08.12.1939
Sameinað þing: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (1015)

1. mál, fjárlög 1940

*Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Ég get ekki látið hjá líða að svara með örfáum orðum því, sem fram hefir komið í þessum umr. Hv. 11. landsk. hóf sína ræðu á því að kvarta um, að ræður manna skyldu ekki hafa beinzt að afgreiðslu fjárlfrv., bjargráðum þjóðarinnar og öðru slíku fremur en einni smátill. á þskj. 409. Nú var opin leið fyrir þennan hv. þm. að koma með veigamikil atriði varðandi afgreiðslu fjárlfrv., benda á leiðir til að bæta vinnubrögð og framkvæma frekari sparnað en fjvn. hefir en gert till. um, — en mestur hluti hans ræðutíma fór einnig í að ræða þessa sömu smátill., sem hann vítti aðra svo mjög fyrir að minnast á. Ég ætla ekki að fara að kvarta yfir því hér, hvorki fyrir mína hönd eða meðnm. minna, þótt okkur sé haldið á fundum allan daginn, frá því á morgnana og þangað til um miðnætti, en ef fjvn. verðskuldar frá þm. samskonar ummæli og þessi hv. þm., sem jafnframt er skrifstofustjóri í fjmrn., lét sér um munn fara, að þegar n. legði fram árangur starfa sinna eftir mánaðar setu, þá væri hann næsta hörmulegur, þá vildi ég leggja til, að ég og meðnm. mínir fengjum frí og aðrir þm. tækju við af okkur. Ég tel, að þessi ummæli hv. þm. hafi verið órökstudd og í fyllsta máta óverðskulduð. Hann hefir sennilega ekki veitt því athygli, að þegar ég gerði grein fyrir störfum n., og það allskilmerkilega að mér fannst, þá gat ég þess, hvers vegna n. hefði ekki lagt fram brtt. sínar við tekjubálkinn. (MG: Ég var ekki inni.) Ég hygg, að það hefði kannske verið betur ómælt, sem hv. þm. sagði, og honum hefði verið sæmra að víkja sér eitthvað að því, sem hann var að tala um að hefði þurft að gera, að koma með till. um sparnað á fjárl.

Ég ætla ekki að tína upp þau rök, sem hv. þm. hafa komið hér með til að sýna, að fjvn. væri ekki fær um að koma með till. til sparnaðar. En ég vildi þá biðja þá hv. þm., sem þannig hafa talað, að koma með till. til sparnaðar, sem ekki koma í bága við framleiðsluna í landinu og samþ. verða af Alþ. Nefndin leggur hér til rúmlega einnar millj. kr. sparnað, en þetta er að hálfu leyti tekið aftur án þess að n. fái við nokkuð ráðið, sem stafar af gengisbreyt. síðastl. vor, og er það því rúmlega hálf millj. kr., sem þannig fer í vaxtagreiðslu og kostnað við utanríkismál.

Um þetta hefi ég ekki fleiri orð, en hv. 11. landsk. hefir látið þau orð falla, að það verður hnippt í hann um að koma með brtt. til sparnaðar fyrir 3. umr. Og nú sjáum við, hvað setur. Hv. þm. hefir að vísu bent á ýmsa liði í fjárl., en hann veit vel, að ekki er hægt að framkvæma verulegan sparnað á þeim liðum. Og ég hygg, að hann hafi bent á þá meira til málamynda en að hann tryði því, að hægt væri að skera þá niður. Svo ætla ég aðeins að víkja örfáum orðum að þeirri brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 409, og mér fannst koma fram einkennilegar skoðanir þar hjá hv. þm.

Ég hygg, að menn geti verið duglegir og ágætir þm., þótt þeir séu hvorki neinir sérstakir bókmenntamenn eða listamenn, og ennfremur að kjósendurnir velji þá ekki með tilliti til sérstakrar þekkingar á því sviði, heldur fyrst og fremst frá mörgum öðrum sjónarmiðum.

En það hefir verið kosin n. eða ráð, sem kallast menntamálaráð, alveg sérstaklega með tilliti til þess, að þeir menn hafi vit á listum og bókmenntum. Og mér finnst svo barnalegt að byggja þessi mótmæli gegn þessari formbreytingu á því, að þeir menn, sem nú starfa í menntamálaráði, séu ekki færir um að gegna sínu starfi og ekki treystandi til að úthluta óhlutdrægt. Ég segi þetta beinlínis af því, að það hafa fallið orð í mín eyru á þann veg. En við getum bætt úr því á þessu þingi, kannske mjög bráðlega, með því að kjósa nýja menn í menntamálaráð, og sú kosning myndi þá sýna vilja þeirra flokka, sem nú ráða á Alþ. Og auðvitað yrðu þeir menn þá kosnir í það menntamálaráð einnig með tilliti til þekkingar í bókmenntum og listum, og þá liggur það augljóst fyrir, að sá styrkur, sem úthlutað er úr ríkissjóði, sé í höndum slíkra manna. — Ég ætla svo ekki að fara að rifja upp það, sem fram hefir farið hér áður á Alþ., ég vil vera alveg laus við það. Hv. þm. S.-Þ. gaf skýringu á því, hvers vegna hann vildi ekki taka þátt í þeim skrípaleik hér á þingi. Mér þótti undarlegt að heyra það af vörum hæstv. fjmrh., að með þessari formbreytingu væri verið að taka fyrir kverkarnar á lífinu, eins og hann orðaði það. Ég fæ ekki séð, að það liggi nein rök í þeim orðum. Því hvers vegna getur slík n. eða ráð, sem þannig er kosið, ekki verið eins fært um að hafa slíka úthlutun með höndum eins og því er falin úthlutun stúdentastyrksins? Hv. þm. vita, að fyrst var sú úthlutun í höndum margra manna, en síðan var féð veitt í heild og falið menntamálaráði til úthlutunar.

Ég hygg, að það verði alltaf skiptar skoðanir manna um það, hverjir séu þeir verðugu að fá slíka styrki, en ég er hissa, að nokkur hv. þm. skuli halda því fram, að það sé ekki einmitt fullkomið form að velja sérhæfa menn til þessa starfs, heldur en þm., sem ekki, a. m. k. ýmsir þeirra, hafa sérþekkingu í þessum efnum, enda þótt þeir leysi sitt hlutverk vel af hendi sem fulltrúar fyrir sína kjósendur.