28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 491 í B-deild Alþingistíðinda. (1037)

1. mál, fjárlög 1940

*Viðskmrh. (Eysteinn Jónsson):

Mér sýnist við lauslega afhugun á þeim till., sem voru til meðferðar við 2. umr., og þeim till., sem nú hafa verið lagðar fram af fjvn., að þær till. til lækkunar, sem hafa bein áhrif á gjaldaliði fjárl. muni nema 500–600 þús. kr. Aðallækkunarliðirnir eru þessir: Til landhelgisgæzlu 100 þús. kr., til strandferða 125 þús. kr., til byggingar- og landnámssjóðs 75 þús. kr., til verkfærakaupasjóðs 35 þús. kr. og til fiskveiðasjóðs 30 þús. kr. Þar fyrir utan er svo lækkunin á styrk til Eimskipafélags Íslands. Ennfremur er lagt til, að framlagið til fiskimálanefndar falli að miklu leyti niður.

Ég vil nú taka það fram við þessa 3. umr. fjárl., að þó Framsfl. fylgi þessum lækkunum og telji réttmætt, að þær séu gerðar, þá ber ekki að líta þannig á, að flokkurinn hafi breytt afstöðu sinni til þessara framlaga til landbúnaðar- og samgöngumála fyrir því. Framsfl. fylgir þessum lækkunum á þessum nauðsynlegu liðum vegna þess sérstaka ástands, sem við eigum nú við að búa, og jafnframt beinlínis vegna þess, að suma þessa liði er hægt að lækka einmitt vegna þess styrjaldarástands, sem skapazt hefir. Ég vil í því sambandi sérstaklega nefna framlagið til landhelgisgæzlunnar. Það hefði vitanlega engum dottið í hug að lækka það framlag, ef ekki væri sterk trú á því, að minni átroðningur verði af hálfu togara en áður. Nokkuð svipað má segja um lækkunina til strandferða. Við erum ekki þeirrar skoðunar, að hægt sé að draga úr þeim, en það er aðeins ætlunin að reyna þetta nú, og þá sérstaklega vegna hins nýja skips, sem við höfum fengið. Um lækkanirnar til byggingar- og landnámssjóðs og verkfærakaupasjóðs er hið sama að segja, að Framsfl. hefir ekki minni áhuga en áður fyrir því, að veitt sé fé til bygginga í sveitum eða til verkfærakaupa, en eins og nú standa sakir, þá lítum við svo á, að ekki sé eðlilegt að ýta undir þessar framkvæmdir í sveitunum, vegna þess hvað erlent efni verður dýrt og hvað mikið er undir því komið fyrir afkomu okkar, að komizt verði hjá því að kaupa erlent byggingarefni. Það eru þessar sérstöku ástæður, sem valda því, að Framsfl. hefir gengið inn á þessar lækkanir til atvinnuveganna og annara nauðsynlegra mála.

Það hefir komið fram í þessu sambandi við afgreiðslu þessa máls áður á þessu þingi, að það er ein meginlína, sem nauðsynlegt er að halda sér á í sambandi við afgreiðslu fjárl., en það er, að ekki sé ýtt undir framkvæmdir, sem hafa í för með sér innkaup á efni frá öðrum löndum, bæði vegna þess, að það þyngir á innflutningnum, og svo vegna hins, að það verður að teljast skaðlegt fordæmi, sem Alþ. gefur, ef það leggur út í slíkar framkvæmdir eins og nú standa sakir. Það er vitað, að ef okkur á að takast að komast sæmilega yfir örðugleika styrjaldarinnar, þá verður að girða fyrir, að menn leggi í framkvæmdir af slíku tægi, ekki aðeins hið opinbera, heldur líka einstaklingar, sem reka atvinnu. Það verður að reyna að koma í veg fyrir, að komið verði upp fyrirtækjum, sem síðar verði myllusteinn um háls manna, þegar verðfallið kemur að stríðinu loknu.

Ég hefi sérstaka ástæðu til að taka þetta fram nú. Ég verð að segja, þó ég ætli ekki að fara að kýta um það, hvort þessar till. eru yfirleift í samræmi við þessa stefnu eða ekki, að ég hefði talið það æskilegt, að ekki hefðu komið frá fjvn. neinar till. í þá átt að veita fé til framkvæmda, sem erlent efni þarf að kaupa til. Ég veit, að flestar till., sem liggja fyrir um framlög til bygginga, hafnargerða og lendingarbóta, standa í sambandi við mannvirki, sem þegar hafa verið reist. Ég vil þó ekki segja, að þessi mannvirki öll eigi nú kröfu til að fá fé úr ríkissjóði, a. m. k. ekki þau, sem ekki hafa verið reist með sérstöku samþykki ríkisstj., en það mun vera svo um einstakar byggingar, sem farið er fram á að veita fé til.

Þó það sé nú svo um margar af till. eins og ég hefi nefnt, þá er það ekki svo um þær allar. Það eru nokkrar, sem fjalla um framlög af því tægi, sem ég hefi talið að forðast eigi, sérstaklega vegna hins slæma fordæmis, sem skapast með því. Þegar meta á, hvað eigi að gera, þá er erfitt að gera upp á milli hinna einstöku óska og beiðna, bæði þegar um það er að ræða að veita fé úr opinberum sjóði og eins þegar farið er að biðja um innflutningsleyfi fyrir vörum, sem til framkvæmdanna þarf. Það er erfitt að draga línu, ef farið er út í að veita fé til alveg nýrra viðauka framkvæmda af þessu tægi.

Þetta vildi ég taka fram, og þá líka vegna þess, að ég sé, að brtt. einstakra þm. eru einnig talsvert um óskir í þessu skyni, sem ef til vill hefði ekki komið fyrir, ef fjvn. hefði alveg getað haldið sér frá að bera fram till. af þessu tægi. — Ég tala um þetta vegna þess, að það snertir sérstaklega mitt verksvið innan ríkisstj., þó það sé í sambandi við afgreiðslu fjárl.

Ég vil sérstaklega benda á í þessu sambandi. að ein till. fjvn. gerir ráð fyrir sérstakri heimild til handa ríkisstj. til að veita fé til byggingar á brimbrjót í Hafnarfirði. Það verður auðvitað ekki mælt á móti því, að þörf er fyrir hann, en mér er sagt, að til þess að geta hafið þessar framkvæmdir, þá muni þurfa að kaupa allmikið af verkfærum frá útlöndum. Ég vil sérstaklega benda á, að mér finnst ekki ástæða til að byrja á slíkum framkvæmdum eins og málum er háttað nú. Ég álit, að það ætti betur við, að samsvarandi upphæð væri veitt í nauðsynlegar vegabætur, sem Hafnfirðingar gætu, ef þeir væru sérstaklega atvinnuþurfa, fengið atvinnu við.

Ég vil auk þess benda á, að nú um mörg ár hefir aldrei verið samþ. heimild til handa ríkisstj. á 22. gr., vegna þess, að þess hefir verið krafizt, að þingið gerði upp við sig á hverjum tíma, hvort þetta fé ætti að nota eða ekki. Það á ekki að setja þetta á vald ríkisstj. Ef henni er veitt heimild til þess að veita þessa upphæð, og hún veitir hana, þá kemur upphæðin ekki á sjálf fjárl., svo þau verða þá röng mynd af því, sem þau í raun og veru eiga að vera. Þessar heimildarupphæðir verða svo að koma fram á ríkisreikningnum sem umframgreiðslur. Hvers vegna ekki að gera það upp á þinginu, hvort á að leggja í þessar framkvæmdir eða ekki? Hvers vegna taka upp á ný þessa aðferð, sem búið var að leggja niður? Ég álít þess vegna, að þessa till, eigi ekki að samþ., bæði vegna þess forms, sem hún er í, og líka af efnislegum ástæðum. Ég vil beina því til fjvn., að ég hefði talið heppilegra, að hún bæri þetta fram sem till. við aðra gr. fjárl., svo það komi þar inn sem fjárveiting, ef till. skyldi verða samþ.

Þá er annað, sem töluvert hefir verið rætt um í sambandi við þessi fjárl. og minnt er á í nál. fjvn., sem ég álít, að sé alveg rétt, en það er sú skoðun, að þó það geti vel farið svo, að einhver verulegur hluti þjóðarinnar, og þá helzt framleiðendurnir og þeir, sem hafa atvinnu við framleiðslutækin, komizt sæmilega af, þá getur það alltaf orðið einhver hluti þjóðarinnar, sem kemst illa af, og vil ég í því sambandi nefna t. d. þá, sem stundað hafa byggingarvinnu. Ég vil benda á, að mér finnst, að till. fjvn. séu ekki í samræmi við þessa skoðun. Ég er hræddur um, að þetta komi að einhverju verulegu leyti í koll á næsta ári, og á ég þar við, að sú atvinna, sem höfð hefir verið til að miðla í stærri bæjunum sunnanlands, er í till. fjvn. minnkuð frá því. sem verið hefir, í stað þess, að hún hefði þurft. eftir öllum líkum að dæma, að standa í stað eða vera jafnvel meiri en áður. Nú er það að vísu svo, að í Rvík verður haldið áfram með hitaveituna, og er það aukavinna frá því, sem verið hefir í fyrra og hitteðfyrra. Við skulum vænta þess, að það fari ekki verr en það, að hún geti að verulegu leyti riðið baggamuninn, sem hlyti annars að verða um atvinnu, miðað við það, sem hefir verið undanfarin ár í Rvík. Þó er undir hælinn lagt, að það verði, ef byggingar hætta að miklu leyti. En Hafnarfjörður nýtur hér ekki neins af.

Ég held því, án þess að ég ætli að flytja um það neina till., að það verði ekki hjá því komizt í framkvæmdinni að bæta eitthvað úr þessu. Ég held að sjálfsögðu, að það hefði verið réttara, til þess að hafa eitthvað víst að halla sér að, að ákveðin upphæð hefði verið veitt í þessu skyni, t. d. til aukinna vegagerða á Suðurlandi eða til þess að búa land undir nýbýli.

Ég ætla svo að bæta því við, að ég tel, að það hefði að sjálfsögðu mátt ganga lengra í að færa niður ýmsa liði, sem kosta erlent efni. Ég verð að vísu að játa, að það er ekki há upphæð, sem hér er um að ræða, en ég sé ekki, að það sé réttmætt að kaupa inn vitaefni fyrir tvöfalt eða þrefalt verð á meðan á stríðinu stendur og reisa fyrir smávita. Ég held, að það væri miklu skynsamlegra að verja þessu fé til vegagerða eða framræslu, með það fyrir augum, sem ég gat um áðan.

Ég vil skjóta því hér fram, að ég tel, að það sé ekki örðugt fyrir fiskveiðasjóð að verða alveg af þeirri upphæð, sem hann hefir fengið úr ríkissjóði, í 1–2 ár og verja henni í þessu skyni.

Ég held, að það hafi ekki verið gert nógu mikið að því að leita uppi þær upphæðir, sem eiga að ganga til framkvæmda, sem kosta efniskaup, og láta þær í framkvæmdir, sem eru eingöngu vinna. Ég held, að þar hefði verið hægt að færa eitthvað til án þess að hækka fjárl. Auðvitað má segja, að þessi skoðun mín skapist vegna þess, að þau atriði, sem ég hefi bent á, hafa í för með sér innflutning erlends efnis, en ég verð að segja það, að ef ríkisvaldið gengur á undan með það, að flytja inn frá útlöndum efni til ýmissa framkvæmda, þá verður erfitt að koma þeirri skoðun inn hjá almenningi, að erfiðleikar séu raunverulega eins miklir í gjaldeyrismálum og af er látið.

Ég hefi að vísu ekki séð síðari hluta brtt. hv. fjvn., en þykist þó vita aðalefni þeirra og mun minnast lauslega á þær nú. Eins og mönnum er kunnugt, hefir verið reynt að fylgja þeirri reglu undanfarið við samningu fjárlaga, að taka tillit til allra þeirra l., sem Alþ. samþ. fyrr en fjárl. sjálf, og einnig þeirra frv., sem vitað er, að samþ. muni verða. Er þetta gert til þess, að fjárl. verði raunverulega sem réttust mynd af tekjum og gjöldum þess tímabils, sem þau gilda fyrir.

Nú hafa hér á þessu þingi verið samþ. ýms l., og önnur á að samþ., án þess að till. hafi komið fram um breyt. á fjárl. í samræmi við þau útgjöld, er af þessu leiðir, Ég vil fyrst nefna sem dæmi frv. það um framfærslumálin, er fyrir liggur og afráðið mun, að nái fram að ganga. Samkv. þessu frv. virðist mér, að gera megi ráð fyrir tvennskonar útgjöldum: Fyrst og fremst þeim, sem stafa af starfi þeirrar þriggja manna n., sem gert er ráð fyrir, og þeirri aðstoð, er hún kann að þurfa við störf sín. Það er auðsætt, að störf þessarar n. munu verða nokkuð umsvifamikil, og óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir kostnaði við þau í fjárlögum.

Í framfærslulagafrv. er gert ráð fyrir, að ríkissjóður taki ábyrgð á greiðslum, sem sveitarfélög leggja út vegna þurfamanna, er sérstaklega stendur á um og dvelja í öðru sveitarfélagi en sínu eigin. Eftir því sem ég þekki til innheimtu þeirra gjalda, er ríkissjóður hefir orðið að leggja út til bráðabirgða fyrir bæjar- og sveitarfélög, þá mun erfitt reynast að fá þau greidd. Er óhætt að gera ráð fyrir, að ávallt tapist nokkur fjárhæð hjá ríkissjóði vegna slíks fyrirkomulags. Hitt má reyndar telja álitamál hvort rétt er að taka í fjárlög áætlunarupphæð vegna þessa, þar sem það kynni að örva hlutaðeigendur til óskilsemi, en ég tel þó rétt að beina því til fjvn. að athuga þetta mál.

Þá hafa verið samþ. hér íþróttalög. Nú segir í þeim, að útgjöld þeirra vegna fari eftir ákvörðun fjvn. og Alþ. í hvert sinn, en ég hygg þó, að þegar í stað eigi að skipa svokallaðan íþróttafulltrúa, er launist úr ríkissjóði. Hinsvegar hefir ekki verið gert ráð fyrir slíkri greiðslu í fjárlagafrv.

Einnig hafa verið afgr. hér l. um héraðsskóla, sem mæla svo fyrir, að ríkissjóður skuli greiða ¾ hluta af stofnkostnaði skólanna, — ekki einungis þeirra, er hér eftir verða reistir, heldur á ríkissjóður að taka að sér ¼ hluta stofnkostnaðar þeirra skóla, sem þegar hafa verið byggðir, til viðbótar við helming stofnkostnaðarins, sem þegar hefir verið greiddur samkv. gildandi l. um þetta efni. Mér er sagt, að kostnaðurinn af þessu verði um 350–400 þús. kr. Er ríkissjóði ætlað að yfirtaka skuldir héraðsskólanna, er nema þessari fjárhæð. Skilst mér, að ætlunin muni vera að færa þessar skuldir yfir á ríkissjóð á næsta ári. Það getur auðvitað orðið álitamál, hvort þessar 350 eða 400 þús. kr. eiga að færast sem útgjöld í fjárl., en ég vil benda fjvn. á að athuga það mál einnig. Auk þessa virðist mér héraðsskólalögin nýju hafa í för með sér um 15 þús. kr. hækkun vegna hækkaðra rekstrarstyrkja. Þá á einnig að greiða um 10–12 þús. kr. til þeirra, þegar hafin verður verkleg kennsla í skólunum. Hvað sem þessu liður, þá vil ég minna á, að óhjákvæmilegt virðist að taka upp í fjárl. greiðslur umfram það, sem verið hefir, vegna héraðsskólanna, án þess þó að þeir geri nokkrar breytingar hjá sér.

Það er ómögulegt að spá nokkru um það, hvernig útkoman muni verða í reyndinni á þessum fjárl., en búast má við því, að vegna þeirrar verðhækkunar, sem orðin er og e. t. v. á eftir að verða meiri, þá verði bæði tekju- og gjaldaliðirnir hærri en reiknað er með nú, sérstaklega ef allt gengi sæmilega. Um þetta er sem sagt engu hægt að spá. En það eru tvö atriði, sem ég er hræddur við og snerta útgjaldahliðina. Ég tel, að erfitt verði að komast hjá einhverjum launabreytingum, sem valda munu ríkissjóði útgjöldum, og hinsvegar að erfitt verði að komast hjá að leggja meira fé til þess að hamla á móti atvinnuleysinu, ef það skyldi verða miklum mun meira en áður. Vegna þess mikla framfærsluþunga, sem vofir yfir bæjunum, er nauðlegt að gera ráðstafanir til þess, að unnt verði að koma atvinnulausu fólki á einhvern hátt inn í framleiðsluna. Er sjálfsagt að láta heldur vinna nauðsynlegar framkvæmdir heldur en halda í fólki lífinu með fátækrastyrkjum. Það eru þessi tvö atriði, launagreiðslur og atvinnuleysisframlag, sem ég óttast, að muni verða að veita meira fé til.