08.12.1939
Sameinað þing: 17. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (1020)

1. mál, fjárlög 1940

*Fjmrh. (Jakob Möller) :

Það tekur því varla að lengja mikið umr. um þetta. Ég vil samt vekja athygli á, að það var misskilningur, sem gerði vart við sig bæði hjá hv. frsm. og eins hv. formanni fjvn. viðvíkjandi því, að nú væri um það deilt í sambandi við þessa till. á þskj. 409, hvort útgjöld fjárl. ættu að vera hærri eða lægri. Það er ekki það, sem um er að ræða. Að vísu er lagt til, að allir þeir menn, sem eru á þessum lið 18. gr., verði þar áfram, en eftir því sem ég skil þessa till., þá er það aðeins grundvallarreglan, sem till. er stíluð til. Grundvallarreglan er sú, að ef menn vilja spara á þessum lið, þá ákveði þingið það, og ef þessi till. er samþ., þá er hægt að koma fram slíkum sparnaði við 3. umr. Það er því misskilningur hjá hv. frsm. og formanni fjvn., að með þessari till. sé verið að leggja stein í götu þess, að hægt sé að koma sparnaði við á fjárl.

Það er einnig misskilningur, sem kom sérstakstaklega fram hjá hv. formanni, að ég hafi haldið fram, að þessi nýbreytni við fjárl. mundi stöðva lífið. Það er þveröfugt. Ég sagði, að hún mundi ekki stöðva lífið, hún megnaði það ekki. Lífið mundi halda áfram, eins og hv. formaður sagði í fyrri ræðu sinni, og þingið mundi ekki losna við að taka afstöðu til slíkra styrkveitinga. Hv. frsm. sagði, að þetta hefði tekizt mjög vel með stúdentastyrkinn, en ég tók það dæmi einmitt sem sönnun þess, að ekki hefði tekizt að stöðva lífið þarna. Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að listi fjárl. yfir stúdenta, sem njóta styrks, liti öðruvísi út eftir að fyrirkomulaginu var breytt og styrknum úthlutað utan við fjárl., en við losnum samt sem áður ekki við þetta.

Viðvíkjandi því, sem hv. form. sagði um fyrirkomulag viðvíkjandi gömlum verkstjórum, þá geri ég ráð fyrir, að það geti eins haldið áfram. Ég hefi a. m. k. séð einn verkstjóra í fjárl., sem ekki hefir getað komizt að hjá vegamálastjóra, og eins getur orðið með fleiri. En aðalatriðið er þetta, að það, sem um er deilt í þessu sambandi, er ekki eyðsla eða sparnaður, heldur grundvallarreglan um, hvernig eigi að haga þessari fjárveitingu.