08.12.1939
Sameinað þing: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (1012)

1. mál, fjárlög 1940

*Magnús Gíslason:

Ég verð að játa það, að þótt ég sé flm. þessarar till., þá bjóst ég ekki við, að eins mikið yrði talað um hana í dag og raun hefir á orðið. Ég hélt, að hér yrði fyrst og fremst talað um þá stefnu, sem taka ætti í fjármálum eins og nú horfir við. Ég hélt, að þessi litla till., sem aðeins beinist að einum lið fjárlaganna, gæti beðið, en nú er hún orðin aðalumræðuefnið. Það, sem fyrir mér vakti, þegar ég gerðist flm. þessarar till., var það, að mér fannst tekin upp óviðeigandi nýbreytni í fjárlagafrv., þar sem vald Alþ. um það, hverjir skuli hljóta styrki af þeim mönnum, sem að vissu leyti eru taldir spámenn sinnar þjóðar –sem prédika sannleikann í ræðu eða riti, litum, ljóði og tónum — er af því tekið. Mér fannst það ekki mega henda alveg umhugsunarlaust, að Alþ. afsalaði sér þessu valdi í einu vetfangi í hendur annara. Aðalatriðið hélt ég að væri það, hvernig menn ættu að snúast gagnvart því erfiða ástandi, sem nú ríkir, — en allt í einu er mín litla till. orðin að aðalatriði í þessum umr.

Ég skal játa, að það er e. t. v. óheppilegt, að umr. um persónustyrki fari fram fyrir opnum dyrum, — umr. um það, hvort menn meti eitt skáldið meira en annað. En þá er spurningin sú, hvort hægt er að finna heppilegri lausn á þessu máli. Ég skal einnig viðurkenna, að ef til væri í landinu einhver stofnun, sem landsfólkið bæri traust til að leysa þetta starf af hendi betur en Alþ. hefir tekizt, þá skyldi ég verða fyrsti maðurinn til að afhenda þetta vald. Ég þekki alla meðlimi menntamálaráðs, og sumir þeirra eru vinir mínir, og ég get ekki neitað því, að ég ber traust til þessara manna, en hitt dylst mér ekki, að landsfólkið veit ekki, að til er í landinu stofnun, sem heitir menntamálaráð, hvað þá að það beri slíkt traust til þess, að það vilji fela því það vald, sem Alþ. á nú að afsala sér. Hvenær sem slík stofnun verður til, sem er hæf og bær til þessa starfs og hefir traust fólksins til þess, þá skal ég fyrstur allra verða með því að afsala þessu valdi Alþ. En menntamálaráð hefir ekki traust til að taka við því.

Út af því, sem hv. þm. S.-Þ. sagði um afskipti mín af þeim aðgerðum, sem enn hafa farið fram um breyt. á fjárlfrv., sem fyrir liggur, þá vil ég geta þess, að ég hefi lagt ekki svo lítið verk í það, eftir mínu viti, að gera mér grein fyrir því, hvernig nú horfir við og hvað helzt liggi fyrir. Og eftir þá rannsókn tel ég óhjákvæmilegt, að óbreyttu ástandi, að tekjuliðir fjárlaganna muni í mörgum verulegum atriðum lækka. Hinsvegar er það vitað mál, að margir útgjaldaliðir fjárl. hljóta vegna vaxandi dýrtíðar að hækka gífurlega. Hér er vandkvæði, sem þarf að leysa og fjmrn. hefir gert tilraun til að benda fjvn. á, hvernig ætti að leysa. Ráðuneytið hefir t. d. bent á, hvaða tekjuliðir virtist óhjákvæmilegt að myndu lækka. Og við höfum líka bent á vissa útgjaldaliði, sem hægt væri að lækka, og svo nokkra útgjaldaliði, sem væri erfitt að þurfa að lækka, en nauðsynin krefðist þess e. t. v. eigi að síður. Fjvn. er búin að hafa fjárlfrv. til meðferðar í heilan mánuð, og vel það, og sannast að segja er árangurinn af starfi n. næsta hörmulegur, það sem af er. Ég geng að vissu leyti út frá því, að n. hafi í pokahorninu þangað til við 3. umr. eitthvað merkilegra en enn er komið í ljós, — en það, sem birzt hefir í frv. formi, er langt frá því að vera ánægjulegt, þótt þar séu ýms atriði, sem ég get fylgt og e. t. v. verða til bóta. En margt er þar, sem ekkert kemur þessu máli við. Aðalatriðið, hvernig á að koma þessu tvennu saman, útgjöldum og tekjum, er óleyst ennþá. Ég veit, að hér er við meiri erfiðleika að stríða vegna óvissunnar, sem fyrir dyrum er, en ég hefði samt kosið, að ekki hefði snúizt svo óheppilega, að allar umr. í dag skyldu verða um þessa litlu till. mína, og þar með dreifa athyglinni frá kjarna málsins, hvernig eigi að fara að því að afgr. tekjuhallalaus fjárlög fyrir næsta ár.