28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í B-deild Alþingistíðinda. (1041)

1. mál, fjárlög 1940

*Frsm. (Bjarni Bjarnason) :

Mér finnst rétt, að ég segi aðeins örfá orð um þær brtt. fjvn., sem útbýtt hefir verið nú á þessum fundi. Um þær brtt., sem snerta tekjuliðina, get ég verið mjög stuttorður. Hv. þm. gera ef til vill einhverjar aths. við þessar till., og er þá tími til að rökræða þær nánar, en ég vil geta þess, að þær eru allar bornar fram í samráði við hæstv. fjmrh. og viðskmrh. Og ég hygg, að það sé óhætt að segja, að svo framarlega sem sæmilegt ástand verður í verzlunarmálum, þá muni þessi áætlun vera nokkuð varleg. Ég skal þá snúa mér að einstökum till.

14. till. er um vaxtagreiðslur vegna læknisbústaða og skýrir sig raunverulega sjálf. — 15.–19. till. eru um nokkrar hækkanir á framlögum til vega, sem að nokkru leyti voru ekki nægilega vel athugaðar hjá fjvn. og koma þess vegna ekki fram fyrr en nú. — 20. till. er um kennarabústaði, og hefi ég gert grein fyrir þeirri till. í fyrri ræðu minni í kvöld. — 21. till. er um lækkun tillagsins til sundlaugar á Eiðum um 5000 kr. — 22. till. er um fjárveitingu til Snorragarðs, bæði til vinnu við að gera garðinn og eins í sambandi við væntanlegt minnismerki Snorra. — 23. till. er um 5000 kr. fjárveitingu til rafveitu á Hallormsstað. Verkið er þegar unnið, en á því hvílir nokkur skuld. — 24. till. er um styrk til dýralækninga. Í fjárl. fyrir 1939 var styrkur til nokkurra manna í þessu skyni, en nú leggur n. til, að þetta sé veift í einu lagi, en hefir samþ., að þessi upphæð skuli skiptast þannig:

Hólmgeir Jensson

400 kr.

Guðmundur Andrésson

400 —

Ágúst Jónsson, Hofi

300 —

Halldór Jónsson

300 —

Eggert Magnússon

200 —

Brandur Einarsson

150 —

Ólafur Guðmundsson

150 —

Valdímar Stefánsson

150 —

Til dýralækninga í Vestmannaeyjum .

500 —

Samtals

2250 kr.

25. till. þarf ekki skýringa við. N. telur rétt, að þetta verk verði eftirleiðis framkvæmt af vegamálastjóra. — Þá er 26. till. Það lá að vísu fyrir n. till. um að borga í þessu skyni 180000 kr., en við nánari athugun taldi n. að 160000 kr. myndu nægja. — 27. till. er um eftirlaun Þórðar Sveinssonar yfirlæknis, sem lætur nú af störfum. — 28. till. þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því, að brtt. á þskj. 587,117 er jafnframt tekin aftur. — 29.–30. till. þurfa ekki skýringa við. — 31.–32. till. eru vegna afborgana af lánum. Hækkunin stafar af gengisbreytingunni. — 33. till. hefir hæstv. viðskmrh. skýrt. og hleyp ég því yfir hana. — 34. till. er um að heimila síldarverksmiðjum ríkisins að kaupa síldarverksmiðjuna á Húsavík. Síldarverksmiðjan á Húsavík hefir starfað í tvö sumur og í bæði skiptin verið leigð stjórn síldarverksmiðja ríkisins. Fyrra árið varð dálítið tap á rekstrinum, sem stafaði aðallega af því, að bilun kom fram í vélunum, sem verktaki bar ábyrgð á og mun bæta að mestu eftir dómi. Nú í sumar varð mikill gróði á verksmiðjunni. Það má telja beggja hag, að ríkið eigi þessa verksmiðju. Síldin liggur mjög á Skjálfandaflóa, og hinum minni skipum, sem veiða þar og á Axarfirði, þykir hentugt að geta affermt á svo nálægum stað. Húsavík verður í framkvæmd nokkurskonar viðbót við Raufarhöfn og mikil hjálp fyrir vélbátaflotann. Á hinn bóginn er erfitt að starfrækja litla sjálfstæða verksmiðju á Húsavík, mitt á milli hinna stóru ríkisfyrirtækja á Siglufirði og Raufarhöfn. Í framkvæmdinni mun þessi verksmiðja jafnan verða falin umsjá ríkisverksmiðjanna um allan rekstur, þar til hún verður keypt. Meiri hluti verksmiðjustj. er hlynntur kaupunum, af þeim ástæðum, sem nú hafa verið færðar fram; auk þess er það vitað, að hús og vélar verksmiðjunnar á Húsavík er mjög vandað og reksturinn í sumar hefir gefizt ríkisverksmiðjunum alveg sérstaklega vel. — 35. till. er heimild til ríkisstj. um að lækka útgjöld ríkissjóðs um allt að 20% eftir jöfnum hlutföllum milli einstakra fjárveitinga. Þetta er vitanlega gert með það fyrir augum, að tekjur ríkissjóðs kunni að lækka af völdum styrjaldarinnar. — 36. till. er um heimild fyrir ríkisstj. til að láta fullgera þjóðieikhúsið, þannig að hægt verði að nota það fyrir geymslu undir þjóðminjasafnið. Hæstv. viðskmrh. hefir mælt kröftuglega gegn þessari till., og það vissulega með rökum að því leyti, að það er vitanlega nauðsynlegt að spara sem mest kaup á erlendu efni, og get ég að því leyti verið honum samdóma, en við verðum þó að hafa það hugfast, að geymslan á fornminjasafninu, sem nú er, er alveg óforsvaranleg. Þetta merkilega safn er geymt í timburhúsi á efsta lofti og myndi því geta eyðilagzt af völdum elds á einum eða tveimur klukkutímum, og ef svo óheppilega vildi til, þá myndi enginn landsmanna, og sízt nokkur alþm., hafa viljað standa á móti því, að safninu væri komið fyrir á þeim stað, sem það væri öruggt. Þetta verða hv. þm. að gera upp við sig um leið og þeir greiða atkv. um þessa till. — 37. till. er um það, að veita stjórn síldarverksmiðja ríkisins heimild til að lána af handbæru fé verksmiðjanna 200000 kr. til að gera veg yfir Siglufjarðarskarð eða tengja Siglufjörð við Skagafjörð, og hinsvegar að tengja Raufarhöfn við framleiðslusvæðin þar í kring. Ég geri ráð fyrir, að það verði skiptar skoðanir um þessa till., en það er vissulega talsvert viðurhlutamikið að inniloka alveg slíka staði og þessa, sérstaklega Siglufjörð, þar sem vinna um 12000 manns yfir sumartímann. Það myndi vissulega verða allt annað viðhorf fyrir Siglufjörð, ef hann kæmist í samband við jafnblómlegt hérað og Skagafjörð. Annars er allýtarleg grein gerð fyrir þessari till. í framhaldsnál. fjvn., og skal ég því ekki hafa um hana fleiri orð.