28.12.1939
Sameinað þing: 22. fundur, 54. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (1052)

1. mál, fjárlög 1940

*Jónas Jónsson:

Ég vildi fyrst víkja fáeinum orðum að ræðu hæstv. fjmrh. (JakM) og get þakkað honum þau góðu ummæli og undirtektir, sem hann hafði um starf nefndarinnar, sem eins og önnur mannanna verk hefir orðið fyrir misjöfnum dómum. Það er ekki ástæða til, að ég fari út í það, hvort skoðanir manna hafa breytzt eða ekki, síðan þing kom saman. Ég held, að álit fjvn. hafi ekki breytzt síðan. Hún var þegar í byrjun ráðin í því að gera breyt. á mörgum stöðum, þar sem henni virtist mega koma sparnaði við, og þeirri viðleitni mun hún verða seinþreytt á. Rétt til dæmis um þá möguleika, sem n. þótti ekki rétt að vanrækja og til hagnýtari rekstrar horfa, vil ég nefna þá breyt. á siglingum með ströndum fram, að nota sér, að nýja Esja er hraðskreiðari en gamla Esja, og gefur það möguleika til að leysa að einhverju leyti Súðina og Skaftfelling af hólmi og nota þau í þjónustu framleiðslunnar. Á öðrum sviðum hefir orðið að skera niður fjárveitingar til verklegra framkvæmda og stuðnings við ýmsar umbætur víða um land, og það má segja um margt af því, að það sé hörmulegt að þurfa að gera þetta og vita um þörfina fyrir að vinna þetta og mikinn fjölda af fólki atvinnulausan í landinu. Nefndinni voru þessar þarfir ljósar og að hér í Rvík, þar sem fjöldi manns hefir jafnan haft atvinnu við að reisa sífellt nýja og nýja bæjarhluta, hvað sem leið annars afkomumöguleikum bæjarbúa til lands og sjávar. mundu nú byggingar stöðvast alveg að kalla og vaxa atvinnuleysi af þeim sökum í viðbót við atvinnuleysið, sem skapazt hefir við lömun framleiðslunnar. Vegna þessa alls var n. sammála um það, að reyna að gera ráð fyrir talsverðri vegagerð í sumar, sem kemur. Skipting vegafjárins hefir fjvn. reynt að áætla þannig, að það næði sem næst til allra landshluta, og hefi ég ekki heyrt aðfinnslur um það. Nú hefir n., eins og hæstv. ráðh. tók fram, ákveðið að gera það að till. sinni, að ef aðstaðan með útflutningsverzlunina versnaði að mun, væri stj. heimilt að draga úr allt að 20% af þeim framkvæmdum, sem ekki eru bundnar með l., ef þess gerist þörf vegna tekjumissis, sem leiðir af stríðinu. Ef meira þrengir að, þannig að allt fjármálaástand gerbreytist vegna þess að útflutningur minnkaði stórlega, myndi stj. verða að kalla þingið saman til þess að taka afstöðu til þessa breytta viðhorfs. Enda þótt sá grundvöllur, sem n. hefir byggt sínar till. á, geri það að verkum, að allir geti ekki verið ánægðir með sinn hlut, telur n., að þetta sé sú afstaða, sem hægt var að taka. Hæstv. ráðh. fannst, að n. hefði getað skorið meira niður, en ég vil aðeins benda á það, að þegar útflutningsverzlunin fór að lagast á miðjum þessum þingtíma, brá svo við, að fjárbænum bókstaflega talað rigndi yfir n. — Man ég t. d., að frá einum þm. bárust 10–12 fjárbænir vegna hans kjördæmis til þingsins og fjvn., og var nokkuð jafnt á komið úr öllum kjördæmum, en þessar fjárbænir skiptu milljónum. Fjvn. áleit, að á meðan ekki væri komið hallæri í landinu væri ekki heldur hægt að gera fjárl. fyrir hallærisástand. — Fari svo, sem við skulum vona að verði ekki, að hér skapist hallærisástand, gerum við ráð fyrir því, að hver sú stjórn, sem þá er við völd í landinu, muni gera þær ráðstafanir, sem með þarf, ásamt því þingi, sem hún kallar þá saman.

Hv. þm. A.-Húnv. (JPálm) gerði nokkrar aths. við tekjuhlið fjárl. Ég vil benda hv. þm. á, að frá hans kjördæmi hafa líka borizt kröfur um fjárframlög, og að hann og hans nánustu berast með straumnum eins og aðrir í þessu efni, en ég býst við, að þegar hann athugar nánar, að hér er ekkert hallæri ennþá, þá sé ekki hægt að gera ráð fyrir hallæristekjum. T. d. má geta þess, að aðalliðurinn í tekjum landsins, sem mþn. í skatta- og tollamálum gerði ráð fyrir að myndi á venjulegum tíma nema um 4 millj. kr., myndi með sama innflutningi og núv. verðlagi nema um 7 millj. króna. Þenna lið hefir n. áætlað 4 millj. kr., í samráði við hæstv. fjmrh. Það væri gleðilegt. ef þessi liður kæmist upp í 7 millj. kr., því okkur er það fyllilega ljóst í fjvn., að á svona tímum hljóta að koma margskonar útgjöld, sem stjórnin veit ekki um, en nauðsynlegt er að gera ráð fyrir. Það er eins líklegt, að ýmsir tollar og skattar gefi meiri tekjur en við höfum áætlað, og segi ég þetta þó ekki til þess að hvetja menn til að bera fram meiri útgjaldatill., heldur vil ég aðeins benda á, að útlitið er ekki geigvænlegt nú sem stendur.

Nægir þetta viðvíkjandi hinum almenna ramma, að fjvn. gerir ráð fyrir, að stj. geti dregið úr allt að 1/5 af þeim framkvæmdum, sem ekki eru lögbundnar. Er þetta tilraun til þess að búa svo í hendur stj., að viðunanlegt sé, ef aðstaðan er sæmileg í landinu.

Þá vil ég með fáum orðum minnast á nokkrar einstakar till. Mun ég þá fyrst minnast á þá gagnrýni, sem kom frá hv. þm. Ísaf. (FJ) á þeirri till., að ríkisstj. megi, með samþykki stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, kaupa síldarbræðsluverksmiðjuna á Húsavík.

Það er ekki gætilegt af þessum hv. þm. að fjölyrða svo mjög um það, hve verksmiðjan á Húsavík sé ónýt, því að hann og hans menn voru potturinn og pannan í því, að keypt var alónýt verksmiðja, Sólbakkaverksmiðjan, fyrir okurverð. (FJ: Hvar stóð Framsfl. í þeim kaupum?). Hann gerði það, sem hann gat, til þess að standa gegn kaupunum, en var ofurliði borinn; þetta skal ég sanna þm. annarstaðar. (FJ: Þetta er ekki satt, hér eru Alþingistíðindin.) Það var hv. þm. og hans liðar, sem komu Sólbakkaverksmiðjunni á, og það eru þeir, sem bera ábyrgðina á því, að þessi verksmiðja, sem er handónýt á þessum stað, var ekki flutt til Raufarhafnar. Þetta var vísvitandi gert, og af eintómu kjósendadekri. Og stjórn þessarar verksmiðju og ráðsmennska hv. þm., allt er það á sömu bókina lært. Við Sólbakkaverksmiðjuna eru t. d. tveir framkvæmdarstjórar, þessa verksmiðju, sem ekkert hefir verið unnið í ár eftir ár, en þó er verksmiðjan látin hanga þarna, aðeins til þess að halda fáeinum atkv.

Þegar þessi maður leyfir sér að tilefnislausu að koma með staðlausar ásakanir, má hann ekki furða sig á því, þótt hann verði flæktur í sínu eigin neti.

Vegna þeirra, sem ekki eru málinu kunnugir, vil ég aðeins geta þessa: Verksmiðjan á Húsavík er lítil en góð, vandað hús og vélar, og er ekki nema tveggja ára. Svo framarlega sem vit er í því að hafa síldarverksmiðjur á Siglufirði, er það einnig á Húsavík, því að sama aðstaða er á báðum stöðunum. Það er ekkert annað en blekking, sem kom fram í ræðu hv. þm. Ísaf., að öll sú síld, sem kemur til Húsavíkur, gæti eins vel komið til Siglufjarðar. Hvers vegna er þá verið að hafa verksmiðju á Raufarhöfn? Það er vegna vélbátanna af Öxarfirði og þar fyrir austan, sem ekki vilja fara með veiðina til Siglufjarðar. Eða heldur hv. þm., að það hafi enga þýðingu, að bátarnir geti tvíhlaðið og farið tvær ferðir til Húsavíkur á meðan þeir færu eina ferð til Siglufjarðar? Þetta skilja allir sæmilega vitibornir menn, sem eru ekki haldnir af sömu pólitískri blindu og hv. þm.

Ég veit, að verksmiðjan á Húsavík er lítil, en hún er góð og á góðum stað, og mér er kunnugt um það frá manni, sem hefir lengur fengizt við síld og síldarbræðslu en hv. þm. Ísaf., að það mun ekki mikið á mununum, að gróðinn á verksmiðjunni á Húsavík í sumar myndi nægja til þess að kaupa verksmiðjuna. Hitt er rétt, að fyrsta árið var verksmiðjan rekin með nokkru tapi, sem stafaði af því, að vélarnar voru nýjar og ekki fyllilega komnar í lag; en nú í sumar var útkoman þessi. Hv. þm. hefði orðið að fá síldina á Húsavík inn í sínar lélegu fyrirframsölur til þess að fá tap á Húsavíkurverksmiðjunni í sumar, og það hefði verið hæfilegt áframhald á starfi þm. að því er Sólbakkaverksmiðjuna snerti. Ég vil segja hv. þm. það, að meiri hluti stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, sem hefir bjargað verksmiðjunum við á síðasta missiri, en ekki þessi maður, er ekkert hrædd við að kaupa verksmiðjuna á Húsavík. Það er líka töluvert öðruvísi aðstaða þeirra Húsvíkinga, sem bjóðast til að afhenda verksmiðjuna áður en þeir byrja að græða á henni, en þessa hv. þm., sem á manna mestan þátt í að afvegaleiða sjómenn og útgerðarmenn á undanförnum árum, svo að þeir þora ekki lengur að leggja síld sína inn í síldarverksmiðjurnar og fá fyrir hana sanngjarnt verð.

Ég áleit rétt, úr því komið var út í svo ósanngjarnar umr., að skýra málið nokkru nánar, en ríkinu hafa aldrei boðizt slík kaup eins og á þessari verksmiðju, sem gæti greitt kaupverð sitt upp með fengnum gróða eins árs. Þess mun áreiðanlega ekki langt að biða, að verksmiðjan verði keypt, því að meiri hluti stjórnar síldarverksmiðja ríkisins er því samþykkur að kaupa verksmiðjuna.

Þá vildi ég næst víkja að till. n. um vegagerð yfir Siglufjarðarskarð og að Raufarhöfn, sem hæstv. viðskmrh. og þó einkum hv. þm. Ísaf. viku að í ræðum sínum. Þó hæstv. ráðh. sé ekki viðstaddur, vil ég víkja nokkrum orðum að ræðu hans, en það, sem okkur ber á milli um þessa till., er það, að hann álitur, að þessar vegagerðir séu óviðkomandi verksmiðjunum. Ég álít, að ómögulegt sé að hugsa sér verksmiðju á Raufarhöfn, nema unnt sé að draga að henni sæmilegar vistir. Ef tekst að stækka verksmiðjuna, kemur þangað fjöldi báta um síldveiðitímann og fjöldi fólks sækir þangað atvinnu. Á Melrakkasléttu eru sárafáir bæir, og raunverulega ekkert nema eyðimörkin næst Raufarhöfn. Nú mun vanta um 20 þús. kr. til þess að gera akfæran 15 km. langan vegarkafla til Raufarhafnar. Hver sá, sem lítur stórt á þetta, hlýtur að viðurkenna, að það er vafasamt fyrir ríkið að byggja þarna verksmiðju og leggja milljónir króna í það fyrirtæki, ef það hefir svo ekki efni á því að viðurkenna, að vegurinn heim að þessari miklu vinnustöð er einn hluti af því, sem hér er um að ræða. Hvers vegna er verið að byggja bryggjur, löndunartæki, þrær o. s. frv., og segja að það skipti máli, ef ekki er mögulegt að komast heim að verksmiðjunni? Að þessu leyti er ég algerlega ósammála hæstv. ráðh., enda veit ég hvergi dæmi til þess nema hér á Íslandi, að byggðar séu stórar verksmiðjur án þess að hægt sé að komast að þeim á landi. Þætti mér gaman, ef einhver þeirra, sem eru þeirrar skoðunar, vildi nefna mér dæmi annarstaðar frá.

Þetta mun ég segja hæstv. viðskmrh. í fullu bróðerni. Ég held, að ég muni þora að leggja þessa uppástungu mína — sem studd er af meiri hluta n. og af allmörgum utan n. —, að kostnaður við þessar vegagerðir verði talinn með kostnaði við verksmiðjurnar, á borð við það, þegar hæstv. viðskmrh. gekk inn á það, að síldarþróin var byggð, sem þeir báru ábyrgð á hv. þm. Ísaf. og undirmaður hans, Gísli Halldórsson. Ég veit, að stjórnin hafði trú á því, að vit væri í þessu, vegna þess að hún treysti verkfræðingnum. En hver varð reynslan? Hann lét byggja þarna þró fyrir 270 þús. kr., sem að vitra manna sögn er eitthvert það vitlausasta mannvirki, er gert hefir verið á Íslandi, og með þeim endemum, að þar átti að gera frystitilraunir á síld með vélum, sem hvergi höfðu sézt áður! Það komst þó aldrei svo langt; það eina, sem þeir félagar gerðu, var að byggja fyrir þessa ægilegu upphæð handónýtt hús, sem ekki er hægt að nota til neins annars en geyma í því lélegt lýsi. Í þetta dásamlega fyrirtæki eyddi hv. þm. Ísaf. 100 tonnum af járni fyrir utan allt annað efni.

Ég býst við því, að þegar við hv. þm. Ísaf. förum að tala betur saman um þetta í blöðunum, fari mesti rostinn af þm. við samanburðinn á því, hve fráleitt sé að gera þarna akfæra vegi, og á þessum þróar-business hans. — Hvað viðvíkur löndunartækjunum á Siglufirði, sem hv. þm. vill kaupa, má segja, að það er ekki spurt um það, þótt 100–140 þús. kr. fari í svona framkvæmdir, sem fara vel hjá duglegum manni, eins og þeim, sem nú er forstjóri fyrir síldarverksmiðjunum, en myndu fara illa hjá manni eins og Gísla Halldórssyni, sem flæmdist í burtu frá Siglufirði eftir að hafa hangið þar í 2 ár sjálfum sér til skammar og öllum til leiðinda. (FJ: Er nú ekki bráðum nóg komið?). Nei, þetta er ekki nærri nóg, og það er hægt að bæta meiru við; það er af nógum syndum að taka. (FJ: Og ljúga svo því, sem á vantarl). Þess þarf ekki, það er nógur forði af ávirðingum.

Ég skal ekki um það segja, hvað þeim mönnum finnst, sem hafa fjárhagslega mest um vegagerðina yfir Siglufjarðarskarð að segja, fyrir utan Siglfirðinga sjálfa; það kann að vera, að hv. þm. Eyf. og Skagf. taki bendingu hæstv. viðskmrh., að hafa varatill. í þessu efni, en ég álít, að það eigi að koma skýrt í ljós, hvort meiri hl. þingsins skilur, að það er skilyrðislaus nauðsyn, fjárhagslega og menningarlega, að koma vegi heim að þessum stöðum. Ég ætla ekki að þreyta hv. þm. á því að endurtaka það, sem hv. 1. þm. Skagf. sagði um hina menningarlegu hlið þessa máls, en hér er ekki bara um skemmtun að ræða, heldur er það sjálft lífið fyrir þær 12 þús. manna, sem eru á Siglufirði á sumrin. að komast ferða sinna beint frá Reykjavík ódýrt, landleiðina og án þess að þurfa að bíða eftir skipaferðum, og síðan heim aftur að haustínu. Það eru ekki margar beinar ferðir milli Siglufjarðar og Reykjavíkur á sumrin. Þessar 12 þús. manna, sem eru á Siglufirði um síldveiðitímann, þurfa vöruaðdrætti af landbúnaðarvörum, og þær hljóta að koma úr Skagafirði; þaðan á að vera látlaus straumur af landbúnaðarafurðum í þennan mikla markaðsbæ. Hvaða áhrif haldið þið að það hafi á heilsu þessa fólks að vera í svelti hvað landbúnaðarafurðir snertir?

Það gleður mig, að sú hreyfing, sem komizt hefir á mál þetta hjá fjvn., verður til þess, að aldrei verður sami svefninn um mál þetta sem hingað til. Ég er þess fullviss, að þessi umleitun fjvn. muni verða til þess, að svo framarlega sem hér verður nokkurt vinnufært fólk á næstu missirum, verði lokið við þennan veg með þeim árangri, sem formælendur málsins hafa lýst.

Þeir, sem gagnrýnt hafa þessa till. fjvn., hafa farið um það mörgum orðum, hve verksmiðjurnar séu illa stæðar og skuldir þeirra miklar. — En hvernig stendur á því? Það er vegna þess, að hv. þm. Ísaf. og fleiri honum andlega skyldir hafa látið brjóta stofnlög verksmiðjanna á hverju ári. Þegar verksmiðjurnar voru stofnaðar á Siglufirði, var það gert til þess að bjarga sjómönnunum og útgerðarmönnunum undan kúgun útlendinga, sem þeir höfðu orðið að þola um fjölda ára. Nauðsyn þessa skyldi hinn reyndi og duglegi maður, Magnús heitinn Kristjánsson. Hann gat ekki hugsað sér, að verksmiðjurnar væru reknar sem spekulationsfyrirtæki. Þær áttu að vera reknar þannig, að útgerðarmenn og sjómenn kæmu með sínar vörur, verksmiðjurnar væru reknar á þeirra ábyrgð, og þeim greiddur meiri hluti verðsins fyrir vöruna. En hvað gerist? Það gerist sá hlutur, að leiðtogar sjómanna og útgerðarmanna gera verksmiðjurnar að spekulationsfyrirtæki, og aldrei meira en þegar hv. þm. Ísaf. var þar ráðandi, þegar góðæri snerist í harðæri fyrir atbeina hans og Gísla Halldórssonar. Af þessum orsökum eru verksmiðjurnar fátækar og þurfa alltaf að biðja ríkissjóðinn að ganga í ábyrgð fyrir nýjum og nýjum lánum. En þegar verið er að biðja um að ganga í ábyrgðirnar, er ekki verið að grafa djúpt eftir því, hverjir beri ábyrgðina á því, að verksmiðjurnar eru ekki betur staddar en raun ber vitni. Þá er hér ekki heldur sagt, að það komi engum við nema þeim, sem þarna búa, hvernig ástandið sé. Þá er óhætt að láta alla landsmenn bera ábyrgðina. Ef það er rétt að láta 10 þús. menn á Suðurlandi ganga í ábyrgð fyrir síldarverksmiðjurnar á Siglufirði, þá er engin goðgá að fara fram á, að þeir, sem að síldarverksmiðjunum standa, sýni lít á að þakka það með því að viðurkenna, að einnig þeir kunni að hafa einhverjar þjóðfélagsskyldur. Og þó að ekki væri nefnt þakkiæti eða viðurkenning á skyldum, mætti ætlast til, að þeir legðu án allt of mikils mótþróa nokkurt fé í veg, sem er gerður til þess, að þeir geti sjálfir haft eitthvað í matinn. Það er kannske hægt að kalla það broslegt að treysta á getu og vilja þess fyrirtækis til framlaga, sem hefir verið borið uppi af Landsbankanum frá fyrstu tíð með rekstrarfé og stjórnað eins og því hefir verið stjórnað, broslegt að ríkið komi og biðji þetta skulduga fyrirtæki að lána sér nokkuð af því fé, — sem sumir vilja eyða öðruvísi, — til varanlegra vegabóta. En það kemur ekkert slíkt fram í mótmælum hv. þm. Ísaf., bara skilningsleysið á því, að fyrirtækið eigi nokkrar skyldur við þjóðarheildina, sem áfram fær að bera vaxtabyrðina fyrir það. Þetta er því spursmál um það fyrst og fremst, hvað þeim mönnum er siðferðislega skylt, sem hafa þarna há laun og vilja njóta þeirra, og það er spursmál um það, hvort þeir eiga aldrei að muna eftir því, að þeir eru í þjóðfélaginu. nema þegar þeir eru að biðja um lánsfé í síldarþró Gísla Halldórssonar eða annað, sem getur jafngilt henni.

Ég held ég hafi þá reifað þetta mál svo, að ég sé útbúinn í hverskonar orðaskipti, sem hv. þm. (FJ) kann að óska eftir. Og þá skal verða úr því skorið, ef ekki hér, þá meðal lesenda í landinu, hvor okkar hafi réttara fyrir sér. Hitt er annað mál, hvað þeir þm. gera í þessu, sem þykjast hafa þar sérhagsmuna að gæta fyrir einhverja aðila í kjördæmum sínum. Ég hefi aðeins verið að leita að þeim grundvelli í málinu, sem á megi byggja holla lausn fyrir heildina.

Þá vil ég víkja að brtt., sem ég veit ekki, hvort búið er að útbýta, en ákveðið mun vera að reyna að smeygja inn í frv. við þessa umr. til að ónýta það, sem ákveðið var hér við 2. umr., og fá þar með þingið til að lýsa algeru vantrausti sínu á mönnum, sem fráleitt hafa allir til þess unnið, þeim dr. Guðmundi Finnbogasyni, Árna Pálssyni, Barða Guðmundssyni, Pálma Hannessyni og mér. Við þessir 5 menn, sem erum í menntamálaráði, höfum nú starfað nokkur ár að vissum verkefnum og án þess að sérstaklega hafi verið að fundið með rökum, þótt þessi verk okkar séu vitanlega mannlegum takmörkunum háð. Ég býst við, að menn á eftir okkur geti gert það eins vel, en varla ástæða til að halda, að þeir geri það miklu betur. Þarna hafa nú 3 þm. — ég man bezt eftir hv. landlækni, þm. N.--Ísf. (VJ), með hv. borgarstjóra, 4. þm. Reykv. (PHalld) að baki, og framan við sig einhvern hv. þm., sem ég man nú ekki, — mér er sagt það sé skrifstofustjóri í stjórnarráðinu; það er yfirleitt mjög fínn félagsskapur fyrir landlækninn að vera í — þeir hafa nú borið fram þessa till., og það er auðséð, að það er hann, sem hefir mest til matarins unnið í þessu hernaðarbraski. Hann hefir hreiðrað sig þarna með hjálparkokk fyrir aftan og framan. Það er eins og í lögréttu hinni fornu, þegar þeir goðarnir sátu miðbekk og hver þeirra hafði mann fyrir framan sig og aftan til að spyrja ráða. ef vanda bar að höndum. En sá hernaður, sem þessir þremenningar hafa í frammi, er ekki annað en það, að þeir lýsa yfir því með „penum“ orðum, að menntamálaráð sé óhæft til starfa, sem því hafa verið falin, að það hafi m. a. verið óhæf ráðstöfun fjmrh. (EystJ) á síðasta þingi að vísa til þess framkomnum beiðnum um styrkveitingar og láta það ganga frá till. um þær, sem svo voru samþ. af Alþingi við 2. umr. fjárl. Þeir segja, að ekki sé vit í að trúa þessum 5 mönnum fyrir því verki oftar. En enginn þessara manna hefir óskað eftir þessu starfi eða beðið þingið að kjósa sig í menntamálaráð. Þegar að því ráði var horfið að taka þessi mál út úr argi þingsins, þótti rétt að snúa sér til þessarar 5 manna nefndar. Nú er ýmislegt skemmtilegt í sambandi við þetta. Það, sem vakti fyrir núv. viðskmrh., var að koma þessu fyrir á kyrrlátari stað, hjá nefnd, sem starfaði ár frá ári, og það ætti engum að vera kærkomnara en sjálfum höfundunum og listamönnunum, sem styrks njóta. Nú get ég sagt frá því til fróðleiks, að það hefir eitthvað borizt um þennan hernað út á landsbyggðina. Ég hefi fengið bréf frá langsamlega frægasta höfundi landsins, Gunnari Gunnarssyni, þar sem hann biður í almáttugs bænum um, að ekki verði farið að berjast um sig í þinginu. „Ég hefi ekki beðið um neitt og vil ekkert síður,“ segir hann, „en að farið sé að leggja mig á það kvikskurðarborð.“ — Þetta segir frægasta skáld okkar, og það þvert upp í geðið á Alþingi. Ef einhverjir af þeim góðu þm., sem héldu því fram síðast, að það væri svo yndislegt að láta berjast um sig í þinginu, vildu hugsa betur út í þetta, hljóta þeir að finna, hve óskemmtilegt það er að vera að rífast hér um það, hvort þessi höfundurinn sé guðlaus eða kristilegur, skáld eða ekki skáld, ósiðlegur eða ekki o. s. frv., eða hvort málarinn máli eins og þessi og þessi vill hafa það eða allt öðruvísi. Það má líka nefna t. d., að á síðustu 20 árum, sem Alþingi hefir haft skiptingu þessa fjár með höndum, hefir Jóhannes Kjarval ekki fengið nema fáein hundruð króna. Minnið á slíka menn er þá ekki betra en þetta hjá þeim 49 mönnum, sem sitja hér saman yfir úthlutuninni. Og ef litið er aftur í tímann, er það Alþingi til skammar, hvernig það fór með Jón Trausta, Einar Kvaran og Þorstein Erlingsson.

Þetta segi ég ekki af því, að ég telji forsjá okkar í menntamálaráði svo góða, að því geti ekki skeikað. En á það og verk þess hefir ekki verið deilt. Ég ætla ekki að tala um sjálfan mig, því að margir menn geta haldið, að ég hafi þar rangt fyrir mér. En ég veit ekki betur en Sjálfstfl. hafi hvað eftir annað kosið þá Guðmund Finnbogason og Árna Pálsson í ráðið og talið þá með sínum mestu andans mönnum. Ég veit ekki til þess, að Alþfl. hafi látið í ljós neina óánægju með Barða Guðmundsson, og ég veit, að Framsfl. er mjög ánægður með Pálma Hannesson. Nú er stungið upp á sérstakri 7 manna nefnd til þessa verks, án þess að neitt liggi fyrir um það, hvers vegna betra sé að taka það af 5 manna nefnd og setja það í 7 manna nefnd, þegar báðar n. eru kosnar af Alþingi á einn og sama hátt. Og hvernig stendur svo á þeirri skyndilegu uppgötvun, að bezt sé að búa til nýja nefnd, úr því að þessir hv. þm. fá því ekki ráðið að hafa enga nefnd og allt í gamla þvarginu? Jú, ástæðan er eingöngu sú, að þegar ráðh. (EystJ) hafði einu sinni tekið það upp að leita til nefndar, varð að viðurkenna, að það var það eina rétta. Svo koma þessir þrír vitringar úr Austurvegi og segja við menntamálaráð: Þið eruð ekki færir um þetta. — Og Alþingi, sem búið er að fela menntamálaráði verkið, á að sjá sig um hönd og segja: Eftir viku höfum við séð, að þið eruð ekki færir um þetta verk, sem okkar fyrirrennarar hafa gert svo yndislega. — En það er þá alveg nýtilkomið þetta vantraust sjálfstæðismanna á dr. Guðmundi Finnbogasyni og Árna Pálssyni, ef þeir eiga að fylgja þessari brtt.: þótt þeir vantreystu okkur, sem ekki erum flokksmenn þeirra, treysta þeir sínum mönnum. Alþfl. mun ekki heldur lýsa neinu vantrausti á Barða Guðmundssyni né Framsfl. á Pálma Hannessyni.

Menntamálaráð hefir ekki efazt um, að því væri treyst og að því væri ætlað að taka hlutverk sitt ákveðnum tökum. Það hefir tekið að búa sig undir framkvæmdir og undirbýr nú allumfangsmikla útgáfu hlutlausra, góðra bóka, bæði skáldsagna og fræðibóka, og hefir ekki farið dult með, að þannig er hafin barátta við kommúnistana í landinu, sem hafa rússneskan stuðning til að gefa hér út bækur. Það eru, eins og Valtýr Stefánsson lýsti í sumar, hlutlausar bækur sumt, en með fylgir áróðursritið Rauðir pennar, sem á að dreifa hinum magnaðasta áróðri fyrir Rússum og öllu, sem þeirra hugsunarhætti fylgir, út um byggðir og bæi landsins. Þessi starfsemi náði hámarki í vor, þegar merkilegur maður við háskólann, Sigurður Nordal, lofaði ásamt fleiri kunnum mönnum að hjálpa kommúnistum við útgáfa þeirra. En þá risu upp öndverð öll blöð lýðræðisflokkanna, og sá mæti maður, Sigurður Nordal, varð fyrir mjög hörðum dómum fyrir það að fara að hjálpa til við þetta fyrirtæki tiltölulega duglegra og frá sjónarmiði sannra Íslendinga talsvert hættulegra manna, sem virðast hafa ótæmandi fjáruppsprettur, eftir því sem hér er um að ræða. Það átti ekki að fara að lögbanna Kommfl. og útgáfustarfsemi hans, heldur gefa út góðar og ódýrar bækur, til þess að almenningur léti Rauða penna róa og tæki heldur bækur menningarsjóðs í staðinn. Maður skyldi halda, þegar annarsvegar voru hinir sönnu Íslendingar, Sjálfstfl., og hinsvegar Alþfl., að mönnum úr þeim flokkum þætti ekki nein nauðsyn að berjast fyrir kommúnistana í þessari baráttu. En þegar líða tók á þingið, fóru að sjást ýmsir skrýtnir hlutir. Landlæknirinn, Vilmundur Jónsson, virtist þá vera orðinn einn af soldátunum í fremstu skotgrafalinu Rússanna. Hann fylkir liði þeirra, þegar barizt var um kosningu á forseta Þjóðvínafélagsins, barizt um að koma þar á styrkri stjórn í samvinnu við menningarsjóð, og kommúnistar vissu vel, að félagið mundi þá verða að liði í baráttunni gegn þeim. Hann sendir mann til kommúnista til að segja þeim, hvaða mann þeir geti kosið til þess að fella mig, þennan hættulega mann, — það var annars mætur maður í sjálfu sér. Ég var svo dæmalaust áhugalaus um þessa kosningu sem mest mátti verða, kaus mig ekki sjálfur og gerði ekkert til að tryggja, að hún færi frekar á einn veg en annan. Nú tókst þetta ekki hjá landlækninum, herlína hans bilaði; ég vil segja allt gott um kommúnistana, þeir standa sig eins vel og húsbændur þeirra standa sig illa núna á Finnlandi, en það dugði ekki. Næsti áfanginn var, að lærðir prófessorar gengu með stór bænarskjöl, og átti að fá alla stærstu heila landsins til að skrifa undir áskorun til þingsins um að breyta hinni vikugömlu samþykkt um menntamálaráð í þá átt, sem Austurvegsvitringarnir leggja nú til. Þó að ágætlega væri til þessa stofnað, er nú kunnur ég held gervallur árangurinn. Þegar þessir lærðu prófessorar voru búnir að fá sjö á skjalið, ráku þeir sig á múr, sem reyndist óvinnandi; það var þeim Mannerheimlína. Þeir mættu bara einum prófessor, sem sagði: „Ég vil ekki sjá þetta,“ — og Rússaher varð að láta undan síga. Þá var snúizt að Petsamo og sendir menn til sjálfra meðlima menntamálaráðs, svo sem Barða Guðmundssonar og Guðmundar Finnbogasonar. En Guðmundur Finnbogason svaraði á þá leið, að hvað sem sjálfstæðismenn, umbjóðendur sínir, álitu um það, hvort hann væri nógu góður til að vera í menntamálaráði eða ekki, þætti sér ekki viðeigandi að skrifa undir vantraust á sjálfan sig. Þá var leitað fyrir sér á Kyrjálavígstöðvunum, hvar sem líklegast þótti, þó að við minni háttar menn væri að eiga. Niðurstaðan var sú, þegar ég síðast frétti, að sá, sem mest hefir gengið fram í þessu undanfarið, var búinn að fá fimm og liggur nú líka óvígur heima, en ef skjalið er ekki týnt, er það líklega komið hingað í Alþingi til geymslu. (ÍslH: Það er komið og týnist ekki). Nú, það er gott. — Þó að þessi hergagnaútvegun kommúnista hafi ekki verið sem auðveldust, þarf alls ekki að tvíla þeirra dugnað, og ég held varla þeirra féráð.

Ég held það megi teljast afsakanlegt, þó að ég segi hér örfá orð viðvíkjandi bókmenntum við þá, sem vilja láta berjast um þær á þessum stað, og þá einkum bókmenntum þeirra kommúnista, sem eru á föstum fjárlagastyrk hjá ríkinu. Það er alveg rétt hjá þeim að berjast fyrir að halda þeim styrk. Þeir vilja annaðhvort fá að vera í 18. gr. eða undir vernd okkar ágæta landlæknis, sem þeim er svo andlega skyldur. Ég ætla bara að taka þrjú skáld.

Einn af þessum þremur skáldum, sem kannske er þeirra minnstur fyrir sér, hefir ort niðkvæði um föður sinn. Þetta getur vel verið, að karlinn hafi verið lélegur, a. m. k. gæti þessi sonareign hans bent til þess. En mér finnst það sé ekki ríkisrekstur af réttu tagi að styrkja mann til að koma út leirugu níði um föður sinn.

Þá kem ég að öðru skáldi, sem nú er farinn að láta þýða bækur sínar á erlend mál. Hann lýsir samvistarmönnum sínum, þar sem þeir standa með ræðuhöldum uppi á síldartunnum og í flestum þeim ósmekklegustu kringumstæðum, sem úthugsaðar verða. Engum nema kommúnistum gæti komið til hugar, að samning og útgáfa svona ritsmíða eigi að vera ríkisrekstur. Þetta eru bókmenntir eftir mann, sem hefir mikla hæfileika og menn gera sér miklar vonir um. En hann hefir öll einkenni kommúnistanna. það er þeirra orðbragð og þeirra hugsunarháttur, sem kemur í þessari bók. Maður getur lesið margar blaðsíður, sem eru skemmtilegar aflestrar, en svo kemur leirburður. Ég get tekið til dæmis eina vísu úr þessari bók, sem er snúin úr „Kátir voru karlar“. Þetta er létt og skemmtilegt, en þar er öllu snúið við, það er kalt háð og spott og annað eftir því. Það er nóg að lesa þessa litlu vísu til þess að sjá, hvaða andleg verðmæti hér er um að ræða. Þegar ég hafði lesið þá bók, sem ég vil víkja dálítið að, — ég get ekki komizt hjá að nefna hana, en hún kom út fyrir ári síðan, þar er tekinn einn þekktur maður í landinu, einn af leiðandi mönnum í landinu, og það eru sögð um hann ósannindi, óhróður, sem hægt er að segja um hvern einasta mann, án þess að hann geti varið sig. Ég held, að ég geti komizt hjá því að nefna annað dæmi. Það má kannske segja, að ég hefði ekki þurft að láta mig þetta neinu skipta, að þetta hafi ekki komið mér við, ég heyrði þetta vestur til Ameríku, svona var þetta útbreitt, þessi óhróður um pólitískan andstæðing. Þetta skipti mig sem borgara í þessu landi, hvaða maður, sem átti í hlut.

Það kom einu sinni í Alþbl. mynd af manni, sem hafði verið settur í gæzluvarðhald, og hann var þar stimplaður sem stórglæpamaður, enda þó að ekki væri búið að dæma í málinu. Mér fannst þetta ekki viðeigandi aðferð og settist niður klukkan eitt og skrifaði grein um málið. Þetta voru engir mannasiðir, sem fram kom hjá Alþbl., að ganga út frá því að maðurinn hlyti að vera sekur, af því að hann hafði verið settur í gæzluvarðhald, enda fór þetta mál þannig, að maðurinn var sýknaður fyrir öllum réttum og engum datt í hug, að nokkur skuggi hefði fallið á manninn, þó að hann hefði verið yfirheyrður í þessu máli. Það má segja, að mér kom þetta mál ekki meira við heldur en einhverjum öðrum af þessum 38 þús., sem byggja Reykjavík. En mér fannst, að ég sem Íslendingur gæti ekki þolað þessa aðferð, sem beitt var við manninn. Það var eins og bærinn andaði léttara eftir að ég hafði skrifað greinina um málið, af því að menn fundu, að rétt og drengilega hafði verið tekið á málinu. Ég tek þetta til að sýna hina ágætu blaðamennsku, sem kom fram í Alþbl., og sem líkist svo mjög aðferðum kommúnista. Ég hefi. ekki komizt hjá því að deila á Alþbl., ég ætla mér að sigra í þessu máli, — hvorki landlækni né öðrum er sómi að þessari aðferð í bókmenntum. Það verður látið fara fram nafnakall, þegar greidd verða atkv. um þessa till., og þá fær Sjálfstfl. tækifæri til að gera grein fyrir, hvernig hans sómatilfinning er í þessum efnum. Ég mun ekki hætta fyrr en öll þjóðin veit, hvað hér er um að vera, að kommúnistar eru að koma hér fyrir laglegri áróðursútgáfu gegn andlegri heilbrigði í landinu. Móti þessari útgáfu hefir menntamálaráð ráðizt, og hefir þar til stuðning fjölda manna utan og innan þingsins, úr öllum lýðræðisflokkunum. Það eru ekki nema fáir dagar síðan svo að segja hver einasti þm. lýsti því yfir, að þeir teldu virðingu þingsins misboðið með setu kommúnista innan þess; það hefir ekki verið hlustað á þá, þegar þeir hafa talað. Þetta gerðist fyrst og fremst vegna þess, að kommúnistar hafa svívirt okkar frændþjóð, í ræðu og riti, sem á nú í harðri baráttu við innrásarher Rússa.

Hér heima á Íslandi hefir nú risið upp sterkari samúðaralda en nokkurntíma hefir þekkzt í slíku tilfelli. Úti um landið hafa verið gefnar stórar gjafir til þessarar þjóðar, sem kommúnistar hafa ráðizt á; fátækur vitavörður gefur sitt litla mánaðarkaup, fátæk kona gefur silfurskeið til að hjálpa, en landlæknirinn reynir að hjálpa kommúnistunum. Ég er farinn að hlakka til að sjá og heyra nafnakallið og hvað margir þeir eru, sem ætla að meta silfurskeiðina á þann veg, sem hér um ræðir.