06.04.1938
Efri deild: 42. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (998)

46. mál, samvinnufélög

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki hugsunarhátt hv. 2. þm. Eyf. Hann talar um, að með brtt. mínum sé verið að breyta ráðnu skipulagi, sem megi ekki hrófla við, en sjálfur ber hann fram frv. um breyt. á sama skipulagi, og brtt. hans eru einmitt þess eðlis, að þær geta kollvarpað grundvelli skipulagsins. En eftir brtt. mínum er röskunin sú ein, að hægt er að útiloka málamyndafélög. En það, sem skilur á milli okkar, er, að ég vil ekki láta skapa möguleika til þess, að Pétur eða Páll komi á fund og geti haft ástæðu til að ræða það, t. d. á aðalfundi SÍS, að þar skuli innleiða kosningarreglur hlutafélaga. Það er sá meginmunur á samvinnufélögum og hlutafélögum, að samvinnufélögin geta sent sinn fulltrúa til þess að fara með umboð misjafnlega margra manna. að vísu eftir samþykktum félagsins, en altaf ákveðins fjölda félagsmanna, en miða ekki við krónufjöldann, sem stendur í félaginn eða skipt er við félagið fyrir, en það gera hlutafélögin. Og þó að ég meti krónurnar mikils, dettur mér ekki í hug að tala um þær sem persónur, eins og hv. 2. þm. Eyf. gerði. Ætla ég svo ekki að svara því frekar.

Eg þakka hv. þm. S.-Þ. fyrir þá fræðslu, sem hann var að veita mér, en hitt er annað mál, að hve miklu leyti ég get notfært mér hana. Ég hefi átt dálítið við samvinnumál um æfina, verið í stjórnum þeirra um 12 ára skeið og meir en 30 ár starfað að þeim málum meir og minna, og aldrei hefi ég orðið var við, að neinn hafi viljað innleiða hlutafélagagrundvöllinn, og það er það í þessu frv., sem ég er á móti.

Ég er á móti skrl. brtt. við brtt. mína, ég tel enga hættu á því, að SÍS ekki láti öll félög, sem eru innan vébanda þess, hafa vörur, og því er tillagan óþörf með öllu. Hinsvegar tel ég, að það sé sjálfsagt, að Alþ. styðji ekki að því með breyt. á samvinnufélagsl., að skapaður sé möguleiki til þess að rífast um það á aðalfundi SÍS eða aðalfundum einstakra félaga, hvort kjósa elgi menn eftir krónum eða meðlimafjölda. Mér skildist á hv. þm. S.-Þ., að hann væri hræddur við kaupfélög bæjanna, og þau væru svoddan viðvaningar á samvinnufélagssviðinu. Þessi ótti er ímyndaður. Ein leiðin til þess er að hleypa fél. ekki inn í Sambandið. En væri hér um ástæðu til að óttast áhrif frá fulltrúum frá kaupstaðasamvinnufélögum á stjórn SÍS, er hægt að fara fleiri leiðir til að útiloka þau en þá, að láta hvert félag fá fjölda fulltrúa eftir viðskiptaveltu félagsins við SÍS, sem mér nú virðist helzt vaka fyrir honum. Önnur er sú að ákveða t. d., að hvert félag sendi 1 fulltrúa á aðalfund SÍS fyrir t. d. 2000 félagsmenn eða færri, og úr því 1 fyrir t. d. hverja 3000 félagsmenn eða færri. Með þessu má algerlega takmarka áhrif fjölmennu bæjarfélaganna, og til þessa þarf enga lagabreytingu að gera. Ef lagabreyt. þarf að koma, er það eingöngu til þess að geta komið inn hlufafélagakosningaréttarsjónarmiðum eða til að útiloka áhrif gervifélaga eða málamyndafélaga. Ég trúi því ekki, að sambandsmenn vilji það. Ég trúi því ekki, að hv. þm. S.-Þ. detti í hug að vilja það. Ég gæti frekar trúað hinn, að einhver annar vildi það, en hv. þm. S.-Þ. trúi ekki, að það komi til framkvæmda, og væri því með því í góðri trú. Hv. þm. S.-Þ. vitir það, að ég skuli flytja þessa tillögu, og telur það móðgun við SÍS og, að því að mér skildist. Framsfl., að ég skuli leyfa mér slíkt. Ég hygg hér sé um misskilning að ræða. Ég veit ekki annað en Framsfl. hafi alla tíð metið mannssálir meir en krónur. Og ég hygg, að hv. þm. S.-Þ. hafi þar talað skýrara og ákveðnara en flestir aðrir, bæði í ræðu og riti. Þess vegna tel ég mig vera í fullu samræmi við minn flokk, þegar ég held því ákveðið fram, að á fundi í samvinnufélagi eigi atkvæði að koma eftir raunverulegu félagatali meðlima félagsins, en ekki eftir því, hvað hver einn skipti mikið við félagið. Og sama gildir svo félögin og SÍS.

Eða heldur hv. þm. S.-Þ., að ef ég skipti við mitt kaupfélag fyrir 1000 kr. á ári, en hann hara fyrir 100, þá eigi ég að hafa 10 sinnum meiri rétt í félaginu en hann? Ég held þetta ekki, og til að fyrirbyggja, að einhverjir geti reynt að koma þessu á í samvinnufélögunum, vil ég fá brtt. mína samþykkta, eða drepa þær allar.