08.12.1939
Sameinað þing: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (1019)

1. mál, fjárlög 1940

*Ísleifur Högnason:

Hér eru ýmsir liðir, sem ég vil hreyfa, sérstaklega einn, sem ég vil leyfa mér að spyrja hv. frsm. um. Það er landhelgisgæzlan. Undanfarna daga hafa komið áskoranir frá Vestmannaeyjum um, að hún yrði ekki minnkuð frá því, sem nú er. Hér er gert ráð fyrir. að þessi liður verði aðeins 400 þús. kr. Því var jafnframt lýst yfir af hv. frsm., að þessi liður hefði orðið 800 þús. kr. á árinu, sem er að líða. Ég vil fá grg. fyrir því, á hvern hátt hv. fjvn. hugsar sér,. að þessum 400 þús. kr. verði varið.

Annars verð ég að segja um þessi fjárl., þar sem þegar er orðin 25–30% gengislækkun, að ef tilsvarandi útgjaldaliðir eru ekki allir hækkaðir sem þessu nemur, þá er enginn vafi, að fjárl. verða mjög fjarri því, sem útkoman mun sýna. Ef tollskráin verður samþ. í því formi, sem hún hefir nú, þá verða óbeinir skattar miklu hærri en gert er ráð fyrir í fjárlfrv. Nú hafa komið erindi til þingsins, sem sýna, að ýmsar tollvörur hafa hækkað um allt að 75%. Ég veit ekki, hvort þetta er meðaltal, en ef á að ganga frá fjárl. eins og útlit er fyrir að gert verði, þá er enginn vafi, að þau komast ekkert nálægt því að sýna mynd af reikningunum, þegar þeir liggja fyrir. Ég vil taka þetta fram strax, vegna þess að það hlýtur að vera, að n. hafi komið auga á þetta, og það er víst, að ef útgjaldaliðum fjárl. verður ekki stórkostlega breytt, þá verða fjárl. mjög fjarri lagi.

Ég sé, að 25. liðurinn er tekinn aftur til 3. umr. Er þar lagt til að minnka stórlega framlag til verkfærakaupasjóðs, eða úr 60000 niður í 25000 kr. Það er ekkert vit í að lækka þennan lið. Ég álít, að þyrfti að hækka hann, en ekki lækka. Ef nokkur alvara er á bak við allt það, sem sagt er um, að jarðrækt beri að auka að miklum mun, þá er ómögulegt, að það geti samrýmzt því að lækka styrkinn til verkfærakaupa og afnema styrkinn til áburðarkaupa. Í raun og veru á að hækka þessa styrki að miklum mun, ef fyrirsjáanlegt er, að innflutningur minnki mikið eða stöðvist með öllu. Nú er ekki útlit fyrir það, og þá er enginn vafi, að tolltekjur ríkissjóðs aukast geysimikið.

Ég ætla að láta þessar aths. nægja. Ég vona, að hv. frsm. svari því, hvernig hann hefir hugsað sér, að þessum 400 þús. kr. til landhelgisgæzlu verði varið, og hvort eigi að byggja á því, að erlend fiskiskip stundi litið veiðar við strendur landsins á næsta ári, þó að eitthvað hafi dregið úr því nú í haust.