08.12.1939
Sameinað þing: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

1. mál, fjárlög 1940

*Jónas Jónsson:

Eins og hv. frsm. tók fram í ræðu sinni, þá veldur það sérstaka ástand, sem nú er, að sumar af þessum till. eru magrari en vant er. Ég vildi segja það sérstaklega, að við í fjvn. höfum ekki eins og vanalega talað nánar en gert hefir verið við þm. úr einstökum byggðarlögum, ekki til þess að bjóða þeim fjárveitingar, sem við höfum ekkert vald á, heldur til þess að halda þeirri góðu reglu, að eftir því sem hægt er væru fjárl. nokkurnveginn sanngjörn mynd af því, sem landið gæti og þyrfti. Ég býst við, að landsmenn skilji það, að mjög getur brugðið til beggja vona um tekjur á næsta ári. Ég varð mjög hissa, þegar ég sá, að forstöðumaður fjármáladeildarinnar í stjórnarráðinu stóð hér að till., sem var á allt annan veg en ég gat búizt við. Þegar fjvn. kom saman í haust til starfa, var hann svo bölsýnn, að hann lagði alveg sérstaklega fyrir okkur að reyna að framkvæma alveg sérstakan sparnað. Eins og hann leit á málið þá, átti sá sparnaður að verða miklu meiri en okkur hefir tekizt að framkvæma, þó það muni milljónum króna, sem við höfum með súrum sveita getað lagt til, að yrði breytt í frv. og fellt niður. Flest af því eru hlutir, sem væri ákaflega æskilegt, að við gætum haft, t. d. stærsti liðurinn, fjárveiting til fiskimálan., sem auðvitað er ekki beinlínis til n., heldur gengur í það, að koma upp hraðfrystihúsum og styrkja báta. Auðvitað getur enginn verið glaður yfir því, þó við höfum neyðzt til að leggja til, að þetta væri fellt niður. Ef við hefðum haft efni á því, hefðum við þurft að halda áfram að byggja frystihús og báta, því það gefur — eins og þyrfti að vera — fleiri mönnum atvinnu við framleiðsluna.

Ég verð að segja skrifstofustjóranum í fjármálaráðuneytinu það, sem er fyrstur á till. sem gengur þvert á það, sem fjmrh. og fjvn. hefir lagt til, að ef hann ætlast til, að till. verði samþ., þá minnkar það traust, sem ég hefi á því, að það sé nokkur alvara bak við það hjá stjórninni að vilja mæta þessum till. Sú léttúð, sem þarna kemur fram, áfellir þann mann, sem fyrstur skrifar undir till. Ég mundi ekki áfella kommúnista fyrir hana, hún er alveg eins og við var að búast frá þeim, eða sérstökum vinum kommúnista, ábyrgðarlausum mönnum, eins og hv. þm. N.-Ísf., en ég verð að segja, að það hvílir ábyrgð á skrifstofustjóranum í fjármálaráðuneytinu, sem segir, að á skatt- og tollatekjum einum saman geti munað 3 millj. á næsta ári. Það er von, að kommúnistarnir brosi, það er varla hægt að gefa þeim betra tilefni en það, að skrifstofustjórinn í fjármálaráðuneytinu færi að gangast inn á þeirra aðferðir.

Ég þykist vita, að skrifstofustjórinn muni skýra sína aðstöðu, svo menn missi ekki trúna á það, að fjármrn. standi með Alþingi í því að reyna að taka alvarlega á hlutunum og halda niðri útgjöldunum og sjá um, að ekki sé óvarlega farið með það fé, sem gengur í gegnum þá deild.

Ég ætla að gleðja hv. 2. þm. Rang. með því að rifja upp þann vaðal og þær umr., sem hafa orðið um styrki til listamanna, og er ég hæstv. viðskmrh. samdóma um það, að þær umr. og atkvgr. hafa orðið til lítils sóma fyrir þingið. Ég ætla að taka það fyrst, þegar einn Rangæingur, Þorsteinn Erlingsson, var hér búsettur, maður, sem var undir þeim kringumstæðum, að hann þurfti styrk, en hann var líka vissulega búinn að gera sína góðu hluti. Það varð vissulega eitt af stærstu málum þingsins að deila um hann og hvort hann ætti að fá nokkur hundruð krónur eða ekki, og ég geri ráð fyrir, að þeir þm., sem þá sátu þingið, hafi verið svona álíka menn og við. Þessar umr. enduðu með því, að Þorsteinn Erlingsson og Valdimar Briem fengu nokkur hundruð krónur hvor, eftir að búið var að telja upp allt, sem þeim var til skammar, af þeim þm., sem voru á móti hvorum um sig. Ég segi fyrir mig, að ég hefi engan smekk fyrir svona umr. á Alþingi. Ef þessi till. verður samþ., vil ég stinga upp á, að verði sett þingkosin n., eða einn maður frá hverjum flokki, sem að stjórninni stendur, til að skipta þessu fé. Það er aukaatriði, hver skiptir þessu. Ég væri t. d. til með að bera fram brtt. um, að það yrði ríkisstjórnin, sem skipti þessum aurum. Það er enginn ávinningur fyrir mig og mína meðstarfsmenn í menntamr. að fá þetta starf. við munum allir kvíða fyrir að fá það, ef til þess kemur, við höfum ekkert að vinna við það, nema leiðindi. Ég vil hugga þá menn, sem hafa litla tiltrú til menntamr., með því, að það er meir en velkomið af minni hálfu, að þeir fái á einhvern hátt að starfa að þessu sjálfir.

Þessar umr., sem tættu Þorstein Erlingsson og Valdimar Briem sundur, og síðar Jón Trausta og Einar Kvaran, eru einhverjar þær allra leiðinlegustu, sem finnast í öllum Alþt. Við, sem stöndum að þessari nýbreytni, höfum sömu aðstöðu og nokkrir þm., sem unnið hafa að því að taka af þinginu þann ruslakistubrag, þegar menn óðu hingað inn eins og þeim gott þótti og fylltu d. til skiptis og settu þannig blæ á þingið, að það líktist helzt sjóbúð. Þeir, sem standa að þessari breytingu, hafa rétt fyrir sér, en þeir, sem standa að till., höfðu enga tilfinningu fyrir því, að þetta væri til skammar, og gengust ekki fyrir því, að umgengnin í þinginu yrði sómasamleg og eins og Alþingi á skilið. Þess vegna er ástæðan fyrir því, að ég styð þessa breyt., að hún er til umbóta, ekki fyrst og fremst fjárhagslega, heldur sérstaklega siðferðislega og andlega, og byggð á því, að það er óþinglegt og ósamboðið þessari samkomu að tæta þessa menn sundur. Ég vil aðeins segja það, að þeir menn, sem geta lagt sig niður við slíkt, mega það auðvitað mín vegna, en ég tek ekki þátt í slíkum umr. En það mun sýna sig, ef þetta á áfram að vera í höndum 50 manna, þá verða alltaf samskonar umr. um þetta, en þetta er einmitt mjög æskilegt, að fram skuli hafa komið till. frá ríkisstj. um að taka þetta út úr deilunum og koma því öðruvísi fyrir. Sú leið stendur opin, að koma því öðruvísi fyrir en að fá það menntamr., en Alþingi ætti ekki að setja lög um, að menntamr. skyldi bæta við sig fleiri mönnum til að vinna þetta verk. Ef svoleiðis ætti að fara að við okkur í menntamr., þá myndum við segja, að við óskuðum heldur eftir að láta það alveg í annara hendur. Ef horfið væri að því ráði, mundi ég stinga upp á, að kosin yrði n. meðal þm. með hlutfallskosningu, t. d. 5 manna n., til að skipta þessu, og mundu þá koma fram rétt hlutföll milli flokka, eins og þau eru nú. Þá væri því náð, sem vakað hefir fyrir hæstv. viðskmrh., að afnema þessar leiðinlegu deilur. Breytingin af þessu hefir strax komið í ljós, það hefir ekki einn einasti maður komið til fjvn., af því að styrkirnir voru ekki í fjárl. og menn hafa búizt við, að fyrirkomulaginu yrði breytt. Ég vil segja það, að það getur orðið svo, að fjvn. sjái ástæðu til að taka alla persónulega styrki út af 18. gr. fjárl. og láta svo nöfnin koma í ríkisreikningnum, en aðeins upphæðina í fjárl., og það er líka af sömu ástæðu, nefnil. að hreinsa til í þinginu. Mér þykir skömm að því að sjá fjárl. öll útötuð í mannanöfnum og að það skuli ekki fyrir löngu vera búið að ráða bót á því. Ég held, að ég geri ekki þeim mönnum rangt til, sem standa að till. hér, að þeim hafi farið eins og Andrési hjá Duus, þegar Þórður á Kleppi mætti honum á götu daginn eftir að Andrés dó, og Andrés vissi ekki, að hann var dauður; ég held, að þessir menn séu ekki búnir að átta sig á því, hvað heyrir til sóma þingsins. Ég býst ekki við, að þeir hafi áttað sig á, hvern blæ það setur á þingvinnuna að bæta svo sem 50 nöfnum á fjárl. og rífast svo um alla þessa menn og halda sama blænum á umr. og verið hefir. Ég skil hinsvegar af framkomu þessara manna, að þá muni langa í tuskið áfram. Þingið hefir oft minnt á greni, sem grenjaskytta liggur á. Það er auðvitað mjög fín íþrótt. T. d. kom hingað maður, sem átti söngmann fyrir son. Hann lá hér á þinginu í 6 vikur, og með þeirri 6 vikna vinnu tókst honum að lemja út styrk handa syni sínum, sem svo hefir aldrei getað sungið og aldrei orðið sér og öðrum nema til leiðinda. Þetta er það, sem þessir hv. þm. eru að biðja um að halda áfram með.

Ég vil benda á, að ef þessi till. verður samþ., þá mun hún hafa meiri þýðingu en menn gera sér ljóst í fljótu bragði. Þá yrði aftur kominn á þingið sá blær, sem hefir verið að komast á síðustu árin, og það eru aðallega kommúnistar, sem eiga heiðurinn af honum. Þeir hafa barizt á móti umbótunum í blöðum sínum, og ef þetta væri látið fara eins og þeir vilja, þá mundi líka fara fleira, eftir að búið væri að brjóta niður þessar litlu endurbótatilraunir og fleiri aðrar, þá myndu grenjaskytturnar koma hér aftur. Það er ekki aðalatriðið, hvort 50 eða 100 þús. kr. fara í þetta, — nei, það er aðallega blærinn, sem það setur á þingið.

Það getur farið svo, að það verði ennþá minni hluti af sköttum, sem landsmenn geta greitt, en skrifstofustjórinn í fjármálaráðuneytinu gerði ráð fyrir, og það getur haft alvarlegar afleiðingar, ef ekki er reynt að koma með meiri alvöru til móts við till. ríkisstj. en nú er gert. Ef þessi blær á að vera áfram, þá má skrifstofustjórinn og hans skrifstofumenn vera vel á verði um meðferð á fé ríkisins. Þó að tekin væri upp ný lína í byrjun þessa þings, þá gæfi hann nú aðra línu, sem mér væri að vísu kærkomin vegna míns kjördæmis. Þar vantar bæði vegi, síma og hafnarbætur, svo ég mundi, kjördæmisins vegna, hlakka til þess að fá nýja línu, en ég hlakka ekki til þess sem borgari á Íslandi.