktum innan félaganna, en ekki í l. Ég skal líka nefna, hvernig Danir koma þessu fyrir. Þeir hafa aðeins einn fulltrúa fyrir hvert samvinnufélag, hvort sem það er stórt eða litið. Þar er aðeins ein undantekning, og það er félagasambandið í Kaupmannahöfn. Þar voru 15 félög, sem nú hafa sameinazt í eitt félag, en halda fulltrúatölunni 15. Ég skil því ekki alla þessa viðkvæmni út af þessu atriði. Ég sé ekki betur en að samvinnufélagsskapurinn eigi eins og allar aðrar stofnanir að fylgjast með þróuninni í heiminum. Það var talið sjálfsagt á fyrstu árum samvinnufélagsskaparins, að hafa ótakmarkaða sameiginlega ábyrgð. Nú er búið að fella það úr gildi, af því að reynslan er búin að sýna, að það fyrirkomulag heyrir ekki til nútímanum. Sama er að segja um þetta atriði, sem við deilum um hér. Það heyrir ekki til nútímanum.

Ég skal svo geta þess, að eins og sjálfsagt var, ræddi ég þessa brtt. við forstjóra Sambandsins og leitaði álits hans. Ég hygg, að a. m. k. flestir samvinnumenn landsins taki nokkurt tillit til þess, sem hann segir um þessi mál, hann telur, að ekki eigi að samþ. till., og hann gekk svo langt að segja, að það mætti eins láta frv. daga uppi eða fella það, ef ætti að binda svo hendur samvinnumanna sem brtt. gera. Ég ætlast ekki til, að menn fari sérstaklega að taka tillit til þess, sem ég held fram í þessu efni, en ég veit, að samvinnumenn landsins taka tillit til þess, sem forstjóri Sambandsins segir um samvinnumál.

Þegar á að fara að breyta innra skipulagi í félögum Sambandsins, er ekki hægt að hlaupa í að skrifa hér á deildarfundi brtt., sem grípa fram í 20–30 ára gamla reynslu og losa um skipulag, sem reynzt hefir vel.

Ég sé ekki ástæðu til að taka til máls aftur. Ég taldi — sjálfsagt að láta í ljós skoðun mína á brtt., en verð auðvitað að láta ráðast, hvernig um þær fer.