28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (1031)

1. mál, fjárlög 1940

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Út af þeirri yfirlýsingu, sem hæstv. forseti hefir lesið upp, og þeirri breyt., sem á að gera nú frá þeirri venju að útvarpa eldhúsumr., vil ég leyfa mér fyrir hönd Sósíalistafl. að lesa upp mótmæli gegn þessari aðferð stjórnarfl., að leyfa ekki slíkar útvarpsumr.:

„Við undirritaðir alþingism. mótmælum þeirri fyrirætlun stjórnarflokkanna á Alþingi að hindra, að útvarpað verði umræðum um ríkisstj. og starf hennar („eldhúsumræðum“). Við lýsum þetta brot á þingsköpum og þar með landslögum, framið í því skyni að hindra gagnrýni á störf og stefnu ríkisstj. og svipta þar með landsmenn löglegum og hefðbundnum rétti. Við álítum þetta lagabrot vera enn eitt skref ríkisstj. í áttina til þess að brjóta niður þingræði og lýðræði í landinu og skorum á stjórnarflokkana að mæta oss til að ræða stjórnarstefnu þeirra og gerðir í útvarpinu.

Alþingi, 28. des. 1939.

Brynjólfur Bjarnason. Ísleifur Högnason. Einar Olgeirsson.“

Þessa yfirlýsingu vil ég leyfa mér að afhenda hæstv. forseta um leið og ég tek nokkuð nánar til máls gagnvart þessari yfirlýsingu frá formönnum þingfl. Ég vil þá fyrst og fremst vitna í 51. og 53. gr. þingskapa Alþ. Í 51. gr. eru fyrirmæli um, hverju skylt sé að útvarpa. Þar segir: „Útvarpa skal þingsetningu og þinglausnum. Þá skal og útvarpa framsöguræðu fjmrh. um frv. til fjárl. og, ef óskað er, hálfrar stundar ræðum af hálfu annara þingfl., enda hefir fjmrh. þá og rétt til stundarfjórðungs svarræðu.“ Þá segir í 53. gr.: „Við framhald 1. umr. fjárl. mega ræður í fyrstu umferð vara eina stund, en síðan hálfa stund þrjár umferðir, og enn aðrar þrjár stundarfjórðung. Skal þá útvarpi umr. um fjárl. að fullu lokið. Sama regla gildir um útvarp umr. um vantraust.

Það er umferð, þegar fulltrúar allra þingfl. hafa tekið til máls og þeir þm. utan flokka, sem þátt taka í umr.

Það hefir verið lagður sá skilningur í þessi l. um útvarpsumr. og einnig almennur vilji fyrir því, að þær skuli fara fram við aðalumr. fjárl. Þarna er farið á bak við þingsköp, sem eru l., og ef ætti að fara að snúa út úr þeim á þennan hátt, sem þessir formenn þingfl. gera með þessi l., þá býst ég við, að snúa mætti út úr öllum l., sem sett hafa verið hér á landi. Því þegar l. eru sett, þá er fyrst og fremst gengið út frá anda l., sem þau eru sett í, og því næst bókstafnum. Ég álít, að þetta sé það skýrt, að þetta sé ekki mögulegt nema með því að brjóta bókstaf laganna. Enda viðurkenndist það í því skjali, sem hæstv. forseti las upp frá formönnum þingfl., að það hefði verið síður, og það meira að segja dýrmætur síður, að útvarpa eldhúsumr.

Í sambandi við það, að nú er ákveðið að fella niður útvarp við þessar eldhúsumr. og með því að brjóta þingsköp og l., þá er rétt að athuga, hvaða ástæður hafa verið til þess að beita slíkum aðferðum nú. Það, sem verið er að gera með því, að fella niður útvarpsumr., er það, að verið er að hindra það, að Sósíalistafl. gagnrýni gerðir og stefnu stj., og fara inn á þá braut, sem alltaf hefir verið fordæmd hér á landi, að kæfa niður þær raddir landsmanna, sem fram kunna að koma á hverjum tíma. Ég veit, að það búa allt aðrar ástæður á bak við þessa yfirlýsingu stjfl. heldur en þeir koma fram með. Þeir vilja ekki, að Sósíalistafl. gefist tækifæri í útvarpi til þess að benda landsmönnum á, hvernig vinnubrögðin hafa verið hér á hæstv. Alþ. og hvaða einræðisvald lýsir sér í þeim. Þeir hafa hvað eftir annað reynt að stimpla okkur þm. Sósíalistafl. sem landráðamenn. Nú vil ég segja, að svo framarlega sem hugur fylgir máli, þá ættu þeir að mæta okkur í útvarpinu — þeim ætti líklega að vera það óhætt, þar sem þeir myndu hafa 4–5 sinnum lengri ræðutíma en við — og sýna fram á, að þau mál, sem afgr. hafa verið hér á Alþ., hafi verið leyst á þann hátt, sem þeir hafa lofað sínum kjósendum. En ef þeir sinna ekki þessum áskorunum um að mæta okkur í útvarpinu, sannar það bezt, að núv. ríkisstj. óttast gagnrýni og vill hindra hana með hvaða ráðum sem er, enda þótt hún verði að grípa til að brjóta l. og þingsköp og brjóta anda þingræðisins og alla þá venju, sem hér hefir tíðkazt. Hæstv. ríkisstj. óttast í þessu sambandi að koma fram fyrir þjóðina og ræða þessi mál, af því að hún veit, að meiri hl. þjóðarinnar er andstæður þessari leið. Ég skal t. d. minnast á Rauðkumálið; það var í því máli, sem einn ráðh. tók sér það vald, að neita bæjarstj. Siglufjarðar um að reisa síldarverksmiðju, enda þótt þessi bær gæti fengið nóg fé og lán án ríkisábyrgðar. Hæstv. ríkisstj. gerði sig þarna seka um að hindra það, að atvinna í landinu ykist. Þegar atvinnuleysið kreppir að í landinu, hindrar ríkisstj. það, að atvinna landsmanna og framleiðsla aukist og útflutningsmöguleikar landsmanna aukist. Þessi framkoma stj. hefir mætt mikilli mótspyrnu meðal fjölda manna, sem annars fylgja ríkisstj. Þess eru fá dæmi, að slík mótspyrna hafi komið fram. Öll bæjarstj. Siglufjarðar, að undanteknum einum fulltrúanum, mótmælti gerðum ríkisstj. í þessu máli.

Sama máli gildir um kaupgjaldsmálin og afstöðu ríkisstj. til þeirra mála. Sama máli gildir og um verkamannabústaðamálið, sem þm, hafa lýst afstöðu sinni móti, og mörg önnur mál, sem við hefðum, svo framarlega sem útvarpsumr. hefðu farið fram, tekið sérstaklega fyrir og sýnt, hvernig hæstv. ríkisstj. hefir komið fram í þeim málum. Þá er það önnur ástæða, sem veldur því, hve ríkisstj. óttast svo mjög þá gagnrýni, sem myndi koma fram, ef útvarpsumr. yrðu leyfðar, vegna þess að margir af stuðningsmönnum stj., meira að segja þm. þeirra, eru mjög andvígir þeim aðferðum, sem ríkisstj. hefir beitt. Hæstv. ríkisstj. er ekki aðeins að hindra gagnrýni Sósíalistafl. gagnvart þessum málum, heldur líka gagnrýni úr stjórnarherbúðunum sjálfum, sem mundi verða á hendur ríkisstj., sem misbeitir sinu valdi eins og henni þóknast. Ég veit, að í staðinn fyrir að mega ræða þessi mál opinberlega, svo sem Rauðkumálin og kaupgjaldsmálin, þá mun eiga að semja um þau á bak við tjöldin og útkljá þau þar. Sérstaklega óttast ríkisstj. þetta vegna þess endurhljóms, sem myndi koma um þetta meðal kjósendanna.

Ég vil mótmæla því, sem hæstv. ríkisstj. hefir komið fram með og formenn stjfl. hafa lýst hér yfir í því skjall, sem hæstv. forseti las upp. Ég álít það misbeitingu valds til þess að kæfa niður gagnrýni á hendur stj.

Ég endurtek áskorun okkar Sósíalistaflþm. til stjfl., að mæta okkur, þó það væri í ríkisútvarpinu utan Alþ., eins og síðast var gert, þegar borið var við, að tíminn væri of naumur, en sem engin yfirlýsing er um nú, eða þá að öðrum kosti á fundi hér í Reykjavík, til þess að ræða gerðir og stefnu stj. eins og hingað til hefir tíðkazt á Alþ.