28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

1. mál, fjárlög 1940

Skúli Guðmundsson:

Ég á hér tvær brtt. á þskj. 619. Sú fyrri snertir ekki mitt kjördæmi frekar en mörg önnur. Hún er um styrk til Eimskipafélags Íslands, þ. e. a. s. að gera lítilsháttar breyt. á þeim skilyrðum, sem þar fylgja.

Þessi viðbót mín er við það skilyrði, sem fylgir styrknum til félagsins, og um það, að Eimskipafél. skuli á næsta ári greiða allan aukakostnað, sem af því leiðir, að vörur, sem skip þess flytja frá útlöndum, þurfa að affermast til umhleðslu á öðrum höfnum heldur en ákvörðunarstaðnum, ef Eimskipafélagið hefir haldið uppi beinum ferðum til þessara ákvörðunarstaða. Þessi brtt. mín er eingöngu borin fram vegna stríðsástandsins, sem nú er, og gera má ráð fyrir, að verzlun landsmanna fari nokkuð í nýja farvegi af völdum stríðsins.

Það hefir verið mikið rætt um að taka upp viðskipti við Ameríku, og er það þegar byrjað. Eimskipafélagið er þegar búið að senda skip þangað með vörur, sem hafa tekið aftur nauðsynjavörur hingað til lands. Og það hefir verið svo með nokkuð af þessum vörum a. m. k., að þótt þær hafi átt að fara til ýmissa hafna á landinu, þar sem Eimskipafélagsskipin hafa viðkomustaði, þá hefir þeim verið skipað upp í Reykjavík og þær síðan fluttar á öðrum skipum til ákvörðunarstaðanna. Jafnvel þó að Eimskipafélagið flytji þær vörur á ákvörðunarstaðinn án aukaflutningsgjalds, þá lendir umhleðslukostnaðurinn, sem fellur á þær vörur, á þeim mönnum, sem kaupa þær. Ég álít ekki sanngjarnt, að þessi aukakostnaður, sem stafar af breyttum ástæðum vegna stríðsins, komi niður á þeim, sem búa við óhentugustu hafnarskilyrðin. Ég tel eðlilegast, að Eimskipafélagið borgi þennan aukakostnað við umhleðsluna.

Hinsvegar getur svo farið, að Eimskipafélagið geti ekki gert þetta, nema með því að hækka eitthvað lítilsháttar farmgjöld á þeim vörum, sem það flytur til landsins. En þá tel ég réttara, að sá kostnaður komi niður á alla landsmenn, sem flytja vörur með skipum félagsins, heldur en að þessi kostnaður lendi eingöngu á þeim, sem fá vörur til smáhafnanna. Þegar þetta er athugað, að búast má við þessum breyt. á aðflutningum til landsins, tel ég, að geti verið vafasamt, hvort hægt er að draga að verulegu leyti úr strandferðum, eins og hv. fjvn. hefir gert ráð fyrir í nál. sínu. Það er ekki hægt nema með því, að Eimskipafélag Íslands sjái um, að þessar vörur, sem það tekur að sér að flytja, t. d. frá Ameríku, komist viðstöðulaust á hafnir úti um land, þangað sem þær eiga að fara. Má benda á, að þeir, sem búa við smærri hafnirnar, verða fyrir óþægindum af þessari umhleðslu á útlendum vörum, þrátt fyrir það, að þeir yrðu ekki að borga beinlínis hærra flutningsgjald eða umhleðslukostnað, vegna þess að það kemur oft fyrir, að vörur rýrna og skemmast við umhleðslu. Þennan kostnað yrði viðtakandi að bera, þó að hann slyppi við að borga tvöfalt flutningsgjald eða umhleðslugjald. Ég vænti þess, að við athugun málsins geti hv. þm. á það fallizt að samþ. þessa brtt. mína, þar sem með henni er ekki ætlazt til þess, eins og ég hefi skýrt frá, að Eimskipafélagið taki á sig aukakostnað umfram það, sem það getur með góðu móti, heldur aðeins að það dreifi þessum kostnaði, sem af umhleðslunni leiðir, á alla, sem flytja vörur með skipum þess frá útlöndum, en láti það ekki lenda eingöngu á þeim, sem búa við lökustu hafnarskilyrðin.

Önnur brtt., sem ég flyt, er einnig á þskj. 619 og er við 17. gr., að þar verði tekinn upp styrkur til sjúkrasjóðs verkamannafélagsins Ægis í Þverárhreppi, 150 kr. Á þessari gr. eru nokkrir slíkir styrkir til sjúkrasjóða víðsvegar um land. Og þar sem hér er aðeins um smáupphæð að ræða, sem er mjög lítil samanborið við þau miklu útgjöld, sem ríkissjóður hefir vegna sjúkrasamlaga í kaupstöðum, tel ég sanngjarnt að samþ. þessa brtt. mína.

Þá vildi ég minnast á eina brtt., sem fjvn. hefir flutt á þskj. 587 við 13. gr. fjárl. Þessi till. er um bryggjugerð á Hvammstanga, lækkun á því framlagi, sem gert er ráð fyrir í fjárlfrv., um tæplega 6000 kr. Saga þessa máls er þannig, að á fjárl. 1939 var í fyrsta sinn tekið upp framlag til bryggjugerðar á Hvammstanga, fyrsta greiðsla af fjórum, 9200 kr. Þarna hefir engin bryggja verið nema mjög lítilfjörleg timburbryggja, sem er algerlega ófullnægjandi. Nú á þessu ári var byrjað á þessari bryggjugerð og gerður nokkur hluti bryggjunnar. Þessi upphæð, sem fjvn. leggur til, að verði látin standa á í fjárl., 3500 kr., er sá hluti af þeim kostnaði, sem þegar er búið að leggja í og ríkinu er skylt að l. að greiða. Einn af fjvnm. átti tal um þetta við mig fyrir nokkru. Þá skildist mér á honum, að fjvn. mundi taka af frv. alla slíka liði, fyrst og fremst vegna þess, að hún sæi nauðsyn á að draga úr innflutningi á erlendu efni til slíkra framkvæmda, og þá gat ég fyrir mitt leyti fallizt á, að þetta væri lækkað og ekki gert ráð fyrir viðbótarframkvæmdum við þessa bryggju nú á komanda ári. Nú sé ég, að n. gerir ekki till. um að lækka neina af þessum liðum, nema þennan eina, og flytur auk þess brtt. um ný framlög til bryggjugerða og lendingarbóta viða annarstaðar á landinu. Þess vegna sætti ég mig mjög illa við, að þessi eini liður sé tekinn út úr og lækkaður. Ég vil því mjög mælast til þess, að fjvn. taki þessa till. aftur og láti upphæðina standa eins og hún er í frv. Ég skal taka fram, að verið getur, að ekki þurfi að nota þessa upphæð í ár, en vel gæti verið, að þyrfti að gera það, ef nauðsyn bæri til að leggja í viðbótarkostnað til þess að koma í veg fyrir skemmdir og eyðileggingu á þeim hluta bryggjunnar, sem er búið að gera. Ég er hinsvegar á því, að rétt sé, meðan á stríðinu stendur, að fresta framkvæmdum, eftir því sem hægt er, af því tagi, sem kostar erlendan gjaldeyri.

Ég hafði fengið tilmæli um það úr mínu kjördæmi, að reyna að fá framlag til sundlaugar Miðfirði. Ég hefi látið niður falla að eiga tal um það við fjvn., af því að ég gerði ráð fyrir, að slíkar framkvæmdir mundu stöðvast af völdum stríðsins, því að þótt það sé mikil nauðsynjaframkvæmd, þá tel ég fulla ástæðu til að kippa að sér hendinni, meðan stríðið stendur, um þær framkvæmdir, sem kosta erlent efni, sem hlýtur að hækka mjög í verði. Ég hefi því ekki borið fram till. um þetta, þó að margar slíkar till. séu fram komnar, bæði frá fjvn. og einstökum hv. þm.

Ég vil þá minnast nokkuð á brtt. frá 3 hv. þm., á þskj. 637, hv. þm. Snæf., hv. 2. þm. Eyf. og hv. þm. Ísaf. Er hún um framlag til áframhalds heimssýningar í New York. Það er rétt. sem hv. þm. Vestm. tók fram, að enn er ekki séð, hvern fjárhagslegan ávinning við höfum af þátttöku í þessari sýningu, þótt af öllum sé talið, að hún hafi orðið þjóðinni til sóma Ég tel því mikið vafamál, að rétt sé að gera ráð fyrir stórfelldum framlögum til viðbótar í þessa sýningu, á þeim erfiðleikatímum, sem nú eru, þar sem hér er eingöngu um útlendan gjaldeyri að ræða. En ég vil þó taka undir það, sem hæstv. viðskmrh. benti á, að þetta á alls ekki heima á 22. gr. Ættu hv. flm. till. að setja þetta á aðra gr. fjárl., en alls ekki á heimildagr. Sama máli gegnir um fleiri till., sem bornar eru fram við 22. gr., eins og um það að gera geymslu fyrir þjóðminjasafnið. Slíkt á alls ekki heima í 22. gr., því að það verður að teljast mjög óviðeigandi að fara að fela útgjöldin á þann hátt að setja þau á heimildagr., þar sem gera má ráð fyrir og reynsla er fengin fyrir því, að yfirleitt eru notaðar allar heimildir, sem þannig eru veittar. Þetta verður til þess, að fjárl. sýna ekki þá réttu útkomu, þegar þau eru afgr. frá þinginu.

Þá hefir fjvn. flutt hér till. um það á þskj. 636, að heimila stj. síldarverksmiðja ríkisins að lána ríkissjóði stórar fjárhæðir til vegagerða, aðallega yfir Siglufjarðarskarð. Ég er á sama máli og margir aðrir þm. um það, að mikil nauðsyn sé að leggja þennan veg sem allra fyrst, þó að ég telji mjög vafasamt, að leggja beri svo mikla áherzlu á að fullgera hann á næsta sumri, þar sem þetta er mjög stór framkvæmd, og allt kemst af, þó að hún sé tekin á 2–3 árum. Ég tel, að ekki sé hægt að fara þessa leið, sem hér er stungið upp á, því að ég er á þeirri skoðun og byggi þar á talsverðum kunnugleika að því er síldarverksmiðjurnar snertir, að hagur þeirra er ekki þannig, þrátt fyrir góða veiði á þessu ári, að þær megi við að missa fé til þessara hluta. Það er nú þegar ákveðið, að þær ráðist í allmikla stækkun, sem kostar mikið fé, og mun því ekki af veita, þó að þær verji gróða sínum til þess. Það hefir ekki verið afskrifað mikið undanfarin ár af stofnkostnaði verksmiðjanna, og er því ástæða til, þegar sérstök höpp koma fyrir eins og nú, að nota þann ágóða til þess að færa niður bókfært verð verksmiðjanna og koma þeim á tryggari grundvöll fjárhagslega. Hv. þm. Ísaf. ræddi allmikið um þessa till n. og mælti á móti henni. og einmitt vegna þess er ég mjög hissa á þeirri brtt., sem hann hefir borið fram á þskj. 639, um heimild fyrir stjórn verksmiðjanna að greiða útgerðarmönnum, sem seldu verksmiðjunum síld með föstu verði á síðasta sumri, uppbót á þetta verð, sem nemur kr. 1.50 á mál. Ég álít rétt hjá hv. þm., að verksmiðjurnar þurfi á þessu fé að halda til annara hluta, og þá tel ég alls ekki viðeigandi af honum, fyrst hann heldur slíku fram, að leggja fram slíka till. sem þessa. Eins og kunnugt er, hafa allir viðskiptamenn verksmiðjanna átt þess kost að undanförnu, og eiga þess kost, að leggja síldina inn í verksmiðjurnar til vinnslu og fá þar greitt, þegar reikningarnir eru gerðir upp, það, sem raunverulega fæst fyrir síldina. Minni hluti þeirra hefir farið þessa leið. Þeir, sem gerðu það á síðasta sumri, fá mikla uppbót, en þeir, sem vildu selja föstu verði, eiga enga uppbót að fá. Það er engin ástæða til að gefa þeim þarna stórfé, því að þegar verksmiðjurnar verða fyrir tapi af síldarkaupum vegna þess, að verðið hefir verið ákveðið hærra en hægt hefir verið að greiða, þegar upp hefir verið gert, hafa þeir aldrei verið krafðir um endurgreiðslu, og mundu aldrei verða krafðir, enda ekki hægt. Þessi till. er því mjög fráleit í alla staði. Það samrýmist alls ekki þeirri umhyggju, sem hv. þm. Ísaf. virðist bera fyrir hag verksmiðjanna, að leggja slíkt til.

Hv. þm. Ísaf. gerði einnig aðra till. fjvn. að umtalsefni, þar sem lagt er til að veita heimild til að kaupa síldarverksmiðjuna á Húsavík. Ég ætla ekki að þessu sinni að gera sérstaklega að umræðuefni þá till. fjvn., en út af því, sem hv. þm. Ísaf. sagði um það, vil ég taka fram, að það er rétt hjá honum, að vinnslukostnaður á síldinni er vitanlega hærri hjá litlum verksmiðjum heldur en stórum. En ég vil aðeins benda á í sambandi við þetta, að framkoma hans áður í öðrum málum, sem stjórn verksmiðjanna hafði til meðferðar, er mjög í ósamræmi við þessa ræðu, sem hann hélt hér um Húsavíkurverksmiðjuna. Á ég þar við verksmiðjuna á Sólbakka við Önundarfjörð og þær umr., sem urðu um þá verksmiðju í stjórn síldarverksmiðjanna í fyrra. Meiri hluti síldarverksmiðjustj. lagði til þá, að vélar verksmiðjunnar á Sólbakka yrðu fluttar þaðan og settar niður á Raufarhöfn, þar sem sýnilegt þótti, að ekki væri hægt að reka Sólbakkaverksmiðjuna nema með stórtapi fyrir verksmiðjurnar. Á undanförnum árum hafa verksmiðjurnar haft mikið tap á Sólbakkaverksmiðjunni. Það hefir ekki verið unnt að fá umráðamenn veiðiskipa til að leggja þar upp síld, nema að greiða þeim miklu hærra verð fyrir hvert mál síldar en fyrir þá síld, sem lögð er í verksmiðjurnar á Siglufirði. Þannig var tap á þessum rekstri í fyrra, og nú á árinu 1939 er mér ekki kunnugt um, að verksmiðjan hafi fengið eitt einasta mál til vinnslu. Hún er því stór baggi á verksmiðjunum, og eru það tugir þúsunda á ári, sem ríkið tapar á þessari verksmiðju, og eru litlar líkur til, að úr rætist með rekstur hennar. En þegar um þetta var rætt í stjórn verksmiðjanna, beitti hv. þm. Ísaf. sér mjög hart gegn því, að þessi ráðstöfun yrði gerð með Sólbakkaverksmiðjuna, og aðrir flokksbræður hans fylgdu honum í því. Það hefir því ekkert orðið af þessari sjálfsögðu framkvæmd ennþá. Nú virðist mér af ræðu hv. þm. um Húsavíkurverksmiðjuna, að hann muni ef til vill vera horfinn frá fyrri villu í þessu efni, og ber þá að fagna því, ef svo er. Vildi ég vænta þess, að hann snerist á sveif með öðrum þeim mönnum í stjórn verksmiðjanna, sem vilja reyna að afstýra, eftir því sem hægt er, áframhaldandi tapi á Sólbakkaverksmiðjunni og reyna að koma í veg fyrir, að hún verði dragbítur á verksmiðjurnar, svo að ég noti orð hv. þm. Ísaf., með því að taka það, sem nothæft er af vélum og áhöldum, og setja niður á Siglufirði eða Raufarhöfn, eða einhverjum öðrum stað, þar sem meiri líkur eru til, að það geti gefið arð, því að það sér hver maður, að ekkert vit er í því, að eignin sé arðlaus á Sólbakka ár eftir ár og vélarnar látnar ganga úr sér, auk þess sem það kostar marga tugi þúsunda árlega fyrir verksmiðjurnar að greiða vexti af því fé, sem í verksmiðjunni liggur, og ýmsan annan kostnað, sem því er samfara. Vitanlega verður alltaf mikið tap á verksmiðjunni, en það mundi verða minna, ef sem fyrst yrði farin sú leið, að taka það, sem nothæft er úr henni, og reyna að gera það arðberandi á hentugum stað. Slíkt álít ég vera í fullkomnu samræmi við þá skoðun, sem kom fram hjá hv. þm. Ísaf. um það, að verksmiðjurnar ættu að vera á sem hentugustum stöðum, til þess að rekstur þeirra yrði sem hagkvæmastur og þær gætu greitt sem mest fyrir síldina.