28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

1. mál, fjárlög 1940

*Páll Hermannsson:

Ég skal lítið fara út í almennar hugleiðingar um fjárlfrv. eða þær breyt., sem liggja fyrir við það. Ég ímynda mér, að jafnvel þó að alvitrir menn og réttlátir væru valdir í þá n., sem sjaldan er í raun og veru kostur á, þá þætti mönnum samt eitthvað að störfum hennar. Ég þykist alveg viss um það, að störf fjvn. hafi verið unnin vel, þó að ég hefði eins og aðrir þm. í einstökum atriðum kosið þau öðruvísi.

Ég kvaddi mér hljóðs af því, að við samþm. eigum eina brtt. á þskj. 619, xxxv. Þessi brtt. er um það, að á 22. gr. fjárl., sem er heimildargr., komi heimild til þess að greiða Magnúsi Þorsteinssyni, Húsavík í Borgarfirði eystra, 1500 kr. styrk vegna fokskaða. — Það er annaðhvort ritvilla eða prentvilla í brtt., því að þar stendur „vegna fokskaða 5. marz 1937“, en á að vera: 5. marz 1938. Ég vænti þess, að prentvillan hafi ekki nein áhrif, þó að brtt. verði samþ. Ég býst ekki við, að við berum fram skriflega brtt. um þetta, því að það er öllum kunnugt, við hvaða fokskaða er átt.

Það er til fordæmi fyrir því, að hæstv. Alþ. hafi stundum hlaupið undir bagga með þeim, sem hafa orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni vegna t. d. jarðskjálfta eða ofviðris. Má í því sambandi nefna jarðskjálftatjónið, sem átti sér stað við Eyjafjörð 1933, sömuleiðis tjón af flóði, sem orsakaðist af ofviðri litlu síðar einnig við Eyjafjörð. Í marz 1938 gekk ógurlegt ofviðri sérstaklega yfir Norðausturlandið, og þá einkum yfir norðanverða Austfirði. Reyndar gekk þetta veður yfir allt landið, en ég held, að fokskaði hafi ekki orðið af þessu veðri annarstaðar en á þessu svæði. Þetta ofviðri olli miklu tjóni hjá fjölda manna á þessum slóðum, og sumarið 1938 var hlutazt til um það, að virðingarmenn í hreppnum virtu tjón þeirra, sem einkum urðu fyrir þessu tjóni, og hér fylgir frá þeim bókfært skjal um þessa virðingu.

Við höfðum þm. N.-M. óskað eftir því við hv. fjvn., að hún tæki inn í sínar till. einhverja fjárupphæð til bóta fyrir þá menn, sem þarna hafa orðið fyrir langmestu tjóni. Upphaflega höfðum við hugsað okkur að fara fram á, að allmörgum, sem urðu fyrir mestu tjóni, yrði að einhverju leyti bættur þessi skaði. En við hurfum frá því, þegar vitað var um það vandræðaástand, sem almennt ríkir nú af afleiðingum stríðsins. Það stendur svo á, að þessi bóndi, Magnús Þorsteinsson, hefir orðið fyrir langmestu tjóni. Það var metið tjón hjá sex eða sjö mönnum. Tjón eins þeirra var metið 2500 kr., annars var metið 3070 kr., og þess þriðja 3380 kr. En langmest er þó tjón þess manns. sem við óskum eftir, að hæstv. Alþ. rétti hjálparhönd. Þykir mér rétt að lesa lýsingu á þessu tjóni, sem hann hefir orðið fyrir, með leyfi hæstv. forseta.

„Samkvæmt beiðni hreppsn. Borgarfjarðarhrepps, að tilhlutun sýslumanns N.-M., höfum við undirritaðir virðingarmenn metið skemmdir sem urðu af ofviðrinu 5. marz s. 1. hjá eftirtöldum mönnum:

1. Magnúsi Þorsteinssyni, Húsavík.

Tvö íbúðarhús úr timbri með járnþaki 15 X 6 áln. og 12 X 6 áln., tvær hæðir, þrjár skúrbyggingar, áfastar íbúðarhúsum, þak úr timbri og járni (hesthús 6 X 6 áln., fjárhús 21 X 6 áln. og fjós og geymsla 12 X 5 áln.).

Þessi fimm hús fuku öll með fólki og allri búslóð og munum, íveru- og rúmfatnaði og matvælum. Fólkið meiddist þó ekki svo, að það væri frá verkum til muna, nema húsráðandinn, Magnús Þorsteinsson, sem lá nokkrar vikur í meiðslum og er enn ekki jafngóður.

Auk þess fuku frá sama eiganda tvær hlöður, 12 X 3 áln. og 13 X 8 áln., járnþak af 120 kinda fjárhúsi, 50 hestar taða, 10 hestar úthey og 20 hestar svörður.

Af þessu náðist aftur nokkuð af ytri íverufatnaði, sængur, nema þrjár, svo og kjöt og súrmatur.

Skaðinn er metinn samtals 10100 kr.“

Hv. alþm. geta nú séð eftir lýsingunni á þessu foki og eyðileggingu, að varla mun vera um of hátt mat að ræða. Þarna í Húsavík í Borgarfirði eystra býr fátækur bóndi; reyndar vinna þar með honum bræður hans, yngri menn en hann. En efnahagurinn er ekki betri en það. að eftir skattaframtali við áramótin 1937–1938 er skuldlaus eign bóndans ekki eins mikil og skaðinn, sem hann hefir orðið fyrir, þannig, að hann hefir beðið meira tjón af ofviðrinu heldur en nemur eignum hans nú. Þó hafa þessir menn haldið áfram að vera þarna, þótt þeir hefðu getað flutzt til kaupstaðanna engu síður en aðrir, sem þangað hafa flutt í seinni tíð.

Ég vildi, að hv. þm. sæju það, að það, sem hér er farið fram á, er í raun og veru lág upphæð, samanborið við það tjón, sem þarna hefir orðið. Ég skal játa, að það orkar tvímælis, hvort hv. Alþ. á að blanda sér inn í það, þegar einstakir menn verða fyrir tjóni slíku sem þessu. En þetta hefir Alþ. gert, og ég ætla, að það hafi gert það, þegar minni ástæða hefir verið til að gera það heldur en um er að ræða í þessu tilfelli. Vil ég vænta þess, að hv. alþm. ljái þessari mjög svo hóflegu till. atkv. sín, og geri það eins og til þess að hlaupa lítilsháttar undir bagga með þeim, sem verða fyrir svipuðu tjóni. Og mætti jafnvel líta á þessa fjárveitingu, ef samþ. verður, eins og litla viðurkenningu til þeirra manna, sem heldur mæta erfiðleikunum úti um sveitir landsins og brjótast þar áfram en að flytja í fjölmennið, eins og nú þykir fullmikið bera á.

Ég vil að lokum geta þess, að þó að við tillm. höfum borið þessa till. fram við 22. gr. fjárl., heimildargr., þá gerðum við það aðeins vegna þess, að við fundum ekki hentugri stað fyrir tili. í þeim reikningslegu gr. fjárl., en ekki vegna þess, að við ætluðumst til, að þessi útgjaldaheimild verði réttlægri heldur en aðrir útgjaldaliðir fjárl., þótt hún standi á heimildargr. fjárl.

Ég hefði viljað ná til eyrna fleiri hv. þm. með þær upplýsingar, sem ég hefi gefið viðvíkjandi þessari brtt., jafnvel þótt það sé kannske varla von, að hv. þm: sitji hér fleiri en þeir eru, þegar tillit er tekið til þess, á hvaða tíma sólarhringsins við nú erum hér.