28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 518 í B-deild Alþingistíðinda. (1045)

1. mál, fjárlög 1940

Pálmi Hannesson:

Herra forseti! Ég flyt hér eina brtt. á þskj. 619, og felur hún í sér heimild fyrir hæstv. ríkisstj. til að greiða Páli Sveinssyni yfirkennara við menntaskólann í Reykjavík full laun, ef hann lætur af embætti á árinu 1940. En jafnframt verði það skilyrði sett, að hann vinni að því að fullgera frakkneskíslenzka orðabók, sem hann hefir í smíðum. Mér þykir rétt að fylgja þessari till. með nokkrum orðum, enda þótt ég geri ráð fyrir, að hér muni menn una öðru. betur en löngum ræðum. Eins og mörgum er kunnugt, sem sæti eiga hér á hinu háa Alþ., hefir Páll Sveinsson verið starfsmaður ríkisins og unnið að kennslu um mjög langan tíma, samtals yfir 30 ár. Hann er nú nokkuð tekinn að reskjast, því að hann er kominn yfir sextugt, og hefir hin síðari ár gengið allt annað en heill til skógar, og margoft verið sárlasinn. Það er óhætt að segja það, að Páll Sveinsson er einn af mætustu mönnum, ekki aðeins í hópi þeirra, sem nú starfa að kennslu, heldur líka þeirra, sem hafa starfað að kennslu við menntaskólann um mjög langan tíma. Ég veit það, að enginn maður er jafnfullkomlega öruggur hvað snertir skyldurækni og stundvísi sem Páll Sveinsson. Ég veit það ákaflega vel, að mjög oft hefir hann átt drjúgum erfitt, því að hann ver öllum stundum til þess að rækja eitthvert starf. Í almanaki Páls Sveinssonar eru hvíldardagar ekki til, því að auk erfiðra kennslustarfa hefir hann unnið í mörg ár að undirbúningi frakknesk-íslenzkrar orðabókar. Það er mikið verk, og miklu meira verk heldur en öllum þorra manna er títt að trúa. Ég vil í því sambandi minna hv. þm. á starf, sem er mjög viðurkennt, og að verðleikum, sem sé starf dr. Jóns Ófeigssonar, er hann lagði í sína þýzk-íslenzku orðabók, og þá miklu vinnu, sem hann lagði í sitt starf. Okkur hefir lengi vantað frakknesk-íslenzka orðabók. Ég hygg, að á síðari árum hafi allmikið færzt í það horf, að Íslendingar leiti eftir kynnum við franska tungu og menningu meira en áður, og ég hygg líka, að í þá átt muni stefna allhraðfara á næstu árum, og ber margt til þess. Ég vil ennfremur geta þess, að fyrir utan þessi störf, sem ekki er mjög mikið á lofti haldið, vegna þess hve Páll Sveinsson er hlédrægur maður hefir hann unnið manna mest að því að efla kynningu, samúð og samband milli hinnar frönsku menningarþjóðar og okkar Íslendinga. Ég gæti lagt fram mörg vottorð og umsagnir um það, hve hann nýtur óvenju mikils álits og vinsælda meðal allra þeirra manna, sem starfa að því að styrkja menningarlegt samband milli þessara tveggja þjóða. Síðastl. vor kom Páll Sveinsson að máli við mig og færði það í tal, að sig fýsti að láta af störfum við skólann. Hann sagðist finna, að árin liðu fyrr en varði, og heilsa sín væri alls ekki eins sterk og hún hefði verið. Hann sæi fram á, að mikið verk væri óunnið við frakknesk-íslenzka orðabókina, og vafasamt hvort hann gæti lokið því á þeim tíma, sem hann ætti eftir af sinni starfsæfi. Ég sagði, að ég gæti ekki sett mig á móti því, að hann hyrfi frá skólanum, enda þótt mér væri ákaflega örðugt að sjá af honum frá skólanum, vegna þess hve verk hans væri mikils virði, ekki aðeins við kennsluna, heldur einnig fordæmið, traustið og öryggið, sem verk hans og persónuleg framkoma sköpuðu um stofnunina. Það er öllum ljóst, hve skarð hans er vandfyllt. Þess vil ég einnig geta hér, að mér er það ekki nauðungarlaust að sjá á bak slíkum kennara og starfskrafti, en þó skil ég mæta vel hina aðkallandi þörf Páls Sveinssonar að fá lausn frá embætti. Ég tel mér undandráttarlaust skylt að fylgja því fram með þeim ráðum, sem ég ræð yfir. Ég ætla svo ekki að fjölyrða meira um þetta og vona, að hv. þm. skilji það. Það virðist vera eins og ástatt er nauðsynlegt að leysa hann frá embætti og leyfa honum að binda enda á orðabókarstarf sitt, ef á annað borð á að hverfa inn á þá braut, að meta nokkurs vel unnin verk og gjalda trúrra þjóna störf og verðlauna þau, þó að seint verði það gert að maklegleikum.

Á þskj. 637 eigum við, ég og hv. 2. þm. Skagf. (StgrSt), eina brtt., sem fer í þá átt, að hækkaður verði styrkur til flóabáta og sú hækkun gangi til Skagafjarðarbátsins, eða þess báts, sem heldur uppi ferðum milli Sauðárkróks og Siglufjarðar. Það mun öllum hv. þm. vera kunnugt, að Skagafjörður er einkennilega einangrað hérað. Hann nýtur ekki þeirra samgangna á sjó, sem Eyjafjörður verður aðnjótandi, og ekki þeirra samgangna á landi, sem Húnavatnssýsla hefir. Það er að vísu búið að koma þar upp álitlegri höfn, en hinsvegar ber á það að líta, að millilandaskip hafa ekki hingað til fengizt til þess að sigla þangað, og er sú höfn því ekki neitt verulegt ráð til þess að uppfylla eins og nauðsynlegt er samgönguþörfina né bæta úr samgöngunum. Því miður hafa um lengri tíma verið mjög erfiðar samgöngur frá Sauðárkróki og Hofsósi út til Siglufjarðar, og eins og flestir hv. þm. vita, eru nú starfandi kaupfélög bæði á Sauðárkróki og Hofsósi, og eiga þau allmikinn markað á Siglufirði yfir síldveiðitímann, og það hefir verið svo um nokkur undanfarin ár. Báðum félögunum er því nauðsynlegt að hafa öruggar samgöngur við Siglufjörð; auk þess er þar svo háttað mestan hluta ársins, að menn, sem þurfa að ferðast á sjó til Skagafjarðar, verða fyrst að fara til Siglufjarðar og þaðan til Sauðárkróks eða Hofsóss. Þess vegna verður að reyna að halda uppi ferðum, er geta sameinað þetta hvorttveggja, vera vel fallnar til fólksflutninga, en gætu líka flutt vörur, þótt það væri ekki mikið. Fyrir nokkrum árum leit út fyrir, að það gæti orðið að verulegu gagni, að báturinn annaðist heyflutninga frá Skagafirði til Siglufjarðar, en því miður atvikaðist það svo, að hinn grimmi vágestur, mæðiveikin, kom til Skagafjarðar og lagði undir sig næstum helming héraðsins. Þá var sett bann á heyflutninga úr þeim hluta héraðsins til Sauðárkróks, og það hefir valdið mjög miklu og tilfinnanlegu tjóni fyrir þá, sem haldið hafa úti báti í förum milli Sauðárkróks og Siglufjarðar. Nú er svo háttað, að það er alveg á mörkum, hvort þessi bátur getur haldið áfram ferðum, og sjálfsagt ekki nema þær verði færri en áður. Ég vona, að hv. þm. skilji það, að slíkt hlyti að verða til mikils tjóns fyrir héraðsbúa, og þess vegna er þörf á að styðja að því, að þeim verði hjálpað. Þess vegna leggjum við þm. Skagf. til að reyna að lagfæra þetta með þeirri litlu fjárhæð, sem farið er fram á á þskj. 637 til viðbótar við flóabátastyrkinn. (GSv: Sá styrkur hefir verið hækkaður). En hann ætti að hækka hlutfallslega nokkru meira þarna en annarstaðar. Ég vil benda hv. þm á, að þessi bátur er til mikils gagns, og það yrði mikill munur með heyflutningana, ef þær ferðir yrðu lagðar niður. Jafnframt eykst nú ár frá ári þörfin á samgöngum milli Skagafjarðarhafnanna og Siglufjarðar. Allt fram á síðustu ár hefir þeim ferðum verið haldið uppi af bát, sem gekk frá Akureyri, en þær ferðir eru mjög erfiðar og óhagfelldar fyrir Skagfirðinga, þótt að því ráði yrði horfið, og þess vegna þótti rétt að breyta svo til, að hinn nýi bátur gangi frá Siglufirði til Skagafjarðar. Tillagið, sem Skagafjarðarbáturinn fær, er ekki nema 1/3 af því, sem sá bátur fær, sem heldur uppi samgöngum á Eyjafirði. Það hefir verið litið þannig á, að það væri réttmætt, að sá bátur fengi meira en helmingi hærra tillag en hinn, sem heldur uppi samgöngum milli Siglufjarðar og Skagafjarðarhafnanna, en hvort svo er, skal ég ekki dæma um. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það verði lækkaður styrkur til flóabátsins á Eyjafirði, svo að meiri jöfnuður komist á. En til þess að bæta úr brýnni nauðsyn, er sú till. borin fram, sem ég hefi nú rætt um.

Þá eigum við þm. Skagf. loks örlitla brtt. á þskj. 619, sem er um að veita 600 kr. styrk til sjúkrasamlagsins á Sauðárkróki. Þetta sjúkrasamlag er með elztu sjúkrasamlögum hér á landi. Það hefir starfað af miklum dugnaði og hlotið miklar vinsældir. Á síðari árum hefir kreppt mikið að hag þess, því að það hefir engan ríkisstyrk fengið með nýju tryggingarlöggjöfinni. Þess ber að geta, að samlagið hefir gert tilraunir til að komast undir tryggingarlögin, en það hefir orðið árangurslaust. Forgöngumenn hreppsins hafa staðið á móti því, vegna þess, að þeir treystu sér ekki til að leggja í þann kostnað, er leiddi af því að greiða styrk fyrir þá, sem eru á vegum hreppsins. Nú ber sérstaklega á það að líta, að þarna er um sjálfstæða stofnun að ræða, sem hefir komið og kemur enn að miklum notum fyrir almenning á þessum stað. Í öðru lagi hefir það ekki tekizt hingað til að koma þessu sjúkrasamlagi undir l. nm alþýðutryggingar, og það er meira en vafasamur hagnaður fyrir ríkissjóð, ef það legðist niður. Það virðist því ekki vera ósanngjarnt, að þetta sjúkrasamlag haldi sama styrk sem áður, a. m. k. meðan verið er að koma því í kring, að það komist undir tryggingarlöggjöfina, því að þess er að vænta, að ekki líði á löngu áður en unnt verður að jafna þann ágreining, sem hefir valdið því, að það hefir ekki enn komizt undir tryggingarlöggjöfina, en vonandi getur það orðið.

Þetta voru nú þær aðaltill., sem ég hefi ástæðu til að kæmu fram, að svo komnu a. m. k. Ég skal aðeins bæta við nokkrum orðum út af síðustu till. á þskj. 636, sem er um að veita stjórn síldarverksmiðja ríkisins heimild til að lána ríkissjóði fé til þess að leggja veg yfir Siglufjarðarskarð og út til Raufarhafnar. Að vísu hafa verið leidd sterk rök að því, að nauðsyn beri til að koma þessum vegi upp yfir skarðið, og enginn ágreiningur er hér á Alþ. um það, þó að menn greini nokkuð á um leiðina að markinu. Það er alveg tvímælalaust ábyrgðarhluti fyrir Alþ. að halda þeirri skipun, sem er nú og hefir verið um Siglufjörð, að fólkinu er þar hrúgað saman, án þess að því sé séð fyrir samgöngum og verzlun til landsins, enda þótt atvinnurekstur á Siglufirði hafi verið styrktur mjög mikið að tilhlutun stjórnarvaldanna. Menn eru oft nokkuð undrandi yfir því, að á Siglufirði sé siðferðið miður en vera skyldi. Ég held, að það sé engu verra en gera mætti ráð fyrir, eftir þeim aðbúnaði, sem stjórnarvöld landsins veita þessum stað. Mér er það vel ljóst, að eina leiðin til þess að draga úr miður hollum áhrifum þessa staðar sé sú, að opna fólkinu leið út í sveitina. Þetta mætti takast með því að gera leiðina færa milli Siglufjarðar og Skagafjarðar. Þetta er sú stóra menningarhlið málsins. Önnur hlið þess er svo hitt, hversu geysilegt gagn væri fyrir sveitirnar, sem að liggja, ef gerður væri bílfær vegur þessa leið. Ég hygg, að ef hv. þm. skildu þá hlið málsins, myndi hún reynast miklu betri en hinar, sem oft hefir verið talað um, en það er að koma upp drykkjumannahæli og styrkja bindindisstarfsemi á Siglufirði. Ég er sannfærður um, að það er menningarauki að opna leiðina inn til landsins. Þess vegna er ég því fullkomlega fylgjandi, að vegur komist á; þó mun ég ekki að svo komnu blanda mér i, hvaða leið verður farin að því marki. Meðan ekki er borin fram önnur till. mun ég greiða atkv. með þeirri till., sem ég hefi nú rætt um.